06.12.1948
Neðri deild: 27. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

83. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Ég skal að þessu sinni ekki tefja umræðurnar mikið frá því, sem orðið er, því að ekki hefur neitt nýtt komið fram undir umræðunum, auk þess hefur hæstv. forsrh. tekið margt fram af því, sem ég vildi sagt hafa. Ég skal þá fyrst svara þeim, er síðast talaði, hv. samþingmanni mínum. Hann var með ýmsar fyrirspurnir til mín, en hann hefði að raunalausu getað sparað sér þær að mestu leyti, því að um flest það, sem hann spurði um, gaf ég upplýsingar um fyrr við umr. þessa máls, fyrir 2 dögum. Hv. þm. spurði um það og fannst það mjög óeðlilegt, að innheimta iðgjalds samkvæmt 107. gr. skuli vera með 310 vísitölustigum, en ekki með 300 stigum, eins og lögbundið er. Þá er því til að svara, eins og ég gat um í síðustu ræðu minni, að í dýrtíðarl. frá 1947 er Tryggingastofnuninni gert að skyldu að greiða elli- og örorkulífeyri með vísitöluálagi 315 og auk þess heimilað að innheimta gjöldin með sama vísitöluálagi, en Tryggingastofnunin taldi sér fært nú á næsta ári að lækka vísitöluálag gjaldanna um 5 stig, og skil ég varla, að hv. þm. lasti það. Hitt má öllum hv. þm. vera ljóst, að hjá Tryggingastofnuninni, ekki síður, en öðrum fyrirtækjum, þá verða tekjurnar, ef vel á að fara, að hrökkva fyrir útgjöldunum. En Tryggingastofnunin vildi lækka innheimtukostnaðinn um þessi 5 stig og gerir sér vonir um, að það muni vera fært. Þá virðist hv. þm. vera undrandi yfir því, að reikningar Tryggingastofnunarinnar fyrir 1947 skuli ekki liggja fyrir enn þá. Það er nú svo, að alla, sem eitthvað skynbragð bera á slíkan rekstur, undrar slíkt ekki, því að þessu er þannig varið, að enn þá eru að berast svo að segja daglega til Tryggingastofnunarinnar ýmsir stórir útgjaldaliðir víðs vegar að af landinu og munu halda áfram að berast eitthvað fram á næsta ár. Tryggingarnar eru svo nýjar hjá okkur, að fjöldi fólks er ekki farinn að átta sig á því til fulls, og það dregst svo ótrúlega lengi, að fólk sendi nauðsynleg skilríki viðvíkjandi ýmiss konar bótum, sem það á rétt á samkvæmt l. En Tryggingastofnunin áleit ekki fært að vera mjög ströng í þessum efnum í byrjun og hefur því tekið til greina umsóknir, þótt þær kæmu miklu seinna, en æskilegt er og l. gera ráð fyrir. Og hv. þm., sem vita, hvernig það gengur með ríkisreikningana, ætti ekki að undra, þótt reikningar Tryggingastofnunarinnar fyrir s.l. ár liggi ekki fyrir enn þá. — Sami hv. þm. var eitthvað að tala um svik í sambandi við endurskoðun tryggingalöggjafarinnar. Hann hélt því fram, að lofað hefði verið að ljúka endurskoðun l. fyrir það þing, er nú situr: Þetta er alrangt. Í viðaukal., sem samþ. voru á Alþ. fyrir ári síðan, var tekið fram í 1. gr., 12. tölul., að heildarendurskoðun l. skuli hafin á síðari hluta ársins 1948. Þetta hefur verið gert. Endurskoðun l. er hafin, en vitanlega ekki líkt því lokið enn þá, en í frv. því, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að endurskoðuninni verði lokið fyrir 1. okt. 1949. — Viðvíkjandi líkum á því að lækka áhættuiðgjöldin á næsta ári, þá er því að svara, að ég lýsti útkomunni á árinu 1947, eins og unnt er að áætla hana, eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja, fyrr við umr. málsins, og vísa ég til þess, og hv. þm, hefði getað sparað sér þessa fyrirspurn eins og hinar, hefði hann haft tíma til þess að hlusta á umr. þær, er þó fóru, fram hér í þessari hv. d.

Viðvíkjandi fyrirspurn hv. þm. V-Húnv. skal ég taka það fram, að Tryggingastofnunin hefur fullan hug á því að lækka áhættuiðgjöldin í iðntryggingunni. Hefur verið rætt um það í iðntryggingaráði að lækka iðgjöldin að jafnaði um 25%. Þetta er ekki afgert enn þá. Það er til umræðu, og vænti ég þess, að áður en frv. verður afgr. úr þessari hv. d., þá liggi það endanlega fyrir, hvað iðgjöld hvers einstaks áhættuflokks verða lækkuð.

Ég skil ekkert í því, að kollega minn, hv. 2. landsk. þm., skuli vera að gera tilraun til að færa mál mitt til verri vegar. Ég bjóst hreint ekki við, að hún færi að snúa út úr orðum mínum. Maður er nú samt farinn að þekkja hana dálítið að því, að hún er ekki svo ákaflega nákvæm í málfærslu sinni. Henni hættir til að láta menn segja það, sem hún vildi sjálf, að þeir hefðu sagt, til þess að geta ausið úr skálum reiði sinnar yfir þá. Það er óþarfi fyrir þennan hv. þm. að bera mér á brýn eða tryggingaráði, að við séum sérstaklega vondir við læknana. Ég vildi biðja hv. þm. að kynna sér gang þeirra mála og athuga, hvað læknarnir bera úr býtum, til þess að sjá það sjálf, hvort við höfum verið vondir við þá. Læknar þurfa að sýna þessari löggjöf fulla sanngirni, því að hún getur verið góð, bæði fyrir okkur og þjóðina. Við ættum heldur að taka höndum saman til þess að hafa áhrif á okkar stéttarbræður, svo að þeir sýni þessari stofnun fulla sanngirni. Ég er alveg ófeiminn við að taka það fram hér, að mér hafa oft þótt læknar of ósanngjarnir í viðskiptum sínum við þessa stofnun. Hv. þm. hættir við rangfærslum og þarf hún eigi að bregða mér um hið sama. Og ég held, að henni væri hollt að kynna sér allan gang málanna. Við vitum bæði, að reynt var að komast að samningum milli heilbrigðisstj. og lækna á síðastliðnu hausti. Hv. þm. veit vel, hvernig fór: að svo mikið bar á milli, að engin von var til þess, að samningar tækjust. En hv. 2. landsk. hlýtur að vita, að til þess að hægt sé að framkvæma III. kafla l., þarf fyrst og fremst að ná samkomulagi við læknastéttina. Frá læknunum hefur engin ósk komið til Tryggingastofnunarinnar um áframhaldandi samninga á þessu ári. En vel má vera, að nú megi komast að samningum við læknana. Ég sagðist vona, að þar eð Sigurður Sigurðsson væri nýr starfsmaður hjá Tryggingastofnuninni, þá mundi hann hafa bætandi áhrif á læknana. Og við skulum báðir vona, að III. kafli l. geti orðið til gagns með nýjum heilsuverndarstöðvum, sjúkrahúsum og lækningastöðvum. En við vitum líka, að þá er rætt var um annað mál, sem sé fæðingardeildina, hér á hæstv. Alþ. fyrir fáum dögum, þá var því lýst yfir, að hún gæti m.a. ekki tekið til starfa nú vegna skorts á hjúkrunarfólki. — Þarfnast mál þetta undirbúnings, og er tekið fé frá til þess á hverju, ári, svo að milljónum króna nemur. Verður að framkvæma kaflann smám saman, eftir því sem fært þykir. Skulum við vona bæði, að hann nái fram að ganga. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., sem hann tók fram hér áðan, að einstaklingar á 1. verðlagssvæði bera síður en svo skarðan hlut frá borði, þó að iðgjöld þeirra séu hærri, því að þeir fá önnur fríðindi í staðinn, því að þeir verða að borga fjórðungsgjöld til lækna, þegar III. kaflinn kemur til framkvæmda, og fá lyfin ekki greidd nema að hálfu leyti. Hér er því eigi um það að tala, að þeir séu persónulega beittir óréttlæti.