10.12.1948
Efri deild: 28. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

93. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Ég er ekki sammála hv. 4. landsk. í því, að hækkun á þeim vörum, sem krefjast stærsta fórna í niðurgreiðslum, t.d. kjöti og mjólk, eigi öflugar rætur í þeim tollahækkunum, sem um ræðir í þessu frv., því að þar eru undanskildar ýmsar þær vörur, sem mundu, ef þær væru mjög hátt tollaðar, geta verið þess valdandi, en þær eru bara undanskildar. Það eru því aðrar ástæður, sem koma þar til greina, og skal ég ekki fara langt út í það. Hitt viðurkenni ég, að það hafi nokkra verðhækkun í för með sér, að tollar eru hækkaðir eða aðflutningsgjald á vörum. Það er nú svo, að ekki er hægt að komast hjá slíku. — Endurskoðun tollskrárinnar kann vel að vera nauðsynleg. Að vísu er ekki langt síðan hún var endurskoðuð, en ég skal ekkert taka af um það, að endurskoðun nú kunni að vera nauðsynleg.

Hv. þm. sagði eitt, sem kom mér leiðinlega fyrir. Ræða mín gaf ekkert tilefni til persónulegra hnífilyrða, og það er ólikt þessum hv. þm. að vera með slíkt. Ég get sagt það honum til hróss, að hann er ekki vanur því að gera manni upp illar hvatir. Það hlýtur því að hafa verið óvart, er hann sagði, að þessi skattur væri þannig, að hann kæmi verr niður á þeim efnaminni, en þeim efnameiri, og það væri kannske ástæðan fyrir því, að ég telji óhjákvæmilegt að halda þessum skatti við a.m.k. eitt ár. Ég kannast ekki við, að ég eigi þann lífsferil að baki, að það verði með sanni sagt, að ég hafi nokkru sinni lagzt á þá sveif að baka þeim minni máttar í þjóðfélaginu tjón eða skaða eða vera þeim til ills. Ef þm. getur bent á slíkt, er bezt að hann geri það, en annars frábið ég mér svona getsakir. — Þeir þykjast stundum mjög miklir vinir alþýðunnar, sem tala hæst á torgum og strætum þjóðfélagsins um velvilja sinn til alþýðunnar, berja sér á brjóst og þakka að minnsta kosti einhverjum Mólok fyrir það, að þeir séu ekki gerðir eins og aðrir menn. En það vill nú stundum verða svo, ef gáð er ofan í kjölinn, að ekki sjáist nein sérstök afrek, sem þeir hafi unnið raunverulega til þess að rétta við hag alþýðunnar, annað en þetta glamur í pólitískum tilgangi.

Þá fór hv. þm. að tala um, að ég sæi ofsjónum yfir launum kennara. Ég benti á laun kennara sem einn þátt í kostnaðinum við fræðslumálin, sem vitaskuld eru miklu meiri, en laun kennaranna. Ég benti á þetta sem einn af hinum gífurlegu póstum í fjárl. þjóðarinnar. Og þegar talað er um þenslu á ríkisbákninu, liggur þenslan einna mest í þessu, í fræðslumálunum, og að þeirri þenslu hefur þessi hv. þm. unnið af mjög miklum dugnaði. Það var einhver maður, sem sagði hér um daginn, að það mundi vera fróðlegt að bera saman, hvað þeir yrðu margir, sem fengjust við einhverja fræðslustarfsemi, samanborið við þá, sem stunda sjómennsku. Ég hef satt að segja ekki mátt vera að snúast í að fá það rannsakað, en ég ætla, að það mundi verða talsvert lærdómsríkt fyrir ýmsa menn að sjá þessi hlutföll. Og hvað sem um ágæti menntunar kann að vera að segja, en hana skal ég ekki lasta, er það víst, að 130 þús. manna þjóð hefur sínar hendur sannarlega fullar hvað það snertir að standa undir 35 millj. kr. útgjöldum til fræðslumála á hverju ári, fyrir svo utan þensluna í öllu öðru. Það væri svo líka fróðlegt að spyrja hv. 4. landsk., sem var ráðh. fyrir nokkrum árum, hvort hann hafi gert nokkuð sérstakt til að draga úr þenslu ríkisbúsins með breyt. á l. eða á annan hátt gert tilraun til að draga úr starfsmannahaldi, sem hann er að fordæma. Ég get fyrir fram sagt þessum hv. þm. það, að ég get bent hér á verk, sem ég hef unnið í þessari ríkisstj. einmitt í þá átt að draga úr starfsmannahaldi og þegar kemur fram í þessu fjárlfrv., þannig að til þeirra starfa, sem þar um ræðir, er nú áætlað að verja helmingi minni upphæð, en áður var. Ég bíð svo eftir því með óþreyju að heyra það frá þessum hv. þm., sem er ólukkulegur með þessar tollaálögur, og fordæmir þensluna á starfsmannahaldi ríkisins, hvað hann hefur gert til þess að draga úr þessu og með hvaða móti hann gerði það. Ég sagði það í upphafi, að örðugleikarnir við að fá fjárl. til að ballansera nú orðið eru mestir vegna þess, að útgjaldaliðirnir, bæði þeir stóru og þeir smáu, eru allir lögfestir, ýmist með gömlum eða nýjum l. Þessu verður ekki kippt í lag, nema stjórn og þing taki sig saman um að breyta þessum l. Það var einmitt sú leið, sem ég fór s.l. ár, þegar ég lét sameina fiskimatið í landinu til þess að draga nokkuð saman þann hóp, sem þar var að kominn. Væri þetta gert á mörgum sviðum, þá mundi mega færa mikið niður það fjárlfrv., sem nú liggur fyrir Alþ. En það er ekki skemmtilegt verk að fást við það og verða þess valdandi á þann hátt, að menn, sem hafa verið mismunandi langan tíma við ýmiss konar störf, verði frá þeim að hverfa og taka sér eitthvert nýtt starf fyrir hendur. Þetta er orðin áberandi nauðsyn í svo mörgum efnum í þjóðfélaginu, og það mætti að skaðlausu gera það sama hvað landbúnaðinn snertir, að draga saman starfskrafta, sem kostaðir eru af opinberu fé, og ekki hvað landbúnaðinn einan snertir, heldur víðar og víðar. Það fer ekki saman og er ekki rökrétt og ekki sæmandi manni, sem er orðinn roskinn og reyndur eins og hv. 4. landsk. þm., að fella harða dóma yfir vaxandi útgjöldum fjárl., en vera svo í hópi þeirrar fylkingar á Alþ., sem vill auka útgjöld ríkissjóðs, og þann feril hefur hv. 4. landsk. þm. óneitanlega að baki sér þann tíma, sem hann hefur setið hér á þingi. Hann og hans flokkur hafa jafnan staðið að hærri og stærri brtt. við fjárl. en þingið hefur viljað fallast á. Það er vinsælt að flytja slíkar till. Það má bregða upp mýraljósi fyrir fjölda manna með slíku og blekkja þá. Slíkar hækkanir, ef lögfestar eru, leiða einmitt af sér jafnóvefengjanlega það böl, sem hv. 4. landsk. þm. er nú að átelja, þ.e.a.s. hækkunina á gjaldabyrði almennings.