11.02.1949
Efri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég verð nú bara að segja það, að mér finnst síður en svo óeðlilegt, að hv. d. taki sér nægan tíma til að ræða mál þetta. Er það e.t.v. eitt af aðalmálum þ., þ.e. varðandi afgreiðslu fjárl. — Ég bar fram fsp. til hæstv. ráðh., og kvaðst hann aldrei hafa látið þau orð falla, er ég nefndi. Ég þakka hæstv. ráðh. En þá vil ég ræða málshliðina sjálfa.

Síðan árið 1945 hef ég verið form. fjvn. Þá var frv. lagt fyrir þ. í októbermánuði, og þann 18. okt. var því vísað til n., sem skilaði áliti sínu þann 5. des., og gekk frv. þá til 2. umr. Það var síðan afgr. fyrir jól, þann 20.–21. des. En þá ber að athuga, að á þessum tíma voru annars vegar eigi slíkir örðugleikar sem nú og ekki núverandi hömlur í viðskiptalífi þjóðarinnar, en hins vegar var ríkjandi sáralítill ágreiningur innan þáv. ríkisstj. um afgreiðslu fjárl. almennt. Í sambandi við fjárlagafrv nú minnir mig, að því hafi verið vísað til n. um svipað leyti og þá, og verð ég að segja, að ekkert fjárlagafrv. hefur verið eins vel undirbúið. Eins og hv. 1. landsk. tók fram, eru núna margar nytsamar upplýsingar í grg. frv., þær er hæstv. stj. eru til sóma. Hitt atriðið er það, að aðrir erfiðleikar eru nú á veginum og þeir helzt, sem valdið hafa því, að hæstv. fjmrh. hafði nú sett 33 millj. kr. á 19. gr., til dýrtíðarráðstafana. En þetta gerbreyttist. Fyrir jól voru samþ. l., sem kröfðust hvorki meira né minna en 27 millj. kr. á hina frægu 19. gr. fjárl. Á móti þessu þurfti að afla tekna með sérstökum l. og í samræmi við það breyta fjárl. á mörgum stöðum. Ofan á þetta skapaðist svo það ástand, að í stað 27 millj. kr. hagstæðs greiðslujafnaðar er hann núna eigi nema 8 millj. kr. En þá er hæstv. fjmrh. í þeim vandræðum, að engan veginn er hægt að afgr. frv. með hagstæðum greiðslujöfnuði. Þó er þetta aðeins ein hliðin á málinu. Samfara þessu koma erindi hæstv. ríkisstj. til hv. fjvn. frá tveimur rn., um kröfur útgerðarmanna, sem allar teljast nauðsynlegar. Hér er vandi á ferðum fyrir hv. n., ef eigi er hægt að mæta þeim. En hæstv. ráðh. sér enga aðra leið til þess, en skattaálögur í viðbót. Fjvn. á, á hinn bóginn, enga sök á afgreiðsludrættinum. Það er ástandið í landinu, sem hefur valdið honum. Ég vil benda á, að hæstv. ríkisstj. gerði sér allt far um að undirbúa frv. sem bezt, svo að afgreiða mætti það fyrir jól: Hæstv. fjmrh. óskaði eftir því, að n. yrði kölluð saman þann 6. jan.; en úr því varð ekkert. Komu þar til mikilvæg atriði, sem ná þurfti samkomulagi um. Fjvn. hefði getað verið komin lengra í störfum sínum, ef eigi hefðu orðið umr. um hin stóru mál, sem haft hafa mikil áhrif, t.d., hversu mikið skera skuli niður af verklegum framkvæmdum eða í hve ríkum mæli draga skuli úr hinum opinbera ríkisrekstri. Mikil og einstæð vinna var lögð í þetta, að finna, hvar koma mætti þessu við, enda lýsir hún sér í frv. sjálfu. Og þetta er ein ástæðan til þess, að eigi var unnt að afgr. l. fyrr en raun ber vitni. Ég tel hins vegar mjög vafasamt, hvort heppilegt sé að afgr. fjárl. fyrr en í þinglok. Ég tel óeðlilegt, að þ. haldi áfram störfum við önnur mál, þegar fjárl. hafa verið afgr.

Sú krafa er orðin hávær, að mark sé tekið á afgreiðslu fjárl., svo að þau séu ekki 200 millj., en ríkisreikningurinn 300 millj. Tel ég, að eigi megi auka útgjöldin, þó að afgreiðsla l. dragist mánuðum saman. Saman verður að láta fara þetta tvennt, fjárlagaafgreiðsluna og önnur störf þ. Á síðustu stundu dynja oft yfir ýmis erindi. Þá er ekki skemmtilegt fyrir n. að leggja til, að greiddar séu fjárhæðir, svo að milljónum nemur, vegna þessara erinda.

Ég vil benda á varðandi ummæli hv. 1. landsk., að ég tel ekkert unnið við, að fjvn. sé kölluð saman fyrir þingsetningu. Samvinna nm. er engin trygging í því efni. Árið 1945 bar fjvn. t.d. fram róttækar till. um niðurskurð á útgjöldunum, en þær voru allar koldrepnar. Hvað þýddi þá, að fjvn. útbyggi slíkar till., þær er eigi mæta samúð þingsins? — Langstærsta atriðið í málinu er þó það, að hæstv. ríkisstj. taki sjálf að reyna að ná innbyrðis samkomulagi um afgreiðslu fjárl., svo að þau sjónarmið komi eigi fram hjá hæstv. fjmrh., sem andstæð eru sjónarmiðum annarra hæstv. ráðh. Það kom fram eitt sjónarmið frá fjmrh. og svo gersamlega allt annað sjónarmið frá öðrum ráðh.,. sem kannske eru í miklum meiri hluta í rn. og knýja fram með sínum meiri hluta og þingfylgi það, sem er þvert ofan í vilja fjmrh. Þetta hefur miklu meiri þýðingu um afgreiðslu fjárl. en það, hvort fjvn. kemur saman einum degi fyrr eða síðar, því að meiri hl. fjvn. er skipaður með sama styrkleika í þinginu og sá meiri hluti er, sem stendur bak við ríkisstj. Og ef fullt samkomulag er innan ríkisstj. innbyrðis og þeirra flokka, sem styðja stj., þá á það ekki að tefja afgreiðslu fjárl., þótt einhverju mjög litlu muni um það, hvenær fjvn. tekur til starfa. Og ég vil tilkynna hæstv. ríkisstj., að fjvn. er tilbúin til að vinna nótt og dag og á sunnudögum líka að afgreiðslu fjárl., ef þess gerist þörf og ef hún fær fullkomið samkomulag um vandamálin frá hæstv. ríkisstj.