25.02.1949
Efri deild: 66. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

40. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Þetta verður aðeins ein undantekning. Tveir flokksbræður mínir hafa nú talað í málinu. Og ég játa, að þeir hafi hér nokkuð svo á réttu að standa. En sennilega verð ég hjáróma við þá, hvað snertir aðalatriði málsins. Frv. þetta er flutt af nauðsyn vegna þess, hversu hart menn verða úti við það að leggja alla orku sína fram til að bjarga sér og sínum frá götunni. En þeir eru „straffaðir“ fyrir það að vaka fram á nætur við að byggja hús yfir sig, með háum sköttum. Getur afleiðingin jafnvel orðið sú, að þeir að endingu missi húskofann vegna þess, hvernig löggjöfin er. Andi frv. er sá að lyfta undir einstaklinginn til að bæta úr húsnæðiseklunni. Þetta er höfuðmarkmið frv., að jafnvel þó að hið opinbera geti eigi farið nema skammt í því að hjálpa einstaklingunum, geti þeir gert það sjálfir. Það er vegna þessa m.a., að ég er fylgjandi frv., þó að það nái skemmra, en æskilegt væri. Ég vil benda á, að þörfin er hér svo brýn, að frv. má ekki tefjast. Skattanefndirnar eru nú að leggja á menn, og allur dráttur á málinu veldur því, að menn bíða á milli vonar og ótta um, hvað á þá verði lagt. Brtt. hv. 7. landsk. er, — eins og hans var von og vísa, — réttmæt, þegar um þetta er að ræða. Eru fullkomin rök fyrir henni. Hins vegar er sá ekki tilgangurinn að ýta undir, að menn fái eftirvinnuna skattfrjálsa til þess að geta braskað, heldur að örva möguleikana á því, að menn geti fengið inni. En í brtt. er opnuð leið til þess, að menn fari jafnvel að reisa meira, en þeir hafa þörf fyrir til þess að geta selt aftur og aftur og þannig hagnazt á húsinu. Og þetta er galli á till. Ég segi ekki, að þetta sé berum orðum sagt í brtt., en hún ýtir undir þetta. Ég held, að það sé rétt, sem hér hefur verið upplýst og öllum er kunnugt, að skattalöggjöfina þurfi að athuga í heild. Mþn. hefur þegar skilað frv., og þar eru ákvæði um þetta. Geri ég ráð fyrir, þegar sú löggjöf verður tekin hér til meðferðar á næsta þ., að þá verði gerð búningsbót á þessu. Hins vegar tel ég engan skaða, þó að þetta frv. verði nú að l. og einhverjar breytingar gerðar á l. Þetta er aðkallandi nauðsyn. Við eigum að afgreiða málið nú, en biða með umbætur á skattal. og eigi vera að flækja málinu á milli d. og eiga með því á hættu, að það tefjist í Nd. M.ö.o.: Ég vil láta nauðsynlegar breytingar biða síns tíma að sinni ásamt öðrum breytingum á löggjöfinni og tefja okkur ekki á því að fylla upp í eyðurnar. — Eins og hv. 3. landsk. sagði, eru rök fyrir því, að aðrir menn, sem vinna einnig eftirvinnu, heimti líka einhver fríðindi. Ég býst þó við, að spyrnt verði fótum við því að skerða skatttekjur ríkissjóðs. En þessi skattfríðindi eru, eins og öllum er kunnugt, einn þáttur í því að ýta undir aukningu húsnæðis í bænum og e.t.v. hvatning til að bæta úr hinu ömurlega ástandi, sem nú er ríkjandi í húsnæðismálunum.