07.03.1949
Efri deild: 71. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

128. mál, bæjarstjórn í Keflavík

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Í þessu frv. er farið fram á, að Keflavík verði veitt kaupstaðarréttindi. Allshn. hefur athugað þetta mál, og leggur hún einróma til, að frv. verði samþykkt. Keflavík er nú fjölmennasti hreppur hér á landi, og íbúar þar eru fleiri en í 4 kaupstöðum og enn fremur fleiri íbúar, en í 6 sýslufélögum. Það er því eðlilegt, að það sé metnaðarmál fyrir hreppinn að fá þessi réttindi, því að auk þess sem það er metnaðarmál að fá kaupstaðarréttindin, þá er það einnig metnaðarmál að því leyti, að þeir kunna því illa að geta ekki farið með ýmis málefni sín sjálfir, en þurfa að leita um alla yfirstjórn til sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Hreppurinn þarf að fá leyfi til lántöku, hann þarf að fá leyfi til ábyrgðar, og sýslunefndin þarf að samþykkja reikninga hreppsins. Auk þess þarf að sækja sum mál undir bæjarfógetann í Hafnarfirði. Auk þess er þetta mjög mikið hagsmunamál. í sumum samböndum verður að hafa um hönd að leita út fyrir hreppsfélagið. Þetta á sérstaklega við um veðbókarvottorð, það getur verið mjög óþægilegt að geta ekki fengið þau heima á staðnum.

Fjárhagslega held ég að þetta hafi hverfandi litla þýðingu, og frá því sjónarmiði held ég að það sé ekkert því til fyrirstöðu, að þetta frv. verði samþ. Legg ég því f.h. allshn. til, að frv. verði samþykkt óbreytt.