03.03.1949
Efri deild: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

126. mál, lax- og silungsveiði

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Fyrst vil ég geta þess, að ég tel, að það sé nauðsynlegt að endurskoða l. um laxveiðar almennt. Það er alltaf verið að breyta þeim og smálappa upp á þau, en ég tel nauðsynlegt að færa þetta saman og endurskoða l. í heild og vil beina því til ríkisstj. — Ég tel það ekki rétt, að við í landbn. förum að hnýta skattaákvæðum inn í frv. Það mun vera ætlunin að gera ýmsar ráðstafanir til sparnaðar, ekki bara varðandi þessi l., heldur grúa af öðrum l., og við í sparnaðarnefndinni lögðum til, að grúi af nefndum yrði lagður niður. Það hefur þegar verið talað um þetta við ráðuneytið, sem er því sammála, að þetta verði gert. En ég hef orðið var við það, að ráðuneytið telur, að til þess að framkvæma þennan sparnað vanti l. eða breyt. á l. Mér skilst, að þessar breyt. séu hugsaðar sem bráðabirgðabreyt., og held því, að þær eigi saman í einum „bandormi“. Það er því ekki ástæða fyrir okkur í landbn. að taka þetta mál til sérstakrar meðferðar. Ég tel, að flytja eigi allar þessar breyt. í sérstöku frv., í stað þess að flytja um 20 eða 30 lagafrv. til þess að breyta hverjum einstökum l.