11.03.1949
Neðri deild: 79. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (2268)

54. mál, sjúkrahús o.fl.

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. frsm. nefndarinnar. Hann óttast, að fleiri sjúkrahús viða um land muni koma á eftir undir lögin um fjórðungssjúkrahús, verði brtt. mín samþykkt. Hann nefndi þrjú pláss. Tvö þeirra hafa ekki svipaðar ástæður og Siglufjörður í þessu efni, og eru það þá helzt Vestmannaeyjar að vetrinum, sem nálgast eitthvað Siglufjörð að sumrinu, og eru þessir staðir þó ekki sambærilegir hvað fjölda aðkomufólks snertir. Ég býst við, að erfitt verði að ákveða fjórðungssjúkrahúsi á Austurlandi stað nema í Neskaupstað eða á Seyðisfirði, og er það í höndum ríkissjóðs að ákveða það, og njóta þá aðkomusjómenn á þessum stöðum fjórðungssjúkrahússins. Ég held, að það kæmu ekki nema 2 staðir til greina samkvæmt brtt. minni, Siglufjörður og Vestmannaeyjar, og þó Siglufjörður miklu fremur, því að þar safnast ekki aðeins fjöldi aðkomufólks saman til vinnu í landi og þar er ekki aðeins langmestur hlutinn af bátaflota landsmanna yfir sumarið, heldur og venjulega um 300 erlend skip, sem hafa samband við Siglufjörð og koma þangað með alla, sem veikjast um borð. Segja má, að Siglufirði beri ekki lagaskylda e.t.v. til að taka við öllum sjúklingum, sem þurfa sjúkrahúsvist og leita hennar þar, en ég skil ekki, að nokkur neiti siðferðisskyldu í því efni, og enginn getur neitað því með rökum, að það þarf að byggja stærra sjúkrahús á Siglufirði en nauðsynlegt er fyrir bæjarbúa eina. Hvaðan sem sjúklingarnir koma, úr brökkunum eða erlendum eða innlendum skipum, þá mundi koma í ljós, ef það væri rannsakað verulega, að byggja þarf allmiklu stærra sjúkrahús en nauðsynlegt er fyrir Siglfirðinga sjálfa.

Árið 1939 voru 2.700 manns búsettir á Siglufirði. Þá var aðkomufólk talið í bænum og reyndist vera 1.400 manns, eða 50% af bæjarbúum sjálfum. Menn geta hugsað sér þá gerbreytingu, sem yrði t.d. á bæjarlífinu í Reykjavík, ef bæjarbúum fjölgaði í skyndingu um 50%. Þessir 1.400 manns, sem taldir voru aðkomandi í Siglufjarðarbæ 1939, voru þó aðeins sá hluti aðkomufólksins, sem bjó í landi. Þar við bætast á annað hundrað íslenzk skip með 17–20 manna áhöfn hvert um sig og um 300 erlend skip með 12–20 manna áhöfn. Ef látin væri fara fram hlutlaus rannsókn á þessum aðstæðum, mundi koma í ljós, að fáir eða engir staðir þyrftu meira á sig að leggja í sjúkrahúsmálum, en Siglufjörður, og það eru rökin fyrir því, að ríkið leggi fram 3/5 í stað 2/5 af byggingarkostnaði sjúkrahúss á Siglufirði.