22.04.1949
Neðri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (2347)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Frsm. meiri hl. (Hallgrímur Benediktsson):

Herra forseti. Ef frv. það, sem hér liggur fyrir, er borið saman við lögin, sem því er ætlað að breyta, þá sést, að í frv. eru tvö meginatriði. Í lögunum er gert ráð fyrir, að einstaklingar búsettir erlendis skuli við komu sína hingað til landsins undirrita drengskaparyfirlýsingum, að þeir skuldbindi sig ekki til að semja við hér búsetta aðila um að fá íslenzkan gjaldeyri eða uppihald hér til greiðslu í erlendum gjaldeyri eða gegn nokkurs konar öðru gjaldi, nema leyft sé af íslenzkum yfirvöldum. Í frv. er tekið fram, að einstaklingar búsettir erlendis skuli við komu sína til landsins skuldbinda sig til að selja ekki öðrum gjaldeyri, en þeim stofnunum, sem rétt hafa til gjaldeyrisverzlunar. Hins vegar er tekið fram í frv., að einstaklingar, búsettir hér á landi, hafi heimild til að semja við erlenda aðila um uppihald erlendis fyrir sig og sína gegn endurgreiðslu með sams konar greiða hér á landi og að félagssamtök hér á landi geti samið við erlend samtök um fyrirgreiðslu erlendis gegn greiðslu á sama hátt hér á landi. Þetta er bundið því skilyrði, að ekki sé um yfirfærslu gjaldeyris að ræða í slíkum viðskiptum. — Svo er hitt, að í upphafi 2. gr. frv. er tekið fram með beinum orðum, að ekki má setja reglur samkv. lögum þessum, sem banna mönnum brottför úr landi.

Tilefni þess, að frv, á þskj. 86 er komið fram, er lýst allýtarlega í greinargerð, og get ég vísað til hennar um margt.

Eins og kunnugt er, hafa lög nr. 42 1948, um útflutning og innflutning á íslenzkum og erlendum gjaldeyri, verið framkvæmd á þann hátt, að sett hafa verið reglugerðarákvæði, sem hafa í för með sér, að það er algerlega undir vilja og ég vil segja duttlungum gjaldeyrisyfirvaldanna komið á hverjum tíma, hverjir fái að fara úr landi og hverjir ekki. Þeim, sem flytja farþega til útlanda, er bannað að veita íslenzkum mönnum far nema með leyfi viðskiptanefndar. Slíkt hefur aldrei áður tíðkazt hér á landi og mun ekki vera tíðkað í nokkru því ríki, sem við höfum mest kynni við og nálæg okkur eru. Eins og þessar reglur eru nú skv. dögum þeim, sem hér er gert ráð fyrir að breyta, þarf til dæmis að fá sérstakt leyfi yfirvalda til að fá aðstoð um gjaldeyri eða beina hjá vinum og venzlamönnum erlendis. Íslenzkir menn mega heldur ekki bjóða slíku fólki heim til sin erlendis frá nema með sérstöku leyfi. Það virðist reyndar, að hér sé um svo augljóst brot að ræða á venjulegum og aldagömlum rétti frjálsra manna, að slíkt geti ekki samrýmzt stjórnarlögum landsins. Rétturinn til að skipta um verustað án afskipta eins og nú tíðkast hér hefur alltaf verið talinn með grundvallarréttindum manna, sem búa við frjálslega stjórnskipun.

Við erum á seinni tímum orðnir svo vanir frelsisskerðingum í ýmissi mynd af hálfu þess opinbera, að við erum farnir að sljóvgast og verða þess minna varir, þótt nýjar og nýjar og erlendum gjaldeyri (frv. BÓ og LJóh). hömlur og höft bætist við. En ég þori að fullyrða, að fyrir einum til tveimur áratugum síðan, svo ekki sé lengra horfið aftur í tímann, þá hefði það verið talið algerlega óhugsandi að setja slíkar reglur um utanferðir íslenzkra manna eins og þær, sem felast í lögum nr. 42 1948 og þeim reglum, sem settar hafa verið um framkvæmd þeirra laga.

Í grg. frv. er vikið að þörf okkar Íslendinga til að fara til útlanda, og þarf ég engu við það að bæta. Það er staðreynd, sem blasir við í sögu okkar frá elztu tíð, að utanferðir hafa verið landsmönnum ómissandi, og fyrst svo var fyrr á tímum, hvað mundi þá nú vera, eins og nú er högum háttað um viðskipti okkar og umheimsins? Það er reyndar furðulegt fyrirbrigði, að einmitt á þeim tíma, þegar Íslendingar hafa sjálfir eignazt fullkomnari tæki til ferða landa á milli, en dreymt var um fyrir stuttu síðan, þá skuli einmitt vera settar sterkar hömlur á, að Íslendingar geti notað þessa farkosti. Á sama tíma sem fjarlægðirnar hverfa og Ísland kemst í þá aðstöðu að verða í sjálfri þjóðbraut flugsamgangna um norðanvert Atlantshaf er réttur manna til að ferðast óhindrað skertur á mjög áberandi hátt. Hér er svo mikið ósamræmi milli þarfar landsmanna og aðstæðna þeirra til ferðalaga annars vegar og löggjafarinnar hins vegar, að ekki fær með nokkru móti staðizt.

Í nál. hv. minni hl. fjhn. segir svo, að meðan útflytjendum sé skylt að afhenda gjaldeyri sinn bönkunum og ekki megi flytja vörur til landsins án leyfis gjaldeyrisyfirvalda, þá telji hann eðlilegt, að nokkrar hömlur séu á utanferðum manna og gjaldeyriseyðslu í því sambandi. Er svo að skilja á nál., að með þeirri breyt., sem hér er ætlazt til, að samþ. verði, þá séu allar eðlilegar hömlur á gjaldeyriseyðslu til utanferða felldar niður. Þetta er vitaskuld fjarri öllum sanni. Umráð yfirvalda yfir gjaldeyri til utanferða eru óbreytt, þannig að eftir sem áður þarf að sækja um leyfi til að fá gjaldeyri hjá bönkunum til utanferða. Allt venjulegt gjaldeyriseftirlit helzt að þessu leyti óbreytt, og felast í því að sjálfsögðu þýðingarmestu hömlurnar á utanferðum manna.

Þá segir í nál., að ef leyft verði, að íslenzkir einstaklingar eða félagsheildir geti samið við erlenda aðila um gagnkvæma ferðafyrirgreiðslu, eins og gert er ráð fyrir í frv., þá sé hætt við, að lítið af peningum frá erlendum ferðamönnum komi til bankanna. Hér er sýnilega um allt of viðtæka ályktun að ræða í nál. Sú heimild, sem gert er ráð fyrir í frv., mundi samkvæmt reynslunni fyrst og fremst ná til venzlamanna og félagsheilda, sem hafa með höndum svipaða félagsstarfsemi, svo sem íþróttafélaga, en í sambandi við venjulega ferðamenn mundi hún enga þýðingu hafa. Gjaldeyristekjur af ferðum slíks fólks mundu ekki skerðast, eins og augljóst ætti að vera, því að samkomulag um gagnkvæma fyrirgreiðslu hlýtur að vera byggt á skyldleika eða svipuðum áhugaefnum, eins og t.d. íþróttum, en ekkert slíkt samband er á milli íslenzkra manna og venjulegra ferðalanga, sem hingað koma með skemmtiferðaskipum eða á annan hátt. Hræðsla við gjaldeyristap af þessum ástæðum er algerlega ástæðulaus.

Tilgangur frv. er annars svo ljós og einfaldur, að hann þarf ekki langra útskýringa við í framsögu.