03.05.1949
Efri deild: 93. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (2391)

204. mál, einkasala á tóbaki

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Það stendur á þessu frv., að það sé flutt af fjhn., en þetta frv. er alls ekki frá fjhn. Að minnsta kosti er mér ekki kunnugt um flutning þess, enda algerlega andvígur því og mun greiða atkvæði gegn því. Ég ætla ekki að rekja ástæðurnar fyrir því. Það er sjálfsagt ein leið stj. til að afla tekna, en ég hef, eins og kunnugt er, verið á móti þeirri fjármálastefnu, sem leiðir til þess, að leggja verður enn aukna skatta á landsfólkið. Það má ef til vill segja, að þetta sé skásta leiðin til að afla tekna, þar sem tóbakið telst munaðarvara, en þó liggur nú sú staðreynd fyrir, að í „praxís“ er tóbakið nauðsynjavara hjá fjölda fólks. Þá verður líka að teljast vafasamt, hvort ríkið hefur nokkrar tekjur af þessari hækkun, því að eins má búast við, að neyzlan minnki. (HV: Það væri það bezta.) Það getur vel verið, en ekki mundu tekjur ríkissjóðs aukast við það. — Ég vil svo endurtaka það, að ég er á móti þessu frv. og mun greiða atkv. á móti samþykkt þess.