02.05.1949
Efri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (2497)

164. mál, orkuver og orkuveitur

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Það horfir nú þannig við um afgreiðslu þessa máls í fjhn., að á fundi n., þegar málið var rætt, var form. n. og tveir aðrir hv. nm., og niðurstaðan varð sú, að einn af nm., hv. þm. Str., var ákveðinn í að fylgja frv. án breyt. og tók því að sér framsögu. Hann mun í því efni hafa kosið sjálfan sig, því að það voru ekki aðrir til þess.

Ég á dálitla brtt. við frv., eins og minnzt er á í nál., að koma mundi kannske fram. Því var svo farið hér fyrir nokkrum árum, að þá fylktum við okkur saman, hv. þm. Str. og ég, ásamt þriðja manni, hv. þm. V-Húnv. (SkG), og bárum fram brtt. við þáltill., sem þá var á ferðinni, þess efnis, að lína frá Laxárvirkjuninni í Þingeyjarsýslu yrði lögð vestur um Húnavatnssýslu, Strandasýslu og Dalasýslu.. Nú hafa þessir ágætu menn, Húnvetningurinn og Strandamaðurinn, borið fram sjálfstæðar till. fyrir sig, en ég orðið þar aftan úr lestinni. En ég vildi vera þar með og fylgja þeim enn sem fyrr að góðu máli.

Það hefur um langt skeið verið uppi sú hugsun að virkja Þrándargil í Þverá, sem kemur ofan af fjalli, þvert ofan í Laxárdal í Dalasýslu. Vatnsmagn er þar ekki mikið, fremur lítið, en fallhæð geysileg, og að því leyti er prýðilegt þar til virkjunar. Vatnsrennsli er þarna, eftir því sem mælingar segja til, dálítið misjafnt. Þess vegna hefur nokkuð verið athugað um það að færa saman vötn, stór og allmörg, þrjú eða fjögur, þar uppi á hálsinum og mynda þar uppistöðu, og hefur rafmagnseftirlit ríkisins gert teikningu af þessu, sem því miður liggur ekki hér fyrir, en er hjá Jónasi Brynjólfssyni, kaupfélagsstjóra í Búðardal, sem einnig hefur mikinn áhuga á þessu máli. Og samkv. þeirri áætlun, sem var mjög hóflega farið í og dregið í sambandi við teikninguna úr öllu því, sem mælingar sýndu sem meðalúrkomu, og gert ráð fyrir því líka, að vatn gæti meira glatazt við uppistöðuna, en við athugun hafði verið talið, — samkv. þessari áætlun var talið af fulltrúum rafmagnseftirlits ríkisins, að á sjötta hundrað hö. fengjust með þessu móti við virkjun þarna, og ef fallhæðin væri aukin, mætti fara hærra með þá áætlun. Jafnframt gerði verkfræðingurinn Sigurður Thoroddsen, sem leit á þetta mál og var einnig hlynntur því, ráð fyrir því, að þarna mætti virkja 800 hö. Ég hef þó í þessari brtt. minni ekki gert ráð fyrir, að virkjað væri meira þarna en 700 hö. — Það er náttúrlega fé nokkurt, sem til þessa þarf, ef rétta ætti það sem reiðufé úr ríkissjóði strax, sem ég fer fram á, að hækkað verði framlag — um 2 millj. kr. — vegna þessarar virkjunar, þó að þetta sé ekki svo geysileg viðbót, eins og nú eru upphæðir til framkvæmda. En þessi framkvæmd yrði til þess að koma upp virkjun til rafmagnsframleiðslu, fyrir meginhéraðið, Laxárdal allan. Og eftir því sem Sigurður Thoroddsen segir mér, sem hefur athugað þetta mikið, þá mun þessi rafmagnsframleiðsla duga að miklu leyti fyrir Suður-Dali, með hóflegri eyðslu rafmagns og sparsemi. Þetta er í raun og veru alveg nauðsynlegt framfaraspor fyrir héraðið, eins og allir sjá. Og kostnaðurinn er ekki gífurlegur, ef á annað borð væri fé til þess að gera nokkrar meginframkvæmdir. Og ég treysti því, að ég, vegna nauðsynja héraðs þessa, verði álitinn verður þess að fylgja nú sessunaut mínum, hv. þm. Str., eins og áður í þessu máli, og ég hygg, að samþykkt þessarar brtt. minnar mundi ekki heldur verða til þess, að það skerðist fylgi við frv. þetta fyrir því. Það er náttúrlega einn ágalli við þetta. Ef þessu frv. er eitthvað breytt hér í hv. d., verður það að fara til hv. Nd. En ef sá siður á að takast upp í þessari hv. d., sem hv. Nd.–þm. hafa ekki haldið fyrir sitt leyti, að við skulum telja hvert mál gott og gilt, sem kemur frá hv. Nd., og ef hv. Nd. fer nú viðkomandi þessu máli þannig að sem síðari deild, þá er náttúrlega ekkert um það að segja, þó að frv. fari til hv. Nd. En að koma fram með ósanngjarna brtt. til þess að stofna meginmálinu í hættu, það er ekki mín ætlan, heldur að koma með till. um sanngjarna breyt. á máli, sem þó ekki raskar meginmálinu eða spillir fyrir því. Og ég veit ekki, satt að segja, hvað er meginmál í þessu, því að hér eru þrjú meginmál í þessu máli. Ég treysti því, að ef við hv. þm. Str. og ég vinnum að þessu máli í bróðerni, þá verði mál hans ekki í neinni hættu, eins og sakir standa, þó að brtt. mín verði samþ.