02.05.1949
Efri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1666 í B-deild Alþingistíðinda. (2506)

164. mál, orkuver og orkuveitur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það hefur við þessar umr. komið fram sá reginmisskilningur, að þetta frv., sem hér um ræðir, sé nokkuð áþekkt hafnar- og vegal. Sannleikurinn er sá, að frv. er algerlega sérstætt og á ekkert sameiginlegt með þeim l., og þess vegna vildi ég fá þetta mál rætt nokkuð nánar hér í hv. d. Eins og ég tók fram hér, var reynt að fyrirbyggja það, að sams konar kapphlaup yrði um einstakar raforkuveitur og hefur verið um vegi og hafnir, með því að setja 9. gr. í raforkul. Ég get sagt hv. frsm., hvers vegna það var gert. Það var gert vegna þess, að ákveðið er í l., að fyrst skuli þær rafveitur og þau raforkuver ganga fyrir, sem bezt geti borið sig fjárhagslega. Þegar þess er líka gætt, að ákvæði l. segir ákveðið til um það, að raforkusjóði skuli sérstaklega varið til þess að standa undir rekstrinum fyrstu árin hjá þeim rafveitum og raforkuverum, sem sett eru upp, þá var það meginskilyrði, að raforkusjóður yrði, ekki étinn upp fyrirvaralaust. Þess vegna var þetta ákvæði sett í 9. gr., að Alþ. skyldi taka ákvörðun um hverja raforkustöð fyrir sig, þegar sýnt væri, hvernig slíkt fyrirtæki gæti borið sig fjárhagslega,, einmitt til að fyrirbyggja að tekið væri fé úr sjóðnum til þess að standa undir slíkum orkuverum meira, en sjóðurinn á hverjum tíma þyldi. Nú er það alveg óviðunandi, að þetta mál skuli vera komið frá hv. Nd. og til 2. umr. hér án þess að þm. eigi þess kost að sjá þessar áætlanir. Það var að sjálfsögðu skylda hv. n. að láta fylgja sem fylgiskjal áætlanir frá raforkumálaskrifstofunni um þennan rekstur, til þess að þm. gætu gert það upp við sig, hvort þeir vilja mæla með því, að þetta verði tekið í l. eða ekki. Þetta hefur ekki verið gert, en nú hefur hv. frsm. sagt, að þetta eða hitt gætu þm. fengið að sjá hjá honum. Það hefði verið það minnsta, sem hefði mátt búast við af hv. fjhn., að hún hefði látið þessi gögn fylgja nál., og það hefði hv. iðnn. áreiðanlega talið sér skylt að gera. Þessi gögn liggja nú fyrir, og ég segi fyrir mig, að ég hef ekki hugmynd um, hvernig þessi rekstraráætlun er hugsuð. Ég hef ekki hugmynd um það, hvað er fyrirhugað að láta úr raforkumálasjóði til þessara stöðva, svo að þær geti borið sig fjárhagslega. Annað atriðið er svo það, hvað kostar að koma þeim upp og hvað hvert hestafl kostar og hvort hægt verður að fá nægilegt fé til þess að koma þeim upp. Hitt er svo enn annað atriði, hvaða skilyrði þessar stöðvar hafa til að geta borið sig fjárhagslega með tilliti til þeirra rafmagnsnotenda, sem eru í kringum þær. Áætlanir um þetta allt eiga að liggja fyrir, áður en ákveðið er, hvort byrja skuli framkvæmdir eða ekki. Nú er ljóst, að raforkumálastjóri álítur hagkvæmara að virkja Þverá í Steingrímsfirði. Þá kemur til greina, hvaða möguleikar eru á að geta selt allt það rafmagn. Þá kemur til greina að athuga, hvort hægt verður frá þessu orkuveri, sem yrði 3–4 þús. hö., að selja raforku til Ísafjarðar (HV: Það er engin leið.) Það hefur m.a. verið rætt um að virkja fallvatn á Snæfjallaströnd. Ég er ekki svo kunnugur, að ég viti, hvort hægt er að leiða raforku frá Hólmavík til Ísafjarðar eins og frá Snæfjallaströnd til Ísafjarðar. En ég er viss um annað: Það er ekki útilokað að leiða rafmagn frá Hólmavík yfir Steinadalsheiði yfir á Barðaströnd og kannske í Dali. Það gæti ef til vill kostað minna en að virkja í Dalasýslu sjálfri. Þetta er ekkert aukaatriði. Það má ekki taka þessar umr. sem neina andúð á málinu sjálfu, þó að menn vilji fá þetta upplýst, áður en menn ganga frá svo stóru máli, því að það er ætlazt til, að þessi gögn liggi fyrir, þegar Alþingi á að ákveða, hvort ráðast á í nýjar veitur eða ekki.

Þetta mál horfir allt öðruvísi við, en hafnarmál, þar sem héruðin sjálf bera hitann og þungann af hafnarframkvæmdunum, þó að ríkið styrki þær um 40 eða 60%. Þunginn hvílir allur á héruðunum heima fyrir. En hér er þess krafizt, að ríkissjóður leggi fram allan byggingarkostnaðinn og standi undir öllum rekstrarkostnaðinum. Sama er með vegina.

Ríkið lætur ákveðna upphæð í vegi á hverju ári, en það er annars eðlis en þetta. Þess vegna var 9. gr. sett. En þær reglur, sem þar eru, eru gersamlega brotnar með þeim reglum, sem hér eru, teknar upp. Og mér skilst á hæstv. ráðh., að það sé gert með vilja, því að hann segir, að ef þetta yrði ekki samþ., enda þótt yfirlýst sé, að þetta eigi að biða, þá mundi það samt tefja fyrir undirbúningi og rannsóknum. En hvað er það, sem hæstv. ráðh. vill gera? Er hann að lauma inn ákveðnum undirbúningi og framkvæmdum, sem byrjað yrði á, þ.e. að haldið verði áfram að byggja svona fyrirtæki, sem hafa ekki verið rannsökuð? Ég verð að segja, að eftir að hæstv. ráðh. lýsti þessu yfir hér, fór ég að hugsa mig um, hvort ég ætti að vera með frv. eða ekki. Ef það er meining hv. fjhn. og hv. frsm., að ekki verði byrjað fyrr, en rannsakaðar hafa verið allar hliðar málsins, eins og ber að gera samkv. 9. gr. l. og hæstv. ráðh. segir í öðru orðinu, að yrði ekki gert, hvers virði er þá yfirlýsing hæstv. ráðh. um það eða skoðun hans, að það tefji fyrir málinu, ef þetta frv. verður ekki samþ.? Ég get ekki skilið það. Það fyrsta, sem þarf að gera, er að leggja þessa rannsókn fyrir og útreikningar, hvernig þetta getur borið sig. Allt er þetta óafgert hjá raforkumálastjóra. Virkjunarskilyrðin hafa verið rannsökuð, eins og hv. þm. Str. sagði. Það er engin þörf að rannsaka þau nánar, en það eru fleiri atriði, sem þarf að athuga, en virkjunarskilyrðin.

Ég álít, að sú stefna, sem hér er tekin, að heimila út í bláinn að leggja út í milljónafyrirtæki, án þess að fyrir liggi þær rannsóknir og upplýsingar, sem eiga að liggja fyrir, sé óholl fyrir málið og verði til þess, sem m.a. hv. 3. landsk. (HV) vildi ekki verða til, að tefja fyrir málinu í heild.

Ég get í þessu sambandi bent á, að áður en þessi l. voru sett, voru samþ. þáltill. um að skora á ríkisstj. að láta rannsaka og undirbúa byggingu rafstöðva. Það var vegna þessara till., sem þessir staðir voru látnir ganga fyrir öðrum stöðum. Þar er einn staður þannig, að raforkumálasjóður varð að greiða 99% af öllum kostnaði, til þess að stöðin gæti borið sig. Það var búið að ákveða það með þál. Ég lít því svo á, að þegar búið er að setja þetta inn, sé búið að gefa loforð um, að þessir staðir gangi fyrir, þó að það kunni að sýna sig, að hagkvæmara sé að virkja annars staðar, án þess að ég segi, að þessir staðir séu óhagkvæmir, því að þær upplýsingar liggja ekki fyrir. Við erum að samþ. þetta í blindni.

Ég skal svo ekki tefja þessar umr. meir. Ég mun að sjálfsögðu fylgja þessu frv. til 3. umr., en ég tel, að sú stefna, sem orðin er í þessu máli, sé til stórkostlegs óhags fyrir raforkumálin og framkvæmd þeirra í heild í landinu.