07.05.1949
Efri deild: 99. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (2639)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég vil aðeins staðfesta það hjá hæstv. ráðh., frekar en orðið er, að ef þessi lagabreyt. nær fram að ganga, fellur hún að mestu leyti undir reglugerð nr. 43 frá 1943. Hið eina, sem liggur þá á milli hluta, er, hvort jeppabifreiðar eiga að heyra undir hana með lögjöfnun, eins og ég hygg, að ætlazt sé til. En það skiptir vitanlega miklu máli, að 7. gr. l. 84/1932 verði framkvæmd eins og hingað til. Það, sem lá á bak við þau lög, var að íþyngja ekki framleiðslunni. En ef sá skattur, sem hér um ræðir, ætti einnig að koma niður á henni, væru það um 1.000 kr. á hvert heimili.

Ég skal ekki lengja umr. með því að bera saman skyldleika hráolíu til bátaútvegsins og benzíns til ökutækja, en vitanlega er það alveg hliðstætt. En að því, er snertir benzínskattinn og vegina almennt, þá vil ég aðeins benda á, að auðvitað er það, sem tekið er fram í frv. um að skatturinn eigi að ganga til viðhalds og uppbyggingar vega og brúa, ekki annað en átylla, nokkurs konar hulinhjálmur til þess að gera stjórnina ekki óvinsælli en þörf er. Við vitum sem sé allir, að ekki nema örlítið brot, örfá prósent af skattinum ganga til þessara framkvæmda; hitt fer til þess að jafna hallann á fjárl. Þetta er svo ljóst og vitað mál, að ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja það nánar. Ég skal ekki vera langorður um afgreiðslu fjárl. og reyna að láta ekki þau orð falla, sem vakið gætu umr., þótt hv. þm. Barð. gæfi fyllilega tilefni til þess. Þar sem hann talaði um afstöðu mína og sumra flokksmanna minna til núv. hæstv. stj., þá er það vitað mál og hefur síður en svo verið ofaukið, að ég er andvígur þessari stjórn. En skyldi það ekki vera dálítið svipað með okkur báða? Ég hygg að minnsta kosti, að það sé algert einsdæmi, að frá form. fjvn. komi um 150 brtt. við fjárlfrv. hans eigin ráðh. Og ég er aðeins að benda á staðreyndir, en er ekki að deila á hv. þm. Þessi ósköp, sem áttu að fæðast, tóku svo langan tíma, að það er ekki búið að afgr. fjárl., þegar komið er langt fram á árið, sem mun vera einsdæmi hjá nokkurri þjóð í heiminum. Af flokki hv. þm. — en hv. þm. er form. fjvn. Alþ. — er meginið af brtt. fjvn., eftir því sem hann segir sjálfur, kolfellt. Ef hv. þm. drægi nú af þessu réttar ályktanir, — og verður nema ein ályktun af þessu dregin, sú, að það sé ómögulegt að fylgja þeirri stj., sem hann hefur unnið fyrir? Ég veit ekkert um það og skal ekki fara um það fleiri orðum. En að því er snertir þetta verk, þá efast ég ekki um, að hann hefur lagt í það sannfæringu sína. En fjármálastefnan er meginatriðið í l. hverrar löggjafarsamkundu. Og þegar fjvn. er ekki talin vera til og ríkisstj. er búin að búa til nýja fjvn. úr sjálfri sér, þá trúi ég ekki öðru, en að fleirum, en mér, finnist þetta ekki smávægilegt ósamræmi. Og þó að flokksmenn mínir fylgi henni að málum, þá stendur víst ekki ósvipað á fyrir okkur, mér og hv. þm. Barð., um þetta, nema að því leyti, að þetta verður miklu meira áberandi af því að hann er form. aðaln. þingsins. Ég veitti því sérstaka athygli um hina sérstöku afstöðu flokkanna, þegar greidd voru atkv. um brtt., að þá komu einna fyrst nokkuð margar brtt. til atkv., sem snertu stofnanir og embætti, sem Sjálfstfl. virðist gera sér mjög,annt um. Og ég vænti þess, að fleiri hafi tekið eftir því en ég, að Sjálfstfl., alveg undir forustu, sem var áberandi, hjálpaði til að fella flestar sparnaðartill. að því er snerti þessar stofnanir. Þegar þannig er ástatt, er ekki eðlilegt, að aðrar brtt., sem sýnt hafði verið fram á með rökum, að óframkvæmanlegt var að lækka, eins og t.d. framlag til flugmála. væru samþ. Það var engin ástæða til þess, að aðrir flokkar, eftir þá afgreiðslu á brtt., sem á undan var gengin og skipulögð móti form. fjvn., samþ. aðrar sparnaðartill., sem voru á minni rökum reistar. Þetta er nú saga þess máls. Og það er ekki neinn vafi á því, að ef þessi afstaða í flokknum, með form. fjvn. einangraðan og líka hæstv. fjmrh., hefði verið með öðrum hætti, þá hefði sú atkvgr. getað farið öðruvísi. Það er ég líka víss um, að hv. þm. Barð. gerir sér fullkomlega ljóst. Ég veit ekki hvaða brtt. það eru, sem komið hafa fram við frv. síðan frá því var gengið við 2. umr. þess, en hv. þm. Barð. segir, að harðast hafi verið sótt af Framsfl., að mér skildist, í eyðslu. Án þess að ég vilji fara mikið út í að ræða þetta, skal ég segja það, að það voru einstaka liðir á fjárlfrv., eins og það var eftir 2. umr., sem allir gátu séð, að ekki gátu staðizt, t.d. framkvæmd landhelgisgæzlunnar. Út af fyrir sig mundu nú fæstir telja það óþarfa eyðslu.

Ég veit, að í höfuðatriðum er ágreiningurinn milli Sjálfstfl. og Framsfl. fyrst og fremst um það, að við framsóknarmenn viljum undir engum kringumstæðum fella niður eða rýra nauðsynlega starfsemi eins og landhelgisgæzluna, sem er alveg lífsnauðsynleg fyrir flotann, eins og ástatt er á miðunum. Í annan stað viljum við ekki fella niður nauðsynlegar framkvæmdir, — og í því hefur hv. þm. Barð. verið okkur sammála, — eins og að leggja vegi, byggja brýr, leggja sveitasíma og þess háttar. Við álítum, að þessir liðir eigi alls ekki að víkja út af frumvarpinu fyrr en í síðustu lög. Við álítum, að áður en farið er að raska við þessum liðum, mætti benda á margt annað og spara marga aðra liði, sem við höfum bent á. En þegar ekki má einu, sinni fella niður skattdómaraembættið á Akureyri, — en í því er sjálfsagt að ýmsu leyti ágætur maður, sem hefur setið þarna í embættinu í 5 ár og tekið fyrir eitt einasta mál, — þá er ekki von, að vel fari í þessum efnum. Ekki má heldur tala um að fækka sendiherraembættum, sem sett hafa verið upp í sambandi við töku sjálfstæðis okkar, og án þess að fara um það fleiri orðum, er það vitað mál, að þau, eru landi og þjóð til einskis gagns. Þegar ómögulega má ræða um sparnað á þessu, sem ég nú hef nefnt, og fleiru af slíku tagi, þá er það ekkert undarlegt, þó að ráðh. Framsfl., sem ég ætla ekki að fara að svara fyrir, því að þeir munu gera það sjálfir í sambandi við fjárlumr., hafi ekki viljað fella burt þessar tiltölulega litlu framkvæmdir, sem eru nú úti um landið, — þó að við framsóknarmenn viljum ekki fella niður það allra nauðsynlegasta, sem jafnframt er framkvæmt fyrir atvinnulíf fólksins þar og ekki einungis fyrir það, heldur þjóðina í heild, til þess að fólkið haldi áfram að heyja lífsbaráttuna þar, í staðinn fyrir að hrúgast í kaupstaðina, með þeim afleiðingum, sem það hlýtur að hafa.

Ég hef reynt að stilla þessu í hóf, til þess að gefa ekki tilefni til frekari umr.