10.05.1949
Neðri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (2678)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Ég skal ekki lengja mikið umr. um þetta mál, en mér þykir hlýða að segja nokkur orð um það. — Það hefur oft verið rætt um það áður, að benzínskattur væri hér lágur miðað við það, sem tíðkaðist í öðrum löndum, en útgjöld af vegagerð óeðlilega há, bæði fyrr og síðar, en sérstaklega á síðustu árum. Það var því ekki undarlegt, þegar ríkisstj. fór að skyggnast um eftir auknum tekjum, að benzínskatturinn yrði fyrir valinu. En eins og ég sagði áðan, er þessi skattur lægri hjá okkur, en nágrannaþjóðunum. Þetta stafar af því, að þar gildir sú regla, að benzínskattur er lagður á það hár, að hann nægi til að standa undir nýbyggingu og viðhaldi á vegum, en þar er hægara um vik, þéttbýli meira og fleiri bílar, enda komið lengra í því að byggja vegakerfi. Samkv. grg. frv. er gert ráð fyrir, að þegar búið er að draga frá það, sem fer í brúasjóð, verði ekki meira eftir en það, sem fer til viðhalds á vegunum, en það er frá 10–14 millj. kr. á ári, en það er svo gífurlega mikið, að varla verður staðið undir því nema að fá öruggar tekjur í því skyni. Í grg. frv. er sagt, að viðhaldskostnaður 1948 hafi lækkað niður í 11,7 millj., en þetta er ekki rétt nema að nokkru leyti, því að nokkur hluti þess, sem var unnið síðari hluta árs 1948, fékkst ekki greiddur þá, en var fluttur yfir á 1949, þannig að viðhaldskostnaður 1948 er raunverulega yfir 13 millj. kr., þegar öll kurl koma til grafar.

Ég get ekki verið hv. 2. þm. Rang. (IngJ) samþykkur, að hækka beri olíu til skipa, því að ríkissjóður ver miklu meira fé til vegagerðar og viðhalds á vegum, en til strandferða. Það er eðlilegast, að benzínskatturinn standi undir viðgerð og nýbyggingu vega, en þegar búið er að draga frá það, sem fer í brúasjóð, þá er aðeins eftir fyrir viðhaldi.

Aðalástæðan til, að ég stóð á fætur, var till. sú, sem hv. 2. þm. Reykv. stóð að á þskj. 697. Hann hefur ásamt fleiri þm. borið fram till. um að heimila ríkisstj. að setja reglur um atvinnuréttindi bifreiðarstjóra samtímis því, sem benzínskömmtunin kynni að verða afnumin. Það kemur úr hörðustu átt frá hv. 2. þm. Reykv., að gera þurfi gagnráðstafanir til þess að vega á móti afnámi skömmtunarinnar, því að þessi þm. og flokksmenn hans hafa aldrei þreytzt á því að halda þeirri skoðun fram á Alþingi, að benzínskömmtunin hafi í einu og öllu verið til bölvunar landi og lýð, og kemur því undarlega fyrir sjónir, að þegar afnema á skömmtunina„ kemur í ljós, að hún hefur á þennan hátt orðið til þess að viðhalda starfi þessarar atvinnustéttar í landinu á þann veg, að nú þarf að gera aðrar ráðstafanir, ef þessi skömmtun verður afnumin. Ég hef ekkert við þessa skoðun að athuga. Hún kemur mér ekkert á óvart, og þess vegna undrar mig ekkert, þó að eitthvað þurfi að gera, ef atvinna þessarar stéttar á ekki að verða fyrir skakkaföllum, sem geti orðið öllum til óþurftar. Að þessu leyti get ég sætt mig við það efni, sem í brtt. felst. En mér finnst, að eins og þessi brtt. er sett fram, sé hún ærið óljós. Hún segir raunar, að ríkisstj. sé heimilt að setja reglur um atvinnuréttindi bifreiðastjóra samtímis því, sem benzínskömmtunin væri afnumin. Viðkunnanlegra hefði mér nú þótt, að þess hefði verið getið í till., í hvaða átt þessar reglur ættu að fara. Að vísu hefur því verið lýst yfir af frsm. þessa meiri hl., en eðlilegra hefði verið að taka það fram í till., á hvern hátt þetta bæri að gera.