13.05.1949
Efri deild: 107. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (2701)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þegar fjárhagsráðsl. voru sett og heimiluð skömmtun m.a. á benzíni, þá varð það að ráði, að fjárhagsráð semdi reglugerð, þar sem gert var ráð fyrir því, að ákveðinn fjöldi bifreiðastjóra yrði starfandi með hliðsjón af skömmtuninni. Var þá ákveðið, að þeir skyldu vera jafnmargir og þeir voru, þegar skömmtunin var upp tekin, og þannig hefur þetta verið síðan. Nú þegar það kvisaðist, að skömmtunina ætti að afnema, þá skildi þessi stétt, að skömmtunin hefði þó ekki verið henni einskis nýt og bar þá fram erindi um það við ríkisstj., að ráðstafanir yrðu gerðar til þess að stéttin yfirfylltist ekki af nýjum mönnum, svo að stórskertist atvinna þeirra, sem fyrir væru. Sams konar erindi munu atvinnubifreiðastjórar hafa sent bæjaryfirvöldunum. Komið hefur til orða, að eimhver samvinna yrði milli Reykjavíkurbæjar og ríkisstj. um það, hvernig heppilegast væri að setja reglur um þetta. Till. sú, sem liggur til grundvallar 4. gr., var borin fram af hv. 2. þm. Reykv. og fleirum í Nd. Innti og flm. eftir því, hvernig skilja bæri till., því að ég var ekki á því hreina með það og óskaði eftir, að hún væri ákveðnar formúleruð. Fékk ég þau svör, að ætlazt væri til, að þetta yrði í svipuðu horfi og verið hefði til þessa dags, og geri ég ekki ráð fyrir, að ég mundi framkvæma þetta á annan hátt, en halda svipaðri tölu og verið hefur, þangað til niðurstöður hafa fengizt af viðræðum bæjarstjórnar Reykjavíkur og ríkisstj. um þetta.