16.12.1948
Neðri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér finnst skorta svo ráðherra hér inni, er ég vildi beina orðum mínum til, að ég vildi óska að þeir kæmu inn. (Forseti: Ég skal gjarna hringja fyrir hv. þm. einu sinni eða tvisvar. Annars hygg ég, að hæstv. forsrh. sé á næstu grösum, svo að hann megi heyra.) Er það? Það er leitt, að hann skuli ekki vera hér, svo langt mál, sem hann flutti. (Rödd frá ráðherraherbergisdyrum.: Hann segist heyra.) Það er mesti munur að vita, að hann er lifandi og í húsinu.

Í ræðu sinni beindi hæstv. forsrh. allmörgum orðum til mín í tilefni af því, sem ég hafði sagt við fyrri umr., og skal ég koma að því nokkrum orðum. Hann vildi afsaka það, að frv. er borið fram á síðustu stundu, með því, að það hefði hent áður, m.a. er við sósíalistar áttum menn í stj. Til margs má nú grípa. Frv. um fiskábyrgðina, sem fyrrv. atvmrh., hv. þm. Siglf., bar fram, var eitt af fyrstu frv., sem lögð voru fyrir stj. Það má hæstv. forsrh. muna. Það var síðan langan tíma til umr. í stj., þar sem ekki var fullt samkomulag um það, og við sósíalistar: áttum ekki sök á þeim drætti, sem varð á afgreiðslu þess eða að það yrði gert að lögum. En hæstv. forsrh. hefur þau vinnubrögð að kasta inn á síðustu stundu umfangsmiklum frv. og gefa þm. varla kost á að lesa þau, hvað þá heldur ræða, að maður nú ekki tali um það, að útvegsmenn fái sómasamlegan tíma til að átta sig á þeim og láta í ljós álit sitt. Meiningin er að drífa málið í gegn á skömmum tíma með öllum ágöllum. Það er engin afsökun fyrir því, hvað þetta frv. er illa undir búið. Það er óverjandi. Í sambandi við það frv., sem ég og hv. þm. Siglf. flytjum um fiskábyrgð, hafði ráðh. stór orð,sagði,að það væri óskapnaður og mundi hafa í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð, er næmu tugum milljóna. Síðar sagði hann hins vegar, að hver eyrir, sem fiskverðið hækkaði um, kostaði ríkissjóð 1,3 millj. kr. Í okkar frv. er gert ráð fyrir því, að fiskverðið verði 5 aurum hærra, og aukast þá útgjöld ríkissjóðs samkvæmt því um 6,5 millj. kr. Það er allt og sumt og mun láta nærri sanni. En þetta þykir ofrausn, þótt útvegsmenn hafi tilkynnt, að óhugsandi sé að stunda útgerð, nema þetta verð fáist. Þá kom forsrh. nokkuð að því, að skuldaskilakafli frv. væri til kominn fyrir kröfu sjútvn. þessarar d. Það er rétt, að n. svari fyrir sig, en ég vil þó beina því til n., hvaðan henni kemur heimild til slíks án samstarfs við útvegsmenn, sem hafa lýst sig andvíga þessum ákvæðum. Sjávarútvegsmenn óska, að styrktarlán og stuðningslán verði gefin eftir að fullu, og í sambandi við umr, um stuðninginn við síldarútveginn fékkst yfirlýsing stj. um það, að þetta yrði gert. En er á er tekið, fylgir böggull, og enginn mun vilja þiggja þessi lán með þeim vandræðaskilyrðum, sem þeim fylgja.

Ég segi fyrir mig, sem þekki vel inn á hag útgerðarinnar í þessum efnum, að ég veit það, að útgerðarmenn mundu margir hverjir ekki óska eftir því að fá skuldir sínar útskrifaðar, ef það skilyrði fylgdi með, að þeir yrðu gerðir upp sem gjaldþrota. En þetta verður svo aftur að metast, eins og mörgum þykir eðlilegt, að þegar ríkisstj. er búin að gefa hátíðlega yfirlýsingu um það hér á Alþ., að hún skuli setja löggjöf nú innan skamms, sem gefi útgerðarmönnum kost á að fá eftirgefnar þær skuldir, sem hér um ræðir, að það skuli þá gert með þeim skilyrðum, að enginn útgerðarmaður vill ganga að því. Ríkisstj. getur svo hælt sér af því, að hún hafi boðið þetta, en bara boðið það með þeim skilyrðum, að enginn útgerðarmaður gat þegið það boð. Ég fyrir mitt leyti skal þó fagna því, ef það ber að skilja þennan kafla svo, að ekki komi skuldaskil til greina nema í því falli, að útgerðarmenn krefjist þess eða óski eftir að fá sín fyrri lán hjá ríkinu strikuð út. Ég benti á það, að eins og kaflinn er orðaður nú, þá er ekki hægt að sjá, að svo sé. Það er beinlínis tekið fram í þeim gr. frv., sem ég hef vitnað í, t.d. í upphafi 15. gr. stendur: „Jafnskjótt sem skilanefnd hefur tekið við aðstoðarbeiðni.“. Það er engin frekari skilgreining á því. Ef útgerðarmaður óskar eftir 15 þús. kr. láni til þess að létta sjóveðum af bát sínum, þá hefur þessari skilanefnd, sem á að veita lánin samkvæmt þessum nýsamþykktu lögum, borizt beiðni um stuðning, og ef hann á í staðinn að þiggja skuldaskil og gjaldþrotauppgjör, þá tekur enginn útgerðarmaður þetta stuðningslán. En þetta ber vitanlega hæstv. ríkisstj. að skýra hér fyrir þessari hv. d. Ber að skilja þennan kafla, eins og hann er orðaður, að hver sá, sem leitar til skilanefndar um eitthvert lán eða einhvern stuðning, skuli hljóta skuldaskilameðferð og gjaldþrotaskipti á öllu sínu búi? Ber að skilja þetta þannig, eða þá eingöngu að þetta komi til framkvæmda í þeim tilfellum, ef menn vilja fá eftirgjöf á sínum lánum samkv. 12. gr. Þá á að orða 15: gr. þannig: „Jafnskjótt og skilanefnd tekur við aðstoðarbeiðni samkv. 12. gr.,“ en það er aðstoðarbeiðni um að fá eftirgefnar þessar skuldir. En annars verður því ekki neitað, að allur þessi kafli, sem ég hef verið að tala um hér, er illa saminn, og mér liggur við að segja vitlaus. 1. gr. hans er þannig að þar er sagt, að þeir útgerðarmenn og þau útgerðarfyrirtæki, sem síldveiðar hafi stundað sumarið 1948, geti fengið eftirgefnar þær skuldir eða þau lán, sem ríkið hafi lánað þeim vegna útgerðarinnar 1948, en þau lán, sem veitt voru á árinu 1947; vegna útgerðarinnar og vegna síldarútgerðarinnar 1945, eru ekki nefnd. Nú veit ég það, að þeir, sem hafa samið frv., ætla sér alls ekki að binda ákvæði þessarar gr. við þetta eina ár, 1948: Þeir ætlast efalaust til þess, að þeir geti einnig notið hlunninda þessarar gr. um eftirgjöf á skuldum, sem stunduðu síldveiðar 1947 og stórtöpuðu þá. Orðalagið er þannig, að hjálpin er bundin því skilyrði, að þeir hafi stundað síldveiðar 1948, en allir vita, að það þarf alls ekki að vera, að þeir, sem síldveiðar hafa stundað 1948, hafi gert það líka 1947 eða 1945, og í mörgum tilfellum hefur það ekki verið. Meiningin hefur auðvitað verið sú, að gefa þeim síldarútvegsmönnum kost á að fá útstrikuð þessi lán, sem síldveiðar hafa stundað 1945, 1947 og 1948, veita þeim öllum sama rétt í þessu efni. Því verður heldur ekki neitað, að á grundvelli þess, hvernig greinin er orðuð, eru ákvæðin í 17. gr. þannig, að ef ekki næst tilskilið samkomulag, þá er heimilt með reglugerð að fyrirskipa skuldaskil útvegsmanna, sem stunduðu síldveiðar 1948. M.ö.o., það er leyfilegt að fyrirskipa skuldaskil allra útvegsmanna, sem síldveiðar stunduðu 1948, ef tilskilið samkomulag næst ekki um útstrikun skuldanna. Það er anzi hart, að menn, sem ekki óska eftir að fá neitt eftirgefið hjá ríkissjóði og jafnvel óska ekki eftir aðstoð ríkisins, en hins vegar skulda ýmsum fyrirtækjum, geti ekki náð frjálsu samkomulagi um greiðslur á þessum skuldum. Samkv. 17. gr. hefur ákveðin nefnd vald til þess að fyrirskipa skuldaskil hjá þessum mönnum líka. Ég er sannfærður um, að þetta eru bara mistök hjá þeim, mönnum, sem hafa samið þetta, þar sem þessu er flaustrað af á síðustu stundu. Meiningin hefur sjálfsagt verið sú að fyrirskipa þetta ákvæði eingöngu á þá aðila,. sem sækja um eftirgjöf á lánum frá ríkissjóði.

Svo segir hæstv. forsrh., að ég verði að viðurkenna og aðrir, að þetta frv. sé flutt af góðum vilja og miklum skilningi. Ég skal nú út af fyrir sig ekkert segja um viljann, en ég fullyrði hitt, að skilningurinn er bágborinn. Það er alveg augljóst mál, þegar menn fara að kynna sér frv. og athuga aðstöðu útgerðarinnar, að skilningurinn er afar bágborinn bak við frv.

Þá vék hæstv. forsrh. og sömuleiðis hæstv. menntmrh. að þeim orðum mínum, þar sem ég hafði nefnt það skálkaskjól, sem menn væru að reyna að hlaupa í, þegar þeir væru að afsaka sig með því, að það væri ekki þeirra stefna, sem kæmi fram í frv., heldur hrærigrautur þriggja flokka, sem hefðu ólíkar skoðanir um málin. Sérstaklega kom það fram í ræðu hæstv. forsrh., sem vildi sverja þetta af sér, eins og hans er vandi og hans flokks í þessum málum. Ég sagði, að svona afsakanir væru fyrirlitlegar og ég tæki þær ekki alvarlega, á meðan þeir ekki legðu skýrt fram, hver þeirra stefna væri í þessum efnum. Ég skal játa það, að þegar þrír flokkar eru í samstarfi, þá mega þeir búast við að þurfa að semja nokkuð af sinni stefnu til þess að ná samkomulagi. Ég hef ekki borið á móti því, að við sósíalistar höfum gert það; þegar við tókum þátt í ríkisstj. En það var eins og hæstv. forsrh. orðaði það, þegar hann sagði, að við sósíalistar hefðum verið óþreytandi að skýra okkar sérstöðu í málunum, hvað við hefðum viljað og hvað við hefðum lagt til, en hins vegar þurft að fara inn á samkomulagsleiðina. Þetta er það sanna í málinu, og það er einmitt þetta, sem ég óskaði, að hann gerði, ef taka ætti orð hans alvarlega í þessum efnum. Ég get skilið, að Framsfl. og aðrir flokkar, sem að ríkisstj. standa, hafi orðið að semja af sinni stefnu, en ég óska eftir því, að Framsfl., og reyndar hver flokkurinn um sig, skýri það, hver þeirra hreina flokksstefna er í þessu merkilega máli. Þá sér maður, af hverju þeir hafa þurft að slá, hver á mest í þessu og hver á sök á hverju fyrir sig. Hæstv. menntmrh. fannst, að hann mætti til með að gera í þessu efni nokkuð hreint fyrir sínum dyrum, og hann sagði frá því, hver stefna Framsfl. væri í dýrtíðarmálunum. Í rauninni fór hann hjá sér, eins og oft þegar hann ræðir um þau mál. Hann sagði það, að hann hefði viljað og vildi helzt kjósa, að farin yrði verðhjöðnunarleiðin að nokkru leyti, það mætti eiginlega ekki verða mikið. Þegar gripið var fram í fyrir honum og hann var spurður um, að hve miklu leyti, þá sagði hann: t.d. að binda kaupgjaldsvísitöluna við 280 stig. Það var ljómandi gott að fá þetta fram frá ráðherra Framsfl., að hans megintillaga væri að binda kaupgjaldsvísitöluna við 280 stig. Þetta hefur hann ekki fengið hina flokkana inn á. Vitanlega veit maður, að þetta leysir sáralítið. Það hefur t.d. verið reiknað út af sérfræðingi, að í sambandi við bátaútveginn skiptir þetta í rauninni engu máli. Hvað er það svo til viðbótar, sem Framsfl. hefur á sinni margumtöluðu dýrtíðarstefnuskrá? Jú, hæstv. menntmrh. sagði, að svo væri okkur kunnugt um, að Framsfl. hefði sérstaka stefnu í verzlunarmálum, sem hana hefði lagt fram frv. um. Það er eflaust frv. um, að innflutningsleyfin séu fengin þeim, sem skaffa skömmtunarseðla. Ég skal fyrir mitt leyti játa, að þetta yrði veruleg bót, en hins vegar munu allir verða að viðurkenna, að hún áorkar mjög skammt í þessum málum, dýrtíðar- og verðbólgumálunum. Lítið verður maður því að telja læknisráð Framsfl. og sérstaklega hæstv. menntmrh., sem hefur spreytt sig á verðbólgumálunum í sífellu, ár eftir ár, ef hann hefur aðeins þetta fram að færa. Það er ein till. táknræn í þessu efni og skýrir greinilegast dýrtíðarpólitík Framsfl., það er jeppatill., sem sá flokkur ber fram. Framsfl. flytur till. um að undanskilja jeppa hinum nýja skatti á alla innflutta bíla. Sennilega mun það svo vera um samið, að aðrir flokkar drepi till., og svo er allt klappað og klárt og allir lausir við allan vanda af þessu. Þar með má það heita, að stefnu Framsfl. í dýrtíðar- og verðbólgumálunum sé að fullu lýst. Hæstv. forsrh. vék sér undan að segja frá stefnu Alþfl. í þessum málum, og af hálfu Sjálfstfl. hefur ekki enn heyrzt neitt um þetta. Hæstv. menntmrh. sagði, að ég hefði í rauninni búið hér til þá afstöðu Framsfl., þegar ég sagði, að hann hefði haft það við orð, áður en hann settist í ríkisstj., að Framsfl. tæki ekki þátt í neinni ríkisstj., nema snúizt væri af alvöru gegn verðbólgunni og dýrtíðin lækkuð til stórra muna. Ég hef ekki haft tíma til að leita í gömlum Tímablöðum, en ég efast ekki um það, að ég muni finna þar nóg af slíkum skrifum. og mun ég þá lofa hæstv. menntmrh. að heyra, hvað flokkur hans sagði um þessi mál, rétt áður en hann gekk í ríkisstj. Þetta segir hæstv. menntmrh. æ ofan í æ, að sé rangt, hann segir að vísu, að 1942 hafi það verið skilyrði Framsfl., að það yrði að lækka dýrtíðina, 1944 var það enn fremur skilyrði, að dýrtíðin yrði lækkuð, en hins vegar hafi það ekki beint verið skilyrði 1946, þegar hann gekk í stj. Þá hefur dýrtíðin og verðbólgan verið orðin svo mikil, að ekki hefur tekið að berjast við það lengur og þá mátti það drasla. Ég hygg, að það hafi komið skýrt fram, að fram til þess tíma, er menntmrh. tók sæti í stj., þá hafi það verið skýlaus krafa Framsfl. að heimta, að dýrtíðin yrði mikið lækkuð. Hitt er svo staðreynd, að hæstv. menntmrh. og einnig hæstv. forsrh. hafa tekið þátt í að auka dýrtíðina frá því að þeir tóku þátt í ríkisstj., leggja á nýja tolla og skatta og hækka vöruverðið. Hæstv. menntmrh. hefur að vísu verið fylgjandi því að binda vísitöluna við 300 stig, og rýrt með því lífskjör bæði bænda og verkamanna. Aðrar hliðar dýrtíðarinnar hafa fengið að vaxa óhindrað allan tímann, sem hann hefur setið í stjórn.

Þá kom hæstv. menntmrh. að því, að það væri hart, að við sósíalistar leyfðum okkur að halda því fram, að á árunum 1944–46, eða á þeim tíma, sem nýsköpunarstjórnin sat, hafi verið unnið mikið í þágu sjávarútvegsins og sagðist hann mundi leiða vitni í því máli, sem væri ályktun, sem samin hefði verið af útvegsmönnum og birt í blöðum, um það, að það hefði í raun og veru aldrei verið rekstrargrundvöllur fyrir útgerðina síðan árið 1942, allan tímann síðan hafi verið svo hátt verðlag að útgerðin hafi ekki haft nóg til síns rekstrar, og hafi þess vegna verið halli á rekstrinum. En nú er það upplýst, sagði hæstv. menntmrh., að framleiðslukostnaðurinn við útgerðina hefur ekki hækkað frá í fyrra. Af hverju kom hæstv. ráðh. ekki með sama vitnið og lét það segja til um, hvernig væri með framleiðslukostnaðinn í ár, borið saman við það, sem hann var, þegar stj. tók við völdum? Nú hefur þetta sama vitni reiknað það út og tilkynnt öllum landslýð, að þar sem hægt var að framleiða þorsk fyrir 65 aura verð áður, þurfi nú 88 aura í stað þess, og í síðari áætlun hefur þetta sama vitni reiknað það út, að til þess þurfi jafnvel 97 aura sums staðar á landinu, utan Faxaflóa. Þetta er nú vitnisburður þessa sama vitnis um það, hvernig yfirleitt hefur farið með framleiðslukostnaðinn á þessu tímabili. Ég hygg, að það láti mjög nærri, að síðan núverandi ríkisstj. tók við hafi rekstrarkostnaður útgerðarinnar aukizt svo, að fiskverðið þurfi í raun og veru að hækka úr 65 aurum upp í 88 aura, þegar tekið er tillit til þeirra hækkana á útgjöldum til rekstrar útgerðinni, sem hlotizt hafa af öllum þeim hækkunum, sem ríkisstj. hefur beinlínis í flestum tilfellum staðið fyrir að íþyngja útgerðinni með. Hitt vita svo allir, og þarf ekki umsögn neinna útgerðarmanna um það í sambandi við fiskverðið, sem þeir höfðu við að búa á árunum 1944–46, að þær framkvæmdir, sem gerðar voru í þágu útgerðarinnar á tímum nýsköpunarstj., voru stórkostlega þýðingarmiklar fyrir útgerðina og þjóðarbúið í heild sinni í sambandi við rekstur sjávarútvegsins. Þetta vita allir, útgerðarmenn og landslýður allur yfirleitt, nema líklega hæstv. menntmrh. Hvernig halda menn, að það mundi ganga nú með því verðlagi, sem nú er í landinu, að reka bátaútveginn með þeim bátum, sem hér voru yfirleitt fyrir tíð nýsköpunarstj., og með þeim útbúnaði, sem þá var hér yfirleitt notaður? Hvernig halda menn, að það hefði gengið að halda mönnum við þennan rekstur, ef nýju bátarnir hefðu ekki komið til sögunnar og hin stórkostlega lagfæring, sem þó fékkst þá í sambandi við stofnlán útgerðarinnar? Enda vita allir menn það, að þjóðfélagið í dag flýtur á þessum aðgerðum, það flýtur á þeirri framleiðslu, sem þessi atvinnutæki efla nú í dag og færa þjóðinni, en hin gömlu hefðu á engan hátt getað fært þjóðarbúinu. Þetta var þýðingarmikið átak, sem hæstv. menntmrh. og Framsfl. vildu ekki vera með til að lyfta, á neinn hátt og hann hefur aldrei getað litið réttu auga síðan.

Hæstv. menntmrh. minntist hér á veltuskattinn í tilefni af því, sem ég hef sagt um hann eða söluskattinn, eins og hann heitir nú, og mjög á þá lund, sem ég þekki svo mæta vel áður, því að þetta er ekki í fyrsta skipti, sem ég hef minnzt á þennan skatt við hann. Það hefur alltaf farið svo, að það er eins og að það láti illa í kroppnum á honum, ef minnzt er á þennan skatt, og fer hann þá jafnan að reyna að útlista, hvað þessi veltuskattur hafi haft einkennilegar náttúrur. Ég hef áður bent þessum hæstv. ráðh. á það og ætla að gera það enn, þó í færri orðum en áður, sem allir hv. þm. vita, að veltuskatturinn, sem fyrst var samþ. í tíð fyrrv.ríkisstj.,vartekinn af núverandi ríkisstj.og samþ. orðréttur,hver ein einasta gr.,1.,2.,3.,4.gr. o.s.frv. Ég hef áður lesið það yfir hæstv. menntmrh., þegar samanburður hefur verið gerður á þessu, að gamli veltuskatturinn var samþ. orðréttur nema eitt einasta orð, í staðinn fyrir „veltuskattur“ stóð „söluskattur“. Og þessi „náttúra“, sem hæstv. menntmrh. ræðir um í sambandi við þennan skatt, er sú,að það var ákveðið í sambandi við veltuskattinn,að hann ætti að leggjast á kaupsýslumenn og kaupfélög og þá,sem verzla með vöruna, þeir áttu að bera hann. Það mátti ekki leggja hann ofanávöruna,sem fólkið keypti, ekki velta honum á fólkið. En þessi nýi söluskattur var þess einkennilega eðlis, að það mátti hækka allt vöruverð, leggja hann ofan á vöruverðið, láta fólkið borga hann. Þetta var munurinn á þessum tveim sköttum, á þeim versta skatti, að dómi hæstv. menntmrh., sem nokkurn tíma hefur verið lagður á og hæstv. menntmrh., sem er spesíalisti í skattamálum, hefur ekki getað fundið neinn líka, hvar sem hann hefur leitað. Ef hann lítur réttum augum á þetta, sér hann, að veltuskatturinn er nákvæmlega sami skatturinn og söluskatturinn, sem lagður hefur verið á undanfarin 2 ár, að því undanskildu, að söluskatturinn hefur verið lagður á vöruverðið og þar með hækkað vöruverð, aukið dýrtíðina og orðið til þess að þenja út verðbólguna, en hinn skatturinn var borinn uppi af kaupsýslumönnunum sjálfum. Það er eðlilegt, að hæstv. ráðh. líði ekki vel, þegar minnzt er á þennan skatt og öll þau orð, sem hann er búinn að tala um hann, sem hann finnur nú, að hann þarf að kingja öllum í einu. Það er vonlaust að blekkja hv. þm. eða nokkurn mann með því, að þessi skattur sé sérstaks eðlis, að hann hafi einhverja einkennilega, undarlega eða yfirnáttúrlega náttúru, og af þeim ástæðum beri að gera greinarmun á veltuskattinum og þessum söluskatti. Menn kunna svo vel að gera skil á því, sem skrifað stendur um þessi mál, að þeir geta áreiðanlega gert það upp við sig.

Það hefur hér verið beint nokkrum fyrirspurnum til hæstv. fjmrh., aðallega í sambandi við fiskábyrgðina, hvernig útkoma hennar væri á árinu 1948. Hæstv. fjmrh. svaraði þessu, en því miður voru upplýsingar hans ófullnægjandi, og ég óska eftir því, að hann við fyrsta tækifæri gefi fyllri og skýrari upplýsingar um þetta efni. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að það geti ekki annað komið til mála, en að þessi áætlun, sem gerð var af ráðun. á sínum tíma, sé of há. Hæstv. fjmrh. segir, að saltfiskgreiðslurnar vegna ábyrgðarlaganna hafi á árinu 1947 numið rúmum 10 millj. kr. Þetta er rétt, og þá var saltfiskurinn, sem verðbæta þurfti, í kringum 26 þús. tonn. Nú er hann 13 þús. tonn, og vegna þess að salan í ár er betri en í fyrra, þá er það alveg gefið mál, að uppbæturnar á saltfiskinn geta ekki numið 5 millj. kr., og ekki nema 3–4 millj. kr. Ef þær yrðu 4 millj. kr., en heildaráætlunin var sú sem fjmrh. gat um í fjárlagaræðu sinni, að þessar fiskuppbætur yrðu 141/2 millj. kr., þá eru samt sem áður eftir 101/2 millj. kr. Árið 1947 er gefið upp, að það hafi verið 21 millj. (Fjmrh.: Það komu frá fyrra ári greiðslur að upphæð 1,7 millj. kr.) Það er þá alveg útilokað með öllu, að á hraðfrysta fiskinn falli álíka mikil upphæð í ár og síðasta ár. Þá voru stórar sölur, sem seldar voru undir verði, en allar sölur nú, hver einasta, sem ég þekki til, hafa verið á fullu ábyrgðarverði. Þetta á við allar sölur nema þær, er farið hafa til Ameríku. Sölurnar til Hollands, Tékkóslóvakíu o.fl. landa hafa allar verið á fullu ábyrgðarverði. Dálítið hefur verið selt til Ameríku, og eitthvað er eftir af fiski, sem verður umfram. Það er ríflega áætlað, að greiða þurfi vegna ábyrgðar um 10 millj. kr. Reynslan mun svo sýna, hvernig þetta fer. Jafnvel þótt greiða ætti um 14 millj. kr., þá sjá menn, að það er alveg rangt, að þær 70 millj. kr., sem hér eru innheimtar, séu vegna ábyrgðar á fiskverðinu. Þær eru aðeins að litlu leyti vegna þess, aðeins lítill hluti, ef miðað er við yfirstandandi ár. Mér finnst sem hv. þm. hafi ekki komið auga á, hvað raunverulega felst í fiskábyrgðarlögunum, því að óhjákvæmilegt mun verða, ef tryggja á rekstur útgerðarinnar, að kveða á um fulla ábyrgð, þó að við höfum selt í ár fyrir ábyrgðarverð og ekki þurft að greiða neitt úr ríkissjóði. Það er eigi hægt að kippa lögunum burt. Þess vegna mun ekki hægt að fá menn til útvegsins, nema þeir séu ráðnir upp á fastan hlut. Allir aðrir eru á föstu kaupi, og vonlaust er, að hlutarráðning beri tilætlaðan árangur, nema margar og miklar ábyrgðir liggi fyrir, þó að það sé nokkur áhætta, en hún er eigi svo, að vaxa þurfi mönnum í augu. Rétt er og að áætla tekjur á móti. Mundu eigendur hraðfrystihúsanna ekki treysta sér til að reka húsin, nema örugg ákvæði lægju fyrir um verð. Af þessum ástæðum er nauðsynlegt að hafa fiskábyrgðarlögin, þótt eigi sé gert ráð fyrir verulegum útgjöldum. Allt öðru máli gegnir um útfluttar landbúnaðarafurðir. Við vitum fyrir víst, hvert verðið er á þeim, svo að þar getur eigi skakkað miklu. Við getum þar áætlað gjöldin úr ríkissjóði. Áhættan er eigi mikil varðandi það mál, en raunar er það ekki sambærilegt við það, er hér um ræðir. Hæstv. fjmrh. minntist á, hvað það væri, sem við sósíalistar vildum í málum þessum. Hef ég gert grein fyrir því í ræðu minni hér áður, hvað við leggjum til, að gert verði. Það er því óþarfi að spyrja um, hvort við viljum lækka útgjöld ríkissjóðs. Lækkun á launum skiptir litlu máli. Það eru aðrar ráðstafanir, sem talsvert mundu lækka útgjöldin og skipta útveginn meira máli, en launalækkun. Og við sýndum fram á, hvaða aðgerðir það væru. Við sögðum í fyrra, að við værum reiðubúnir til að athuga, hvaða skatta leggja ætti á til þess að standa undir áhættunni af ábyrgðarlögunum. Við vorum með í því að samþykkja tekjustofna handa ríkissjóði. Við vorum reiðubúnir að semja um 25 aura hækkun, og hefði það haft í för með sér 6,5 millj. kr. aukningu. En það voru bara ýmsar leiðir, er til álita komu. Ég er á þeirri skoðun, að sjálfsagt sé að ábyrgjast úr ríkissjóði útgjöld útvegsins. Áætlað er, að rekstrarútgjöldin hækki í frv. þessu um 21 millj. kr. Það er sama, hvaða ríkisfyrirtæki er athugað: Allar stofnanir auka við sig mannahaldi o.fl., og útgjöld þeirra fara síhækkandi. Þetta er ævinlega allt samþ. af hæstv. ríkisstj.

Staflað er upp ráðum og nefndum, en sjálfsagt má þykja að draga úr þessum óhóflegu útgjöldum ríkisins, og hefur aldrei staðið á okkur sósíalistum að taka þetta mál til athugunar. En ætli það standi ekki á hæstv. ríkisstj. að skera niður þessi gjöld? Kostnaður við dómgæzlu og lögreglustjórn hefur hækkað úr 7 millj. frá 1945 upp í 14 millj. árið 1947. Hvað er það, sem hefur gerzt og gerir þetta að verkum? Hvaðan stafar þessi hækkun? Það er bætt við greiðslubáknið árlega.

Ég verð að álíta, að maður verði að líta þannig á II. kafla frv., þann er fjallar um skuldaskil við útvegsmenn, að hann eigi einvörðungu við, þá er útgerðarmenn fari fram á eftirgjöf á skuldum sínum. Er þetta álit mitt rétt? Annars veit ég ekki, hvort hæstv. ríkisstj. heyrir til mín. Hæstv. ráðh. eru e.t.v. allir flúnir af hólminum. Þó vildi ég nú fá skýringu á þessu. Að öðru leyti eru nokkur atriði í frv., sem ég vil skjóta til n. Í fyrsta lagi: Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir, að sömu mistök eigi sér stað á árinu 1947 sem slæddust inn í fyrra varðandi geymslukostnað hraðfrysts vetrarvertíðarfisks. Eiga þau ákvæði við um það, að geymslukostnað megi greiða þeim húsum, sem fengið hafa vetrarvertíðarfisk. Þau frystihús, sem framleiða vörur til útflutnings í sumar, geta fengið greiddan geymslukostnað á fiskinum. En hinir, sem verða að bíða um vorið, allt sumarið og e.t.v. fram á vetur, geta ekki fengið hann greiddan. Ég vil láta eitt yfir alla ganga og að allir fái eitthvað greitt, ef fiskurinn liggur í geymslu einhvern tiltekinn tíma. Í öðru lagi er einkennilegt það ákvæði í 2. gr., sem skilorðsbindur ábyrgðina til hraðfrystihúsanna. Enginn hæstv. ráðh. hefur fengizt til að minnast á þetta aukateknu orði, og er þó ástæða til þess. Þessi 2. mgr. 2. gr. hljóðar svo: „Ábyrgð ríkissjóðs samkv. 1. mgr. skal einungis taka til fisks, er seldur verður til landa, er ríkisstj. ákveður með hliðsjón af markaðshorfum á hverjum tíma.“ Hvernig á að skilja það, að ábyrgðin sé veitt á þar tilteknum fiski, sem fari til þar til tekinna landa? Hvað á þetta eiginlega að þýða? Til hvers er þetta skilyrði sett í frv.? Slíka ábyrgð munu hraðfrystihúseigendur meta að engu. Þá vildi ég fá frekari skýringu frá hæstv. ríkisstj. á fyrri mgr. í 20. gr. frv., er svo hljóðar: „Af tollverði allrar innfluttrar vöru, að viðbættum aðflutningsgjöldum og áætlaðri álagningu 10% — tíu af hundraði —, skal greiða 6% söluskatt. Heildsala er undanþegin söluskatti samkvæmt 21. gr. og tekur hún aðeins til venjubundinna umboðslauna, en ekki til neinnar þóknunar, sem telja má, að komi í stað venjulegrar álagningar, svo sem þóknunar fyrir umsjón með vinnu.“

Ég hef lesið þetta nokkrum sinnum og lagt mig allan fram við að reyna að skilja þessa grein, og ég veit um fleiri, sem gert hafa hið sama. En hvað á þetta eiginlega að tákna? Það er svo hrúgað saman orðum, að mest er óskiljanlegt. (Einhver: Krossgáta e.t.v.?) Já, fyrir mér er þetta alger krossgáta, — þó að ég renni nú grun í hvað við muni átt í gr.„ Heildsala er undanþegin söluskatti ...., og tekur hún aðeins til venjubundinna umboðslauna ....“.

Hvernig á að framkvæma þetta, ef til kæmi? Mér er það hulið.

Ég geri ráð fyrir, að málið fari til n., og mun þá gefa mér tóm til að flytja brtt. Ég beini því til hennar, hvort eigi sé ástæða til að fresta II. kafla frv., um aðstoðina til útvegsmanna, skuldaskilin. Það yrði þó allténd til bóta þessari jólagjöf hæstv. ríkisstj. til þjóðarinnar.