05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1765 í B-deild Alþingistíðinda. (2725)

118. mál, raforkulög

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Barð., að þessar stöðvar eru dýrar í rekstri. Eftir því sem ég veit bezt, eyða þær einum til þremur lítrum á klukkustund. Það mætti segja mér, er menn fara að nota þær, að þeir verði ekki hrifnir af því að þurfa að keyra alla nóttina til þess að hafa eitt ljós. En það er annað mál. En af því að þær eru svona dýrar í rekstri, skildi ég ekki, er hv, þm. Barð. sagði, að þessir menn yrðu bezt settir. Þó að stofnkostnaður þeirra verði minni, verða þeir alltaf verr settir. Til þess að þeir verði betur settir, þarf nýja till., því að það er fjarri sanni, að nokkurs manns sé freistað með þessari till. til þess að hverfa frá vatnsorku. Frv. er svo óaðgengilegt, að engum dettur í hug að fara þessa leið, ef möguleiki er á því að virkja nokkra sprænu. Ég skildi ekki hv. þm., er hann talaði um, að hann væri á móti því, að fasteign væri sett að veði. Enginn veðsetur annað en hann á. Ég veðset t.d. ekki skip, sem ég á ekkert í. Þeir, sem ekki uppfylla skilyrðin, geta ekki fengið lán. Landsetar geta t.d. ekki fengið lán úr ræktunarsjóði, og 38% af bændum landsins eru leiguliðar. Það sama gildir hér. Þeir, sem ekki hafa veð, koma ekki til greina. Þetta hefur auðvitað í för með sér, að einstaka menn fá ekki þessi lán, en úr því að hv. þm. Barð. er hræddur við þessa leið, skil ég ekki, hvað hann hefur við það að athuga. Ég skil ekki, að hægt sé að lána út á veð, sem hægt er að keyra burt á hjólbörum, og held því, að sjálfsagt sé að hafa fasteignarveð. Ég er á móti till. hv. þm. Barð., því að ég vil hafa tryggt veð og ákveðna vexti, og þess vegna vil ég ekki láta kjörin velta á ráðh., heldur séu þau ákveðin í l. sjálfum.

Ég vil benda á eitt, sem komið hefur fram í umr. og n. hefur ekki tekið eftir. Í 38. gr. raforkul. er kveðið svo á, að ráðh. ákveði lán þau, er um getur í 35. gr., að fengnum till. raforkumálastjóra. Til samræmis þyrfti því að setja í 38. gr. „að fengnum till. raforkuráðs“, eða setja „raforkumálastjóra“ inn í frv. í stað raforkuráðs. Ég vildi heldur, að raforkuráð hefði þetta með höndum, og mun því bera fram brtt. við 3. umr. við 38. gr. um, að „raforkuráð“ komi í stað „raforkumálastjóra“.