11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (2768)

208. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að það er mjög óviðkunnanlegt, að hæstv. ráðh. mæti ekki við umr. eins og þessar. Hér voru í gær rædd mál, sem snertu aðra hæstv. ráðh. Í gær ræddum við fram á nótt mál, sem snerti hæstv. viðskmrh. Hann sat hér allan tímann og taldi það ekki eftir sér. Við höfum rætt hér í kvöld um skemmtanaskatt og þjóðleikhús, og a.m.k. til að byrja með var hæstv. menntmrh. staddur hér við þær umr., en seinni partinn mun hann ekki hafa verið viðstaddur. Hæstv. fjmrh. vissi, að þessu máli var frestað í dag vegna þess, að hann gat þá ekki verið viðstaddur. Nú hafði ég borið fram fyrirspurnir til hæstv. ráðh., hvort hann hefði verið samþykkur þeirri aðgerð, sem fjárhagsráð stóð fyrir í umboði ríkisstj., sem allar hafa miðað að því að draga úr tekjum manna hér á landi og hefta atvinnu, framkvæmdir og viðskipti. Og með þessum beinu ráðstöfunum til þess að draga úr framkvæmdum og atvinnu í landinu hefur hæstv. stj. vitandi vits stofnað til þess að minnka alla þá tekjustofna, sem ríkið byggir tekjur sínar á. Það hefði verið gaman að fá svör hæstv. ráðh. við þessu. Hann hefur einu sinni áður á þessu þingi svarað fyrirspurnum um þetta frá mér á þann hátt, að hann hafi engin áhrif á það, fjárhagsráð hafi gert þetta, og það sé fjárhagsráð og viðskiptanefnd, sem geri hvers konar ráðstafanir viðvíkjandi atvinnu og framkvæmdum hér á landi. Ég sýndi þá fram á, hvaða samband væri á milli tekjustofna ríkisins og þessara aðgerða í atvinnulífi þjóðfélagsins, og hæstv. ráðh. skildi það þá. Ég minnti þá á, að ríkisstj. sem heild stjórnaði fjárhagsráði og þar með hæstv. fjmrh. líka. Ég hefði haft gaman af því nú að heyra, hvernig hæstv. fjmrh. liti nú á þessi mál og hvort hann hefur eitthvað lært af því, sem við ræddum í vetur í þessu. sambandi.

Hæstv. fjmrh. kom í dag og kvartaði og kvartaði við okkur og sagði, að tekjuskatturinn væri að bregðast hjá sér, við fengjum ekki eins mikinn tekjuskatt og reiknað hefði verið með. Hvernig stendur á því? Það er af því, að tekjurnar hjá borgurunum hafa minnkað. Og hvers vegna hafa þær minnkað? Það er vegna þess, að ríkisstj. sjálf hefur með sérstökum ráðstöfunum dregið úr atvinnu manna og minnkað tekjur almennings. M.ö.o. hæstv. ráðh. kvartar yfir, að tekjustofnar bregðist, en um leið er hann sjálfur að saga undan sér þann tekjustofn, sem hann situr á. Hæstv. ríkisstj. er sjálf með framkvæmdum sínum að brjóta niður það kerfi, sem hún hefur reiknað með að fá tekjur sínar af.

Hæstv. fjmrh. hefur lýst eftir, hvaða ráðstafanir við sósíalistar vildum gera til að bæta úr þessum vandræðum. Þar vil ég benda honum á að byrja á byrjuninni. Tekjustofnarnir fara eftir því, hvernig atvinnulífið er. Það verður því að byrja á að efla atvinnulífið, halda þar öllu með fullum krafti, gefa öllum möguleika á að geta starfað. Ég mundi, ef hæstv. fjmrh. væri hér, hafa minnt hann á, að hann hefði sjálfur og fleiri með honum, samstarfsmenn hans, gert hluti, sem miðuðu að því að gefa hverjum manni tækifæri til að framkvæma sem mest. En þegar hann er kominn í þessa stjórn, snýr hann við blaðinu og vill draga úr öllum slíkum framkvæmdum, og nú uppsker hann sjálfur sem fjmrh. ávextina af þessari pólitík, sem hann hefur rekið síðan hann varð ráðh. Hæstv. ráðh. vildi enn fremur fá að vita meira um möguleika til að leggja á álögur. Hann talaði um, að við kvörtuðum yfir, að benzínskatturinn kæmi niður á bílstjórum og bændum og fleirum og að þetta afnám kjötuppbótarinnar kæmi illa niður á einhleypu starfsfólki, fátæku og meira en helmingi af öllum fjölskyldum í alþýðustétt. Þannig væru kvartanirnar, en ekki bent á, hvar væri hægt að taka tekjur. Hæstv. ráðh. hefur verið bent á skattstofna, sem mundu eingöngu koma niður á eyðslu og lúxus, en hann hefur ekki viljað taka undir slíkt. Hann talaði um, að t.d. stúlkur eins og símastúlkur geti ósköp vel sætt sig við tvöfaldan tekjuskatt, með því að kjötuppbót sé felld niður. En skattskýrslurnar, sem ekki virðast þó fullkomlega réttar, sýna, að 1947 hafa 1.200 tekjuhæstu einstaklingar og félög í Reykjavík 38 milljónir kr. í nettótekjur. Það er ekkert smáræði, sem ríkustu mennirnir í Reykjavík hafa í tekjur, eftir að búið er að draga frá allan þeirra kostnað. Eignir þeirra eru ekki svo litlar, að ekki sé hægt að koma þarna á sköttum, sem lentu aðeins á þeim ríkustu í landinu. Það er upplýst og er ómótmælt, að í Reykjavík einni, sem er rúmlega 50 þúsund manna bær, eru um 208 milljónamæringar. Ég býst við, að það séu um 300 milljónamæringar í Danmörku allri, þar sem eru yfir 3 millj. íbúa. Auðmannastétt Íslands er ríkari og fjölmennari að tiltölu, en sú danska, hvað milljónamæringa snertir. En það er ekki lagt til að hækka skatta á þessum mönnum. Og hver till., sem er borin fram í þá átt að rýra þeirra gróða, er vægðarlaust felld eða svæfð, eftir því hvor aðferðin hentar ríkisstj. betur í hvert skipti.

Þá minntist hæstv. ráðh. á, að þessar stúlkur við afgreiðslu og verzlun og slíkt væru allar sæmilega launaðar, þó að tekjuskattur þeirra væri tvöfaldaður. Ef þær vildu ekki sætta sig við slíkt, þá skildist mér hann meina, þegar hann sagði, að heimilin færu á mis við þær, að þær gætu gerzt vinnukonur á heimilum auðmannanna, sem vantar vinnukonur; þar fengju þær fæði og þyrftu því sennilega ekki að hafa áhyggjur af kjötuppbótum. En ástandið er þannig hvað snertir starfsstúlkur í spítölum og hjúkrunarkonur á spítölum í Rvík og fæðingardeild Landsspítalans, að það er ekki hægt að reka þessar stofnanir forsvaranlega, vegna þess að það vantar stúlkur og þá af því, að þeim er of illa launað. Hvert er ráð ríkisstj. til þess að tryggja það, að fæðingardeildin sé notuð til fulls og hægt sé að reka spítalana? Þegar þyrfti að auka laun hjúkrunarkvenna og starfsstúlkna, hvað gerir þá stj.? Að tvöfalda á þeim tekjuskattinn og segja þeim: Svo framarlega sem þið viljið ekki sætta ykkur við það, starfsstúlkur á spítölum og á skrifstofum, þá getið þið orðið vinnukonur á heimilum auðmannanna í Reykjavík. Þetta eru rökin, sem flutt eru fram fyrir Nd. Alþ. af hæstv. fjmrh., þegar hann fer fram á 10 millj. kr. álag á þjóðina. Þetta mundi helzt hjálpa til með rekstur þjóðfélagsins.

Þá talaði ráðh. um, að við Íslendingar höfum búið það vel að launafólki á Íslandi undanfarið, að ekki gerði svo mikið til, þó að eitthvað væri minnkað við það nú. Og hæstv. ráðh. var í raun og veru að stæra sig af því, að íslenzkt verkafólk hefði haft það gott á undanförnum árum. Hverjum er það að þakka, að íslenzkt verkafólk hefur haft góða afkomu á undanförnum árum? Það er ekki Sjálfstfl. að þakka. Sjálfstfl. hefur, frá því að farið var að berjast af fullum krafti fyrir því að bæta kjör íslenzks launafólks árið 1942, alltaf staðið móti öllum slíkum tilraunum. Hann stóð að gerðardómsl. Og Sjálfstfl. hefur reynt síðan að hindra hverja einustu tilraun, sem verkafólk eða launþegar á Íslandi hafa gert til þess að bæta sin kjör. Það er þess vegna í baráttu við Sjálfstfl. og raunar fleiri flokka, sem þessar kjarabætur hafa verið knúðar í gegn, sem hæstv. ráðh. var að stæra sig af. Hins vegar skal ég viðurkenna, að eftir að Sjálfstfl. fór að starfa með Framsfl. í núverandi ríkisstj., hefur honum orðið mjög vel ágengt að rýra þessi kjör.

Það gleður mig, að hæstv. ráðh. er nú kominn. Það þýðir að vísu, að ég verð að endurtaka nokkuð, en ég verð víst að leggja það á mig. Það er þá fyrst viðvíkjandi tekjustofnunum. Í því sambandi færði ég nokkur rök að því, að til þess að fá fé í ríkiskassann væri höfuðskilyrðið að atvinnulífið gæti gengið af fullum krafti, að mönnum gefist tækifæri til að hagnýta sitt framtak og áhuga og sitt vinnuafl, þannig að menn fengju að vinna að því, sem þeir vildu starfa að í þjóðfélaginu, hvort sem það er almenn framleiðsla, byggingar eða annað slíkt. Og ég hef sýnt fram á, að ríkisstj. hefur, síðan hún tók við völdum, haft það sem höfuðstefnu sína í atvinnumálum að draga úr öllum þessum framkvæmdum, — að lama byggingarstarfsemi stórkostlega og hindra menn, sem vildu byggja eða vinna að því að byggja hús, bæði íbúðarhús og til annarrar starfsemi. Það hefur verið aðalstarf þess fjárhagsráðs, sem upphaflega átti að semja áætlun um framkvæmdir á Íslandi, að lama byggingarstarfsemina í landinu og með þeim árangri, að fjöldi manna hefur orðið atvinnulaus, sem hefði gjarna viljað vinna að slíkum framkvæmdum. Og samtímis því hafa bankarnir beitt sér til að draga úr fjárveitingum til bygginga. Þetta allt hefur stórkostlega lamað byggingarframkvæmdir. Fjöldi Íslendinga vill leggja mikið á sig nú til að byggja fyrir sig og atvinnulífið. Menn hafa viljað vinna við þessar byggingar á daginn og á kvöldin og jafnvel um helgar. Þjóðinni hefur verið þörf á þessari vinnu. Og sú eftirvinna og mikla vinna yfirleitt, sem menn hafa lagt á sig, hefur verið eitt af því, sem sérstaklega hefur staðið undir þeim tekjusköttum og útsvörum, sem bær og ríki hafa fengið í ríkum mæli á undanförnum árum. Með því nú að ríkisstj. sjálf hefur með sinni pólitík dregið stórkostlega úr og lamað alla þessa starfsemi og atvinnu, fara tekjurnar stórkostlega minnkandi. Hefur þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra: Og ég vildi í því sambandi beina hann sem fjmrh. ríkisins stjórnað þessum framkvæmdum og þessari pólitík fjárhagsráðs? Er það í samræmi við hans vilja, að svona gífurlega hefur verið dregið úr framkvæmdum einstaklinga, félaga og hins opinbera, með þeim afleiðingum, að minnkað hafa stórkostlega þær tekjur, sem hann m.a. sem fjmrh. hlaut að byggja á sína áætlun um tekjur ríkissjóðs? Ég hefði mjög gaman af að fá svör við þessu, vegna þess að eftir mínum kynnum af honum, þegar við störfuðum saman áður, var honum fullljóst, að það þurfti að hvetja menn til að vinna að framkvæmdum hér á landi. Þær opinberu nefndir, sem hafa völdin, ættu að hjálpa einstaklingum, til þess að þeir fengju að vinna sem allra mest. Og þeir einstaklingar, sem framtak sýndu til að koma einhverju fram, ættu frekar að eiga hauk í horni í opinberum nefndum heldur en að þær drægju úr. En það er nú öðru nær. Ég veit, hvernig þá hefur þurft að berjast við þá aðila; sem ráða yfir fjármagninu, til að knýja þá til að leggja fram fé til að efla atvinnustarfsemina í landinu og þar með tekjur til ríkis og bæja. Þessu hefur öllu verið umsnúið. Það ráð, sem f.h. ríkisstj. og þar með fjmrh. líka hefur stjórnað þessum málum undanfarin tvö ár, hefur dregið úr öllum .þessum framkvæmdum, — dregið úr þeim svo hrottalega, að það hefur beinlínis skapað stórkostlegt atvinnuleysi, af því að tekjurnar hafa stórkostlega minnkað, dregið úr þeim miklu meira, en hægt er að færa nokkur rök fyrir, að þörf sé á. Það hefur ekki verið sá skortur á byggingarefni, að ekki hafi verið hægt að byggja meira. Það hefði fjöldi manna byggt hér á landi, svo framarlega sem menn hefðu haft meira frjálsræði og verið hvattir til þess. En í stað þess, að fjárhagsráð reyndi að knýja bankana til þess að lána mönnum til þess að byggja, hefur það unnið að því að draga úr byggingum. Og ríkisstj. er búin í tvö ár að reka þá pólitík í landinu að draga úr allri atvinnu. Nú kvartar hún og segir, að tekjustofnarnir bregðist. Af hverju? Af því að fólkið hefur ekki atvinnu, kaupmaðurinn af því, að hann hefur ekkí viðskipti, atvinnurekandinn af því, að hann fær ekki að reka sína atvinnu, og af því að nefndir, sem stjórna þessu í umboði ríkisstj., liggja eins og farg á öllum vilja og áhuga landsmanna til þess að skapa og gera eitthvað í landinu. Þegar búið er að leggja dauða hönd á atvinnulífið, þá er ekki til neins að verða alveg hissa á, að enginn byggi. Peningarnir koma frá atvinnulífinu. Og þegar reynt hefur verið að drepa það í dróma, er ekki nema eðlilegt, að það endi svo, að ríkissjóð vanti líka fé. Sá safi, sem tréð á að sjúga upp í stofn sinn og greinar, kemst ekki nógu hátt, kemur ekki fram í greinum fjárlaganna, eins og fjmrh. hefur reiknað með. Það hefur vantað vit og vilja til að stjórna atvinnulífinu þannig, að það gefi fólkinu góða afkomu og ríkissjóði auknar tekjur. Ég skal ekki segja, að þessa eiginleika hafi skort fyrst og fremst hjá ríkisstj., heldur kannske hjá því valdi utan hennar, sem hún hefur bognað fyrir, valdi, sem við þekkjum ósköp vel báðir.

Þá talaði hæstv. ráðh. um, að við værum leiknir í því, sósíalistar, að kvarta þessa dagana fyrir hönd hinna ýmsu aðila í landinu, bifreiðastjóra, þegar benzínskattur var ræddur, og launafólks, þegar þetta frv. er á dagskrá o.s.frv. Við höfum aðeins flutt kvartanir frá aðilum, sem eru pólitískt tengdari ríkisstj. en Sósfl., frá Hreyfli, Bifreiðastjórafélaginu Þrótti, stjórn Félags sérleyfishafa og Félagi bifreiðaeigenda í landinu. Þessir aðilar kvörtuðu. En af því að þeirra bréfi var stungið undir stól í umr. í Ed., prentaði ég það í nál. og vitnaði í það í mínum ræðum. En auk þess sem ég flutti mál bifreiðastjóranna, kvartaði ég fyrir hönd almennings, af því að það upplýstist um leið frá einum flokksmanni hæstv. ráðh., að þessi álagning mundi beinlínis leiða til mjólkurhækkunar og þar af leiðandi aukinnar dýrtíðar í landinu. Hæstv. fjmrh. kvartaði um, að við hefðum ekki bent á tekjustofna. Við höfum að vísu bent á tekjustofn í sambandi við benzínskattinn, en það þýðir að skattleggja lúxusbílana, og þess vegna fengum við ekki undirtektir. Ég benti honum áðan á tekjustofn, sem hann gæti hagnýtt, ef hann kærði sig um. Það voru nokkrir tugir milljóna — og jafnvel hundruð milljóna króna —, sem fá mætti ýmist af tekjum eða eignum 200 ríkustu manna eða félaga í Reykjavík. Það hefur ekki orðið vart við mikinn áhuga hjá hæstv. ráðh. að skattleggja þá aðila. Það hafa komið fram, og það meira að segja frá einum af stjórnarflokkunum, till., sem ofur lítið hafa snert við í öðru sambandi þá aðila, sem þarna um ræðir, till. um stóríbúðarskatt. Ég sé ekki, að þær till. hafi fengið sérstaklega góðar undirtektir hjá fjmrh. Ég veit ekki betur, en að þær liggi enn þá í nefnd í Ed., ef þær hafa komizt svo langt. Það er sem sé auðséð, að það er ekki nóg að benda á tekjustofna, og það stofna, sem ákaflega auðvelt er að innheimta. Það, sem þarf í viðbót, er vilji hjá stj. til þess að hagnýta sér slíka tekjustofna. Það er auðséð, að það á ekki að hagnýta þá tekjustofna, sem eru fyrst og fremst fengnir frá auðugustu mönnunum í landinu, ekki hagnýta tekjustofna; nema því aðeins að hægt sé að leggja álögurnar á fátækasta fólkið í landinu.

Nú hef ég misst hæstv. ráðh. út úr d. og ætla því að minnast á annað á meðan. Hann talaði um, að í nokkrum af þeim bréfum, sem borizt höfðu frá innheimtumönnum utan af landi, hafi verið greint frá því, að komið hefði fyrir, að menn brostu að því að fá greiddar kjötuppbætur. Það eru vafalaust frekar efnaðri mennirnir, sem brosa að slíku. Ef manni með fimm manna fjölskyldu eru réttar þúsund krónur til þess að greiða upp í sína skatta, ætli hann geri bara gys að því? En ef mjög mikið er um það, að ráðh. fái þær upplýsingar, að efnamenn hér á Íslandi brosi að því, þegar þeim er réttur þúsundkall, þá held ég væri nú rétt. fyrir ráðh. að þyngja dálítið skattana á þessum brosandi mönnum. Þeir mundu þá líklega brosa enn meir, ef þeir fengju að borga fimmfalt eða tífalt á við það í ríkissjóð. Mennirnir, sem eiga ýmis fínustu merkin af bilum í Reykjavík, mundu sjálfsagt brosa, ef lagðar yrðu 5–10 þús. kr. á hvern bíl, ef þeir brosa svona gleitt yfir þeim hlægilega hlut að fá þúsundkall úr ríkissjóði. Mér finnst þessar upplýsingar fjmrh. benda til þess, að það megi athuga mjög alvarlega um tekjustofna, sem efnafólkið í landinu mundi viljugt standa undir, og sé því alveg óþarfi að vera að eltast við starfsstúlkur í Reykjavík, eins og sérstaklega hefur verið um rætt í sambandi við þessar skattálögur. Með því að leggja á lúxusbila og lúxusflakk, sem einn þm. kallaði það, mætti kannske ná inn svona fimm milljónum. En það er ekki víst, að ráðh. yrði eins hrifinn af þessum álögum á auðmannastéttina eins og hann virðist ákveðinn að koma byrðunum á alþýðu manna.

Enn fremur vil ég taka það fram í sambandi við þetta frv., að auðséð er, að þetta á að verða eitt atriðið í viðbót við annað hjá þessari ríkisstj. til að eyðileggja þær umbætur á högum almennings, sem gerðar voru í tíð nýsköpunarstjórnarinnar. Lögin um kjötuppbótina voru sett á hennar tíma til þess að vísu að hylja fölsun á vísitölunni, þegar kjötverð var hækkað 1945. Þessi ráðstöfun, sem ákveðin var með l. frá 29. apríl 1946 gagnvart áhrifum kjötverðs á framfærsluvísitölu, var gerð með það fyrir augum að bæta launafólki algerlega upp, hvernig kjötverðið var þá fest. Þessa uppbót á nú að taka af því að miklu og jafnvel mestu leyti. Það er ein árásin enn þá á lífskjör almennings, eitt afnám enn þá á því, sem sett var í tíð nýsköpunarstj. Við höfum undanfarið haft tækifæri til að rekast á hverja till. og framkvæmdina á fætur annarri hjá ríkisstj., sem allar ganga í þessa átt, afnám eða frestun á framkvæmdum laga um heilsuspillandi íbúðir, bindingu vísitölunnar, frestun á alþýðutryggingum, og þannig mætti lengi telja. Allt eru þetta l., sem sett voru í tíð nýsköpunarstj. og Sjálfstfl. og Alþfl. hafa hælt sér af, allt lög, sem Framsfl. og Sjálfstfl. og Alþfl. eru að eyðileggja. Á sama tíma sem þeir telja sig hina einu sönnu umbótamenn, sýna þeir sinn umbótavilja í því að rífa niður allar umbætur, sem gerðar voru, meðan við sósíalistar vorum í stjórn.

Þá talaði hæstv. ráðh. um það, að samkv. þeim upplýsingum, sem hann hefði fengið, mundi þessi sparnaður á útgjöldum ríkissjóðs nema um helmingnum af 20–21 millj. kr., sem kjötuppbæturnar kostuðu ríkið, eða 10–11 milljónum. Þær yrðu alveg beinlínis teknar af launafólkinu í landinu og ekki sízt þeim hlutanum, sem allra lélegust laun hefur, eins og starfsstúlkur hjá símanum og ef til vill fleiri.

Ég hef nú rakið að nokkru leyti, hvaða áhrif þessi löggjöf mundi hafa. Ég hef einnig sýnt fram á, að það er ríkisstj. sjálfri að kenna, að hún nú kemur og neyðist til að krefjast þessara álagna. Það er vegna þess, hvernig hún hefur leikið þjóðina, að hún fær ekki meiri tekjur með tekjuskatti, og ég hef enn fremur sýnt fram á, að hjá hæstv. ríkisstj. er enginn vilji fyrir hendi til þess að leggja álögurnar á auðmennina, heldur eru byrðarnar lagðar á almenning og það svo hastarlega, að tvöfaldaður er tekjuskattur á lægst launaða fólkinu. Ég vildi nú, áður en umr. er haldið lengra, leyfa mér að leggja fram brtt. við þetta frv. Ég hef sem minni hl. fjhn. að vísu rétt til að gefa út nál., en býst ekki við að nota mér þann rétt, og ég hef ekki viljað tefja málið með því að krefjast, að því væri vísað til n., sem þó væri full ástæða til, þar sem meiri hl. fjhn. hefur flutt frv. án þess að athuga, hvaða áhrif það mundi hafa. En ég vil freista að flytja brtt. við 4. lið 1. gr. um, að í stað tölunnar 2,5 komi 3,5, ef verða mætti, að hv. d. vildi a.m.k. hlífa nokkrum af þeim lægst launuðu við tvöföldum tekjuskatti, meðan ekki eru hækkaðir skattarnir á lúxusbílunum og lúxusíbúðunum og þvílíku. — Ég sé, að hæstv. fjmrh. er kominn í d., og vil því leyfa mér að endurtaka það, sem ég sagði áðan til andsvara við ræðu hans. Hæstv. ráðh. sagði, að starfsstúlkur hefðu sæmileg laun, og skildist mér á honum, að hann teldi þær vel þola auknar álögur. Nú er það svo, að starfsstúlkur í skrifstofum og verzlunum hafa frá 256–365 kr. í grunnlaun á mánuði, en þetta frv. þýðir, að tekjuskatturinn á þessum stúlkum tvöfaldast. Starfsstúlkur símans hafa þegar gert kröfu um 25% launahækkun og svarið, sem þær fá hjá hæstv. ríkisstj., er að tvöfalda tekjuskattinn á þeim. Í sjúkrahúsum og fæðingadeild Landsspítalans hefur ástandið verið svo, að tæplega hefur verið hægt að reka þessar stofnanir vegna þess, að þar hefur vantað starfsstúlkur. Og hvers vegna hefur vantað starfsstúlkur? Vegna þess, að þær eru svo illa launaðar, og þá á að lækna þetta vandræðaástand með því að tvöfalda tekjuskattinn á starfsstúlkunum, og svo segir hæstv. fjmrh., að ef starfsstúlkurnar vilji ekki una þessu, þá geti þær, að því er mér skildist, bara farið og ráðið sig sem vinnukonur. Hann sagði, að heimilin færu á mis við þær, og virtist gjarnan vilja, að svo yrði ekki lengur. Auðvitað má segja, að það sé nauðsynlegt að hafa viststúlkur á heimilum, en það er þó aldrei jafnþýðingarmikið fyrir þjóðfélagið og starf á spítölum og fæðingardeildinni og svo ýmis störf í þágu atvinnulífsins. Hæstv. ráðh. sagði enn fremur, að launakjörin hefðu verið svo góð undanfarið, að verkalýðnum færist ekki að kvarta, þótt þau væru eitthvað rýrð. Það er rétt, að á árunum 1942–47 voru kjör verkafólks betri, en víðast hvar eða líklega nokkurs staðar annars staðar í Evrópu. En hverjum er það að þakka, og hver var afstaða Sjálfstfl. til þess að skapa þessar kjarabætur? Sjálfstfl. var með í gerðardómnum 1942, sem verkamenn urðu að brjóta á bak aftur með harðri baráttu, til þess að fá kjör sín bætt, og hafa þeir síðan orðið að berjast hatramlega fyrir öllum þeim kjarabótum, sem skapað hafa þeim hin góðu lífskjör, en s.l. tvö ár hefur hæstv. ríkisstj. rýrt þessi lífskjör í sífellu með því að takmarka kaup almennings og lækka með lögum laun almennings og með ráðstöfunum fjárhagsráðs til þess að draga úr allri atvinnu í landinu. Ríkisstj. hefur því reynt að hrinda íslenzkri alþýðustétt úr fremsta plássi í Evrópu niður á við, og lífskjörum almennings hefur hrakað því örar sem hæstv. ríkisstj. hefur setið lengur að völdum. Þessi góðu lífskjör hafa orðið til fyrir baráttu almennings, og auðmannastéttin hefur ekki látið þau baráttulaust í té, en í tíð núv. hæstv. ríkisstj. hafa þeir getað á ný fært sig upp á skaftið og dregið stórlega úr þeim góðu lífskjörum, sem almenningur bjó við, en þá má ekki hæstv. fjmrh. undrast það, að alþýðan berjist á móti kjaraskerðingunni á sama tíma og ekkert, sem munar, er skertur stórauður ríkustu einstaklinga og félaga. Það er upplýst, að 200 ríkustu félög og einstaklingar í Rvík eiga skv. mati ríkisstj. sjálfrar 500–600 millj. kr. í skuldlausum eignum. Þetta er gífurlegur auður á svo fáum höndum, og meðan engum till. er sinnt um að leggja álögurnar á þennan mikla auð, þá er ekki von, að alþýðan sætti sig við þær álögur, sem stöðugt eru á hana lagðar, m.a. með þessu frv., þegar kippt er burt allmikilli uppbót, sem hún hefur áður fengið, og þýðir þetta raunar tvöfaldan tekjuskatt fyrir þá lægst launuðu.

Ég vil nú biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir brtt. minni við 4. lið 1. gr., áður en umr. er lengra haldið.