11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1792 í B-deild Alþingistíðinda. (2771)

208. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Sigurður Gunnarsson:

Herra forseti. Mig greindi áðan á við hæstv. fjmrh., þegar hann las tölurnar um, hvað kjötuppbótin færi langt niður. En þegar ég fór að athuga þetta betur, sá ég, að ég hafði reiknað með hinni svokölluðu hungurvísitölu, 300, en viðvíkjandi persónufrádrætti er hún víst 315 stig, þannig að þá ber okkur hæstv. fjmrh. betur saman, og það er víst 7.100 kr., sem tekjurnar mega vera. En það, sem fyrst og fremst hvatti mig til að standa upp, var það, að hæstv. fjmrh. sagði, að hann teldi, eins og raunar oft hefur verið gefið í skyn áður, að verkamenn hér gætu sætt sig við þetta, því að afkoman væri víða verri, en hér. Það getur nú verið satt, að afkoman sé viða verri, og ber ég ekki á móti því, en það er ákaflega langt sótt og a.m.k. algerlega rangt hjá hverri stjórn, hver sem er, að sætta sig við það, sem er ómögulegt og miðar að hrakandi lífskjörum, á þeim forsendum, að víða annars staðar sé verra. Ef slíkur hugsunarháttur kemst inn hjá einhverri þjóð, þá er hún á beinni leið til glötunar. Og það er alveg fráleitt hjá hverri ríkisstj. að láta hjá líða að leita þjóðinni betri kjara, af því að viða sé verra, því að það er hlutverk hverrar ríkisstj. að vinna að því, að öllum þegnunum geti liðið sem allra bezt. Varðandi þetta fólk, sem lægst er launað og hefur svona rúmlega ellilaun, eða. 7.000 kr. og hjón 14.000 kr., þá er það mjög tilfinnanlegt að missa þessa peninga, en það, sem verra er, margt af þessu fólki hefur gert ráð fyrir, að það væri að leggja fyrir í hvert skipti, sem það keypti kjöt, legði fyrir smáupphæð til þess að hjálpa því síðar til að greiða það, sem það á oft erfitt með, skattana. — Önnur hlið er einnig á þessu máli, og er hún harla einkennileg á þessum tíma. Á hallærisárunum upp úr 1930 var ekki hægt að taka af kaupi verkamanna upp í skatta og ekki heldur með lögtaki nema þeir ættu þetta og þetta mikið innbú, og vinnulaun mátti ekki af þeim taka svo, að heimili þeirra hefðu ekki í sig og á, en ef nú á þessari blómaöld skattarnir eru ekki borgaðir, þá er hægt að taka allt kaupið af verkamönnum og það án tillits til þess, hvort viðkomandi á brauð handa börnum sínum eða ekki. Ég hef sjálfur verið vitni að því, að allt kaupið hefur þannig verið tekið og verkamaðurinn hefur staðið eftir með umslagið eitt og kvittunina á útborgunardaginn, en verkamenn geta ekkert við þessu sagt. Þetta kemur oft fyrir á þessum ágætu tímum, sem mest er gumað af, þegar sagt er, að verkamenn lifi í vellystingum praktuglega og eyði sumarfríi sínu í fyllirí. (Fjmrh.: Ekki voru það mín orð.) Það er rétt, hæstv. fjmrh. sagði þetta ekki, en þetta hefur komið fram hér í hv. d., og þetta, sem ég hef nú lýst, er öll sælan, sem verkamenn búa við. Ég viðurkenni, að kjör verkamanna hafa mikið batnað á undanförnum árum, en samtímis hefur misskipting auðsins einnig stórvaxið, og eitt höfum við fengið nú, sem ekki var til fyrir stríð og erfitt mun að afmá, en það eru sérstök fátækrahverfi, og hræddur er ég um, að ef haldið verður áfram eins og s.l. ár, þegar þó hefur ekki verið hreyft kauphækkunum, — t.d. hefur Dagsbrún ekki hreyft kauphækkunum s.l. 16 mánuði, — að ef heldur áfram að hraka afkomu verkamanna eins og s.l. 16 mánuði, þá muni þess ekki langt að bíða, að sá rammi, sem fátækrahverfin setja íbúum sínum, svari fullkomlega til þeirrar örbirgðar, sem þar inni fyrir verður, því að aldrei hefur á jafnskömmum tíma þrengt eins að almenningi og s.l. 16 mánuði, og ef enn heldur áfram á sömu braut, þá mun ekki lengi verða haldið fram með réttu, að Íslendingar búi við betri kjör almennt, en þegnar annarra landa.