13.05.1949
Efri deild: 107. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (2838)

141. mál, iðnfræðsla

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur svo oft verið til umr. hér í deildinni, að ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það. Sömuleiðis þarf ég ekki að fjölyrða meira um 2. brtt. á þskj. 602, frá 1. þm. N–M., sem gengur út á að opna stéttina fyrir óiðnlærðum mönnum. Þessi brtt. hefur áður verið til umr., og færði ég þá fram rök gegn henni. Svo eru hér nýjar brtt. á þskj. 617 og þskj. 624. Báðar fjalla þær um 22. gr. frv., en hún kveður á um, hvernig fara skuli að, er verkfall verður í þeirri iðngrein, sem iðnnemi stundar nám í. Þetta hefur lengi verið viðkvæmt deiluatriði og skiptar skoðanir um það. Iðnnemar eru við sína vinnu í námi hjá sveinum, og sveinar eru svo aftur ráðnir með kollektívum samningum hjá meisturum. Þessir samningar milli sveina og meistara hafa takmarkað gildi, og þegar þeim er sagt upp, þá nær það yfir alla stéttina. Iðnnemar eru aftur á móti ráðnir með einstaklegum samningum og geta því ekki gert sameiginlegt verkfall. Iðnnemi er ráðinn yfir allt tímabilið, en þó skylt að vinna með sveinum, sem geta yfirgefið vinnu sína. Ég minnist þess, að fyrir um það bil 10 árum voru margir þeirrar skoðunar, að taka ætti iðnnema inn í sveinasamtökin, til þess að það tæki yfir báða þessa flokka, ef til vinnustöðvunar kæmi, en til þess að koma í veg fyrir það, varð Alþingi að setja lög, sem bönnuðu, að iðnnemar væru í sveinafélagi.

Í nefnd þá, sem athugaði þetta mál og samdi frv., voru kvaddir kunnáttumenn á þessu sviði. Þeim kom saman um, að bezt mundi vera að fara bil beggja, eins og gert er í 22. gr., þannig að ef verkfall verður, þá skuli iðnnemar ekki látnir vinna að framleiðslustörfum, heldur skuli þeir aðeins látnir gera við vélar undir stjórn meistara. Ef gr. er hins vegar tekin út, eins og gert er ráð fyrir á þskj. 624, þá stendur allt við það sama, ef til verkfalls kemur, og get ég því ekki lagt til, að sú brtt. verði samþykkt. Á þskj. 617, brtt. frá hv. þm; N-M. er einnig lagt til, að 3. málsgr. 22. gr. falli niður. Enn fremur fjallar a-liður þessarar brtt. um það, að á meðan nemandi sé frá vinnu vegna vinnustöðvunar, beri honum ekki kaup. Þetta ætti ekki að þurfa að taka fram, því að ef nemarnir vinna, þótt vinnustöðvun sé, kemur auðvitað ekki til greina að svipta þá kaupi. — 2. málsgr. brtt. eða b-liður fjallar um það, að ef vinnudeilan stendur lengi, þá geti hvor aðili sem er sagt upp samningi. Þetta finnst mér mjög hæpið. Segjum t.d., að meistari hafi tekið nema til starfs, sem hann á erfitt með að ljúka við kennslu á. Hann getur þá notað tækifærið til þess að segja upp samningi við nemann, þótt hann sé kannske á öðru eða þriðja ári sem nemi, og neminn getur átt á hættu að komast ekki aftur í þetta starf og orðið þannig fyrir stórkostlegu tjóni. Mér finnst neminn ekki hafa unnið neitt refsivert og er því mótfallinn þessari brtt.

Fleira hef ég svo ekki um þetta að segja, en ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði samþ. eins og það nú liggur fyrir.