13.05.1949
Efri deild: 107. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (2841)

141. mál, iðnfræðsla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki tækifæri til að vera við 2. umr. í d. síðast sökum anna við fjárl. og vissi ekki þá, hvað hafði komið fram í þessum málum. Var ég á fundi með hæstv. ríkisstj. Það þarf annars ekki að ræða svo mjög um frv. Við höfum haft þetta mál til meðferðar í mörg ár. Tvö eru þau atriði, sem deilt hefur verið um: 22. gr. og nýja gr., sem er á þskj. 602. Út af þessum ágreiningi hefur málið stöðvazt alltaf. Þegar málið var síðast til meðferðar í n. og d., féllst ég á að fylgja málinu, þótt umbætur fengjust ekki á frv., og tjáði bæði n. og hæstv. ráðh., að ég fylgdi frv. þrátt fyrir þessa ágalla og mundi standa á móti öðrum brtt., sem kæmu fram við umr. Hins vegar var mér þá ekki tvennt ljóst: fyrsta lagi; að útbýtt yrði frv. um iðnskóla, þar sem á að taka upp verklega kennslu. Það verður þó eigi afgr. á þessu þ. Í öðru lagi var mér þá ekki ljóst það, sem mér hefur verið tjáð, að meiri hl. iðnaðarmanna sé á móti frv. Hefur komið til mín n. iðnaðarmanna, sem segist vera fulltrúar meiri hl. þeirra, og mótmælir fyrir hönd stéttarinnar. Ég hef eigi getað sannprófað þetta, en hef þó talað við nokkra aðra iðnaðarmenn. Ég hef samt eigi fengið svo mikla fullvissu í þessu efni, að ég vilji láta það hafa áhrif á það, sem ég hef sagt, og mun greiða atkv. með frv. Hæstv. ráðh., sem mun fá þetta til meðferðar, fær þá þann vanda að glíma við að komast yfir þá örðugleika, sem l. kunna að skapa, ef stéttin verður óánægð með þau og lokar þá fyrir alla iðnfræðslu, og jafna það við hana. Ég vil líka leyfa mér að taka það fram, svo að það fari ekki á milli mála, að þegar ég tjáði hæstv. ráðh. afstöðu mína, sagðist ég enn vera þeirrar skoðunar, að inn í l. kæmi brtt. á þskj. 602, tölul. 2, og ég mundi bera fram slíka brtt. næst. Þó er það eigi víst, að ég verði þá á þ. eða hæstv. ráðh. heldur. Vildi ég því láta þetta koma fram. Mér er ljóst, að í frv., sem hefur dagað uppi vegna þessa ákvæðis, var bætt þessu ákvæði. Meiri hl. er fyrir því í þ., svo að þeir menn, er vilja eigi hafa þetta ákvæði í l., geta ekki spyrnt fæti fyrir frv. Ég er ekki bundinn við að fylgja því máli á næsta þ. og hef óbundnar hendur um að taka afstöðu til 22. gr., sem mun skapa óánægju hjá iðnaðarmönnum. En ég mun, eins og ég hef tjáð hæstv. ráðh., fylgja frv. þrátt fyrir þá ágalla, sem á því eru. Hitt verð ég að segja, að mér eru það mikil vonbrigði að vita hæstv. ráðh. hafa varið þessa stétt í mörg ár, en hefur beitt sér gegn réttindum annarrar stéttar, því að eigi að gera strandhögg í sama mæli á þessa stétt, þá er ég hræddur um, að kurr risi í stéttinni, þar sem talað er um að veita á annað hundrað mönnum réttindi í stétt, þeim er hafa eigi lögbundið nám að baki sér eða próf. Og ég býst við, að hæstv. ráðh. viti eigi um þá erfiðleika, er frá því eiga eftir að stafa. — Ég greiði því m.ö.o. atkv. með frv. og móti öllum brtt.