21.10.1948
Sameinað þing: 6. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (2889)

Marshallaðstoðin

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. hefur nú skýrt Alþ. frá þeim samtökum um viðreisn Evrópu, sem 16 þjóðir hafa ákveðið að taka þátt í og Ísland hefur gerzt aðili að. Einnig hefur hæstv. ríkisstj. látið þm. heyra drög að framkvæmdaáætlun fyrir næstu fjögur ár. Virðist manni fljótt á litið, að þar séu teknar til athugunar þarfir allra helztu atvinnuvega landsins, og er vel, að hæstv. ríkisstj. hefur gert grein fyrir þessu, þótt enn sé þörf ýmissa skýringa þar að lútandi. — Þetta er nú ekki í fyrsta skipti, sem um það er rætt á Alþ. að gera áætlanir um atvinnuframkvæmdir fyrir nokkurt tímabil. Haustið 1944 voru sett lög um nýbyggingarráð, sem átti að hafa það aðalverkefni að gera heildaráætlun um uppbyggingu atvinnulífsins á næstu 5 árum. Eftir að lögin höfðu verið samþ., var tekið til óspilltra málanna af hinu nýja ráði — ekki fyrst og fremst við að semja áætlunina, heldur við að eyða þeim peningum, sem landmenn áttu erlendis. Og þegar ráðið hætti störfum, var hver eyrir uppétinn, en engin heildaráætlun sjáanleg. Að vísu fór ekki allt þetta fé — en því miður allt of mikið — til óþarfra hluta og framkvæmda, sem hefðu átt að sitja á hakanum. Það munu hafa verið fullar 500 millj. kr., sem Íslendingar áttu erlendis, þegar lögin um nýbyggingarráð voru sett árið 1944. Ákveðið var, að þar af færu 300 millj. til nýrra atvinnuframkvæmda. Þá kom tillaga frá fulltrúum Framsfl. í fjhn. í báðum deildum Alþ. um það, að í stað 300 millj. skyldi leggja til hliðar 450 millj. í þessu skyni. En þeir, sem stóðu að fyrrv. ríkisstj., hindruðu það. Þeir bera því sameiginlega ábyrgð á því, að þær 150 millj., sem ágreiningur var um, eyddust á annan veg. Mér skildist á ræðu hv. 2. þm. Reykv. í gær, að hann teldi erlendar lántökur vafasamar og varasamar, og er ég þar sammála. Og ég býst nú við, að hv. þm. sjái nú, hve mikil mistök það voru, sem hann og hans flokkur bera ábyrgð á að ekki voru lagðar til hliðar meira en 300 millj. af fullum 500 millj., sem inneign okkar var 1944. Sá hv. þm. og flokkur hans er að vísu ekki einn undir þá sök seldur, hún er sameiginleg sök þeirra, sem studdu stj. Það voru valdamenn í landinu, sem vildu heldur, að 150 millj. færu til að auka eyðslu og óhóf, því að þeir töldu sig græða meir á því, en ef þeim væri beint inn í atvinnulífið. Eftir þeirri áætlun, sem hæstv. viðskmrh. las upp, er gert ráð fyrir því, að þær framkvæmdir, sem þar er reiknað með á næstu 4 árum, muni kosta um 360 millj. í erlendum gjaldeyri, en samtals um 540 millj. kr. Það er því svo, að þessar 150 millj. kr., sem feykt var út í veður og vind, eru full 40% þess, sem gert er ráð fyrir, að þurfi í erlendum gjaldeyri til að framkvæma þessa áætlun. Við værum því ólíku betur staddir, ef við hefðum þessa fúlgu nú í erlendum gjaldeyri. Þá hefði aðeins vantað röskar 200 milljónir í erlendum gjaldeyri til þess að koma áætluninni í framkvæmd í stað 360 millj., sem ekki er neitt útlit fyrir, að við munum taka í útflutningsverðmæti á næstu 4 árum, svo að áætlunin virðist ekki framkvæmanleg án nýrrar lántöku. Nú stoðar ekki að sakast um orðinn hlut, nú verðum við að líta á ástandið eins og það er. Það er þörf nýrra framkvæmda, en okkur skortir erlendan gjaldeyri, til þess að greiða með framkvæmdirnar. Það kemur þá til athugunar, hvernig ráða eigi fram úr þessum vandkvæðum. Ef ekki er tekið lán, verður þjóðin að bíða eftir framkvæmdunum.

Í l. um fjárhagsráð, frá 1947, er ákveðið, að taka skuli undan 15 af hundraði af verðmæti útflutningsins til nýrra framkvæmda. Það væri æskilegt, að stj. upplýsti, hvernig þessu hefur verið varið 1947, og það, sem af er árinu 1948. Stj. hefur ef til vill ekki tök á því að gefa upplýsingar um þetta í þessum umr., en ég vænti þess, að þingið fái fljótlega upplýsingar um þetta. Það skiptir miklu í sambandi við þetta mál, að upplýst sé, hvað þjóðin getur varið miklu af tekjum sínum til nýrra framkvæmda.

Það er margt í áætlun stj., sem ástæða er til að fá nánari upplýsingar um. Ég hef nýlega borið fram fyrirspurn varðandi vélaþörf landbúnaðarins, sem leyfð var í dag og kemur því væntanlega eftir nokkra daga á dagskrá. Ég fresta því að ræða það atriði. Þá væri æskilegt að fá nánari skýringar varðandi fyrirhugaðar raforkuframkvæmdir. Hæstv. viðskmrh. gat um stækkun Sogsvirkjunarinnar og nýtt orkuver við Laxá, en meiri framkvæmdir virðast fyrirhugaðar.

Það væri æskilegt að fá nánari skýringar á áætlun stj. eða óskalista yfirleitt. Það er gott, að gerð séu drög að slíkri áætlun, en margt þarf vel að athuga, t. d. hvað er æskilegt og mögulegt með tilliti til vinnuaflsins, svo að það dragist ekki frá aðalatvinnuvegunum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég geri ekki ráð fyrir því, að stj. skýri þetta frekar nú, en vænti þess, að stj. gefi nánari skýringar á málinu áður en langt um líður.