26.10.1948
Sameinað þing: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (2898)

Marshallaðstoðin

Gísli Jónsson:

Hæstv. forseti. Því hefur verið lýst yfir úr forsetastóli, að ræðutími sé takmarkaður við 10 mínútur, og verður svo að vera, þótt skammur tími sé, þegar til umræðu er þetta stóra mál. Mér virðist lítið hafa borið á því í umræðum hér, að málið á ekki eingöngu að ræðast frá því sjónarmiði, hvort það sé til blessunar eða ógæfu fyrir Ísland. Það ber einnig að ræða sem lið í því þýðingarmikla starfi að tryggja friðinn í álfunni. Það er að því leyti í beinu framhaldi af því, sem samið var um, er samningurinn var gerður um Keflavíkurflugvöllinn. Og fyrrv. forsrh., Ólafur Thors, hélt þá þannig á þessum málum, að enginn er sá hér, sem er ekki haldinn pólitísku ofstæki, sem ekki viðurkennir, að þar hafi verið rétt stefnt. Nú hefur þessi hluti Alþfl. séð að sér, en í Framsfl. er enn tvískinnungur um það, hvort flokkurinn eigi að taka þátt í því að byggja upp friðinn í Evrópu, ef dæma á eftir ræðu hv. þm. V-Húnv. Það er ljóst, að ef íslenzka þjóðin er ekki sammála um það að nota þetta okkur og friðnum til blessunar, þá verður minna úr en ella, og hv. þm. V-Húnv. hefur gefið tilefni til, að menn ætli, að hann vilji ekki af einlægni vinna að þessu.

Hv. þm. V-Húnv. sagði, að ekki mundi vera þörf á hjálp, ef till. framsóknarmanna frá 1945 um, að 450 millj. kr. væru lagðar til hliðar, hefði ekki verið felld. Eftir að hafa hlustað á hv. þm. segja þetta tvisvar, get ég ekki séð annað en að það vaki fyrir hv. þm., að Íslendingar hafi einir hag af þessu, og að hann loki augunum fyrir þeirri grundvallarhugsun, sem hér er um að ræða.

En er það þá rétt, að Íslendingar hefðu ekki þurft á þessu að halda, ef 450 millj. kr. hefðu. verið lagðar til hliðar 1945? Fyrst er nú þess að geta, að þetta var yfirboð, gert til þess að sprengja ákveðið samkomulag, og ef átt hefði að fara með þessar 450 millj. kr. eins og framsóknarmenn vildu, að farið yrði með 300 millj., hvað hefði þá orðið? Framsfl. gerði allt, sem hann gat, til þess að hindra, að þær yrðu notaðar til uppbyggingar. Hefur hv. þm. gleymt því., sem hann sagði um togarana og víðfrægt er orðið? Hann sagði: „Fyrst kom spýta, svo kom spýta, svo kom spýta í kross, svo kom spýta upp, svo kom spýta niður og svo fór allt í gang“, en hv. þm. sagði, að togararnir mundu aldrei fara af stað. Hefur hv. þm. gleymt því, að form. Framsfl. sagði, að togararnir væru. keyptir fyrir helmingi hærra verð, en ástæða væri til, og hélt því fram, að ég hefði sagt það á leynilegum fundi? Hefur hv. þm gleymt þeirri andúð, sem Tíminn alla tíð sýndi nýsköpuninni, og hefur hann gleymt því að staðreyndir hafa sannað, að allt var ósatt, sem framsóknarmenn sögðu í þeim efnum, sprottið af fjandskap til þessa atvinnuvegar og fyrrv. ríkisstj.? Ef þessir „krossspýtutogarar“, sem hv. þm. ekki vildi, hefðu ekki komið, hvernig væri þá ástandið í gjaldeyrismálunum?

Reynslan sannaði, að allt, sem Framsfl. sagði um þessi mál, var fjarstæða. Hver einasta ferð togaranna sýndi, að þeir höfðu rangt, og auglýsti betur, en nokkuð annað, stórhug og þrótt íslenzku þjóðarinnar. Þegar skipin settu afla-met og sölumet samtímis því, sem það kom í enskum blöðum, að miðin væru fiskilaus, og einn togari setti sölumet, sem kunnugt varð um alla Evrópu, þá fyrst opnuðust augu Framsfl. fyrir því, að þeim yrði ekki stætt á því að halda við fyrri skoðanir á þessum málum, og þá gengu þeir inn á það að byggja 10 skip til viðbótar. Eftir að hafa sagt, að verðið á nýsköpunartogurunum væri um helming of hátt, láta framsóknarmenn nú fulltrúa sinn skrifa undir að kaupa skip fyrir ¼ millj. kr. meira hvert skip, en 1945. Þeir ættu að viðurkenna, að allt, sem þeir sögðu 1945, var fleipur eitt, og það er furðulegt, að hv. þm. V-Húnv. skuli ætla að reyna að telja Alþingi trú um það, að það sé vegna aðgerða stj. 1945, að við þurfum á þessari hjálp að halda.

Það er full ástæða til þess að minna á í þessu sambandi, hvað Framsfl. hefur aðhafzt í öðrum málum. Hvað skyldi vera hægt að kaupa margar sláttuvélar fyrir þær 700 þús. kr., er töpuðust á hraðbátunum, sem aðalpostuli Framsfl. keypti? Hvað á að segja um þá tvo strandferðabáta, sem þeir keyptu, og ekki er hægt að losa eða lesta nema í innilokaðri höfn? Þeir hafa líka keypt farþegaskip, sem þurft hefur að styrkja, svo að það geti gengið við ströndina, og um borð er ekki hægt að lesa í bók, þegar skipið er í gangi. Á sama tíma sem þeir trúa ekki sjálfstæðismönnum til þess að gera ný kaup, senda þeir þennan postula sinn til að gera nýja samninga um nýtt skip. Hvað ætli að hægt væri að kaupa margar sláttuvélar fyrir það fé, sem tapazt hefur á öllu þessu, að ógleymdri Súðinni og fleiru?

Ég held, að framsóknarmenn hafi annað þarfara að gera en að segja ósatt um stj. 1945 –46. Sambandið hefði ekki einu sinni getað keypt þá mörgu bíla, sem það hefur fengið í sinn hlut, ef þá hefðu ekki verið stigin þau heillaspor, sem raun ber vitni um. Mörg óþarfaeyðsla hefði þá ekki verið framkvæmd, t. d. í skólamálunum.