28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2055 í B-deild Alþingistíðinda. (2905)

Marshallaðstoðin

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Hæstv. atvmrh. kallaði umframvörur þessi 8–9 þús. tonn — það voru víst 8 þús. — af freðfiski, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú selt til meginlandsins fyrir milligöngu Bandaríkjanna. Það eru skrýtnar skoðanir, ef þetta á að kallast umframvörur. Hitt er annað mál, að hæstv. ríkisstj. er að gefast upp á því að afla markaða með eðlilegum hætti fyrir framleiðslu okkar. Það er vafalaust gott að fá dollara, og þessi sala bendir til þess, að Bandaríkin geri sér ljóst, að þau þurfi að kaupa vöruna á fullu verði. En ef Marshallaðstoðin á að vera einhver framtíðargrundvöllur til að byggja á, þá verður það ekki með þessu móti, því að við erum til dæmis búnir nú með þessari sölu að eyða helmingnum af aðstoðinni í ár til þess að greiða fyrir eðlilegri framleiðslu okkar, sem við hefðum átt að geta selt með venjulegum hætti á frjálsum mörkuðum. Þetta er því það, sem kallað er að pissa í skó sinn.

Um viðskiptamál okkar er annars það að segja, að stjórnin á sök á því, hvernig viðskipti okkar við Austur-Evrópu, og þá fyrst og fremst Rússland, hafa dregizt saman. Orsökin til þess kom greinilega fram í ræðu hv. 1. þm. Reykv., og það er mergur málsins, að lögð hefur verið einhliða áherzla á það að fá Rússa til að kaupa af okkur vörur, án þess að við legðum okkur fram til þess að athuga, hvað við gætum keypt af þeim í staðinn. Á árinu 1946, þegar afurðasalan var mest til Rússlands, keyptum við þaðan allmikið og fengum mismuninn greiddan í dollurum. Sá mismunur varð síðar enn meiri, og þess hefur ekki verið gætt, að þessi þjóð hefur jafnmikla þörf og við til að selja vörur sínar. Það hefði þurft að koma fram við hverja samninga, að við vildum eitthvað kaupa af þeim á móti því, sem við leituðumst við að selja. — Það er vitanlega móðgandi að hafa engan sendiherra í stórum viðskiptalöndum eins og Rússlandi, en aðalatriðið er þetta, að af því að við höfum þar engan sendiherra, þá er þar engin starfsemi í gangi til þess m. a. að afla þeirra vara, sem við gætum þaðan keypt. Höfuðsyndin er þannig sú, að að ekki hefur verið lögð áherzla á það að koma því til leiðar, að viðskiptin yrðu gagnkvæm.

Ég vildi nú fara nokkrum orðum um ræðu hv. 4. þm. Reykv., sem átti að fjalla um Marshalláætlunina, en snerist raunar aðallega um hans eigið Marshallplan. Hv. þm. var ákaflega undrandi og hneykslaður yfir þeirri staðhæfingu, í ræðu hv. þm. Barð., að Marshallsamningur hæstv. ríkisstj. væri ekkert annað en eðlilegt framhald af Keflavíkursamningnum. Hann leitaðist þó ekki við að færa önnur rök fyrir máli sínu og hneykslun heldur en þau, að ýmis önnur lönd, sem hefðu gert Marshallsamninga, hefðu ekki látið af höndum herstöðvar. — Hv. þm. hlýtur þó að vita, að nú er gengið í skrokk á hverju ríkinu af öðru um herstöðvar, eins og t. d. Dönum um herstöðvar á Grænlandi, og róið að því öllum árum að fá Norðurlöndin t. d. til þess að ganga í Vesturblökk, og það strandar nú á Svíþjóð, því að Danmörk og Noregur eru reiðubúin. Hv. þm. hlýtur að vita, að Marshalláætlunin er órjúfanlega tengd hernaðarfyrirætlunum Bandaríkjanna og að þau sækjast eftir hernaðarlegri aðstöðu í þátttökulöndunum. Hv. 4. þm. Reykv. hefur þannig snúizt í lið með þeim mönnum, sem vilja veita þeim slíka aðstöðu hér á landi. Og í samræmi við þá breyttu afstöðu sína syngur hann Marshallplaninu lof og dýrð. Eitt atriði í ræðu hv. 4. þm. Reykv. er þess vert að minnast á. Hann taldi að clearingviðskipti við Austur-Evrópu þýddu sama og gengislækkun. Þá lýsti hann yfir því, að hann væri á móti gengislækkun. Og enn kvað hann sig svo vera fylgjandi viðskiptum við Austur-Evrópu. Hv. þm. fór þannig algerlega í kringum sjálfan sig í staðhæfingum sínum, og fer það að vonum. Staðreyndirnar eru þær, að við getum alls ekki byggt okkar atvinnulíf á því að selja okkar vörur eingöngu, fyrir pund og dollara. Ef við ættum að skapa varanlega og gróðavænlega markaði fyrir útflutningsvörur okkar, þá verðum við að beina viðskiptum okkar til þeirra landa, sem hafa brúk fyrir okkar vörur. Það var helzt að skilja á hv. 1. þm. Reykv., að Rússar ætu alls ekki fisk. Hann veit sjálfsagt ekki, að þeir framleiða talsvert af saltfiski, þó að sú framleiðsla fullnægi ekki nándar nærri þörf þeirra og þeir kaupi því saltfisk í stórum stíl frá öðrum löndum. Freðfisk hafa þeir svo keypt af okkur í 2 ár, og loks hafa þeir svo fyllilega brúk fyrir síldarolíu og síld. Það er því vonlaust, að ætla sér að sanna, að þar sé engra markaða að leita fyrir okkar vörur.

Hæstv. ríkisstj. ætlar Marshallhjálpinni að leysa augnabliksvandamál, sem skapazt hafa fyrir ranga stefnu í markaðsmálunum; og henni liggur það í léttu rúmi, þótt hún kippi undan okkur eðlilegum markaðsgrundvelli og við komum til með að eiga það undir náð, hvort við getum selt okkar vörur. Með Marshallsamningnum er stórt skref stigið á þeirri braut að gera okkur ófæra um að standa á eigin fótum fjárhagslega.