03.12.1948
Sameinað þing: 24. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2078 í B-deild Alþingistíðinda. (2934)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er kannske ekki óeðlilegt, fyrst sú nefnd, sem lögum samkvæmt á að fjalla um utanríkismál, fær ekki að setjast á laggirnar og starfa samkvæmt lögum, að utanríkismálin beri á góma hér á hæstv. Alþ. — Ég stóð hins vegar upp nú til þess að leiðrétta það, sem hæstv. forsrh. sagði í sinni ræðu viðvíkjandi afstöðu Sósfl. Það er að vísu ein af mörgum ósönnum fullyrðingum, sem hvað eftir annað er borið fram og við sósíalistar hrekjum aftur og aftur, sem sagt er um okkar afstöðu til skilyrða fyrir inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar, það ríkjasamband, sem kallað er því nafni. Við sósíalistar lýstum því yfir, að Þýzkaland eða þýzka stjórnin hefði brotið hlutleysisreglur á okkur og hefði farið með ófrið á hendur Íslendingum. Það hefur aldrei komið fram till. frá okkur um það, að við Íslendingar færum í stríð, heldur hitt, að við höfum haldið fram, að Þýzkaland ætti í stríði við okkur, vegna þess, að stjórn þess hefði brotið okkar hlutleysi. Annars er hægt að rifja þetta upp aftur, og við skulum gjarna gera það. — Hins vegar þætti mér gaman, út frá þeirri fullyrðingu, sem hæstv. forsrh. hefur gefið, að spyrja hann, hvort hlutleysisyfirlýsing Íslands um ævarandi hlutleysi frá 1. des. 1918 sé í gildi enn. (Forsrh.: Samband ríkjanna hefur verið fellt úr gildi.) Þetta er mál, sem vert er að ræða, hvort sú hlutleysisyfirlýsing sé í gildi eða ekki. — Og viðvíkjandi því, hvort við Íslendingar séum hlutlausir gagnvart hinum og þessum stefnum, sem uppi vaða í heiminum, er annað spursmál heldur en það, hvort íslenzka ríkið sé hlutlaust að því er snertir stríð, þar sem notuð eru vopn. Íslendingar geta hver fyrir sig gjarna tekið afstöðu í þessum efnum á þann hátt, sem þeim þóknast. Og menn geta í þessu tilliti skipzt í flokka eftir vild. En ég vek eftirtekt hæstv. forsrh. á því, ef hann er að óska eftir, að Íslendingar sem þjóð taki afstöðu gagnvart yfirgangsstefnum, og vil minna hann á það, að það er aðeins eitt ríki í heiminum, sem sýnt hefur Íslandi yfirgang nú, síðan við urðum lýðveldi. Það er það ríki, sem reyndi í krafti herafla, sem það hafði hér á landi, — eftir að hafa haft í frammi samningsrof og lögbrot gagnvart íslenzka ríkinu — að þvinga okkur eða ætlaði að þvinga okkur til að láta af hendi til 99 ára fríðindi í sambandi við afnot af okkar landi. Þetta er eina þvingunin, sem við höfum átt við að búa, eftir að lýðveldið var stofnað hér á landi. — Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. átti í ræðu sinni við þessa yfirgangsstefnu. En það var ekki mín tilætlun með minni hóflegu aths. um, að utanrmn. tæki til starfa, að fara að tala hér um utanríkispólitík. En ég hefði kunnað betur við, að hæstv. forseti og hæstv. ráðh. hefðu tekið slíkri áminningu vel, því að ekki er hægt að segja, að það sé allt of of mikið starf unnið af Alþ., það sem af er þessu þingi, þó að starfi þessarar n. væri komið af stað.