09.02.1949
Neðri deild: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (3023)

120. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins nokkur atriði, sem mér finnst ástæða til að taka fram, áður en málið fer til n., og sumpart út af grg. frv. Eins og réttilega er minnt á í grg. frv., voru gerðar margháttaðar breyt. á fræðslulöggjöfinni og meðal annars þær, að menntaskólar, sem hafa verið 6 ára skólar, skuli vera 4 ára skólar. Í grg. stendur, að fyrir þessari breyt. séu ekki færð nokkur frambærileg rök. Ég ætla ekki að fara út í grg. frekar, en þetta er þungur dómur, því að út í þessar breyt. var ekki farið fyrr, en eftir talsverða athugun. Milliþn. var falið að endurskoða gildandi fræðslul., og ég man ekki eftir, að verulegur ágreiningur kæmi upp í sambandi við setningu fræðslulöggjafarinnar, þó munu einhverjir hafa talið þetta varhugavert, en meginþorri og verulegur meginþorri þingsins var á því að gera þes5a breyt. Ástæðurnar, sem ráku á eftir mönnum um það að gera þessa breyt., voru m.a., að reynslan sýndi, að ekki nema lítill hluti þeirra nemenda, sem vildu ganga í menntaskóla, gátu fengið gagnfræðamenntun í menntaskólunum sjálfum, og þess vegna varð í sambandi við það að ákveða, hverjir af þeim skyldu fá að fara í menntaskólana, með því að láta þá þreyta samkeppnispróf inn í menntaskólana, og voru margir mjög óánægðir með þá tilhögun, og var einn þáttur í því, að þessu var breytt og horfið að því ráði að láta alla fá sína menntun í gagnfræðaskólum, en gera menntaskólana að 4 ára skólum, sem sé erfiðleikarnir á því að greina á milli, ef lítið brot átti að fara í menntaskóla; en meginþorri nemenda í sérstaka gagnfræðaskóla. Menn voru því yfirleitt ásáttir um að draga línurnar hreint og láta gagnfræðanám verða sérstakt. Ég vildi aðeins minna á þetta, að þessi skipan hefur nýlega verið gerð, einmitt af því að menn töldu hana vera réttari. Það er rétt í þessu sambandi að minna á ástandið í menntaskólanum hér í Reykjavík, sem óþarfi er að hafa mörg orð um og allir töldu óheppilegt, að velja litinn hóp manna til þess að stunda gagnfræðanám í menntaskóla.

Nú er þessi breyt. komin á, eins og l. gera ráð fyrir, hér í menntaskólanum, og rak þar mjög á eftir þau þrengsli, sem í skólanum eru, og er alveg vandræði að koma þar fyrir því fólki, sem þar átti rétt á framhaldsnámi og hefur tekið landspróf.

Á Akureyri horfir þetta allt öðruvísi við. Þar bera menn sig mjög illa yfir þessari breytingu, og hafa þeir bent á, að gagnfræðadeildin væri fyrir Norðlendinga og Austfirðinga og hefði verið um langan tíma og mjög óheppilegt að leggja hana niður, einkum vegna heimavistarinnar. Eftir að hafa kynnt mér þessi mál, féllst ég á það, þótt mér fyndist rök þeirra, sem vildu halda áfram gagnfræðadeildinni, mjög veik, að setja þar upp einn bekk á þessu hausti, sem er liðið, með því skilyrði, að inn í þann bekk yrðu fyrst teknir þeir utanbæjarmenn, sem væru frá þeim stöðum, þar sem óhægt væri að koma að gagnfræðanámi, og vildi ég á það fallast í þetta skipti, að bekkurinn yrði fylltur upp með Akureyringum, ef ekki sæktu nógu margir. Gerði ég þetta til þess, að það skyldi sýna sig, hvernig þessum málum væri háttað. Í ljós kom, að það voru aðeins 10 utan Akureyrar, sem sóttust eftir því að komast í þessa gagnfræðadeild. Ég veit ekki, hve margir voru frá þeim stöðum þar sem örðugt er að ná til gagnfræðakennslu, en margir þeirra voru frá stöðum, þar sem tiltölulega var auðvelt að fá slíka kennslu, en vildu af sérástæðum vera þarna. Síðan var bekkurinn fylltur upp af Akureyringum og sett það skilyrði, að ekki yrðu háð samkeppnispróf og skólastjórinn yrði að bera ábyrgð á því sjálfur, hverja hann veldi til þess að fylla bekkinn. Varð bekkurinn svo þannig skipaður í haust, að þar voru 10 utanbæjarmenn og 17 Akureyringar. Þegar maður lítur á heimavistarmálin í þessu sambandi, er þannig ástatt, að í heimavistinni búa í vetur sex 1. og 2. bekkjar nemendur utan Akureyrar, en í fyrra voru það 11 og 1946–47 22 nemendur. Það er þess vegna augljóst af þessu, enda hef ég kynnt mér það vel, að þetta er rétt, sem komið hefur fram viðvíkjandi þessu máli á síðustu missirum, að viðhorfið til þess að afla sér gagnfræðamenntunar utan Reykjavíkur og Akureyrar er það gerbreytt á síðustu árum, að ekki virðist sérstök ástæða til þess að hafa sérskipun á Akureyri vegna utanbæjarnemenda: Og þessi sérskipun sýnir þetta mjög glögglega og þær upplýsingar, sem ég nú hef gefið.

Þá er spurningin, hvort aðrar ástæður geri það eðlilegt að breyta þessu kerfi og gera undantekningu með Akureyri, og kæmi þá t.d. til athugunar það, sem segir í grg, frv.: „Telja verður, að hér í höfuðborginni sé góð aðstaða til gagnfræðanáms, bæði hvað húsnæði og kennslukrafta snertir.“ Menn mundu þá kannske freistast til að halda, að það gerði því ekki mikið til, þó að gagnfræðadeild menntaskólans sé lögð niður, en þetta sé öðruvísi á Akureyri. En þetta er ekki rétt, miðað við þær upplýsingar, sem ég hef fengið: Bæði fræðslumálastjóri og skólastjórinn á Akureyri fullyrða, að gagnfræðaskólinn á Akureyri geti vel tekið á móti öllum nemendum, sem til hans sækja, og geti á næstunni. Og varðandi möguleika Gagnfræðaskólans á Akureyri til þess að sjá mönnum fyrir kennslu, gæti menntmn. þessarar d. kynnt sér skólahald gagnfræðaskólans á Akureyri til þess að sjá, hvort þess vegna sé ástæða fyrir menn að fælast frá að fá gagnfræðamenntun sína þar, og mundi þá koma í ljós, að þeir nemendur mundu ekki verða afskiptir, sem þangað kæmu til að leita sér menntunar. Ég vil líka minna á það, að samkv. nýju fræðslulöggjöfinni er gert ráð fyrir, að ríkið reki menntaskólana, en bæir og héruð skóla gagnfræðastigsins, þannig að sérákvörðun yrði gerð um Akureyri, ef ríkið ætti að halda áfram að reka þar gagnfræðaskóla, eftir að fræðslulöggjöfin hefur verið sett um þetta atriði. — Hér kemur einnig til greina, að menntaskólanum á Akureyri eða menntaskólanum er skylt að taka við öllum þeim, sem tekið hafa landspróf og þangað vilja fara. Hvílir sú skylda á ríkinu að hafa góða skóla fyrir þetta fólk, og Akureyrarskóla er skylt að taka við því fólki, sem þangað sækir.

Ég held, að það væri mjög skynsamlegt fyrir menntmn., sem þetta mál að sjálfsögðu fer til, að kynna sér þetta mál gaumgæfilega, bæði með því að sjálfsögðu að ræða við flm. og líka að fá álit mþn. í skólamálum og ræða við fræðslumálastjóra, sem hefur allra manna bezta vitneskju um, hvernig þetta horfir við. Einnig er sjálfsagt fyrir n. að hafa samband við forráðamenn Gagnfræðaskólans á Akureyri og taka ekki afstöðu fyrr, en hún hefur kynnt sér umsögn þessara aðila.