14.05.1949
Efri deild: 109. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (3075)

120. mál, menntaskólar

Hannibal Valdimarsson [Frh.]:

Ég hugsa, að ég ofbjóði ekki svo þreki hæstv. forseta. Það liggur fyrir, að ég fæ ekki svör við spurningum mínum við fyrri hluta þessarar umræðu. Ég vil því rifja upp það helzta, sem meginmáli skiptir í þessu. máli. (Forseti: Ég vil mælast til, að hv. þm. tvílesi ekki ræðu sína.)

Hér er farið fram á það, að Menntaskólanum á Akureyri sé heimilað að stofna miðskóladeild, sem megi starfa í næstu tvö ár, ef húsrúm skólans leyfir. Þetta er gert fyrir stofnunina sem merka menntastofnun og til þess að gera sóma hennar og veg sem mestan. Ég held, að það sé mjög vafasamt, að sómi og vegur Menntaskólans á Akureyri vaxi nokkuð við það, þó að hann fái undanþágu frá skólalöggjöf landsins, sem hliðstæðri stofnun, Menntaskólanum í Rvík, var neitað um. Ég held líka, að það væri miklu betra fyrir Menntaskólann á Akureyri að leggja niður gagnfræðadeildina núna, en þurfa að gera það eftir tvö ár, en eftir tvö ár eru litlar eða engar líkur til, að slík undanþága sem þessi fengi framlengingu, því að þá á skólalöggjöfin að fullu og öllu að vera komin til framkvæmda, og þá eiga engar gagnfræðadeildir að vera til við menntaskólana, þar sem þeir eiga þá að vera orðnir 4 ára skólar. Mér finnst því, að þessi vingjarnlegu orð til Menntaskólans á Akureyri hafi ekki við rök að styðjast.

Ég vil þá einnig minnast á það, að eitt atriði gerir það þó að verkum, að kannske er fremur hægt að samþ. þessa tveggja ára undanþágu er frv. eins og það var í sinni upphaflegu mynd, sökum þess að með því að veita aðeins tveggja ára undanþágu er því slegið föstu, að undanþágan gildi einungis meðan skólakerfið nýja er ekki að fullu komið til framkvæmda. Mér skilst því vera slegið föstu, að þegar sá dagur rennur upp, að skólalöggjöfin nýja ákveður, að nýja kerfið skuli að fullu komast í framkvæmd, þá gildi engin undanþága lengur frá löggjöfinni. Að þessu leyti er frv. nú aðgengilegra og brýtur ekki eins í bága við skólalöggjöfina og það gerði. Ég og hv. 8. landsk. viljum þó af vinsemd við Menntaskólann á Akureyri fallast á, að sú ein breyt. verði gerð á l., að miðskóladeild megi starfa fyrir utanbæjarnema, ef rúm leyfir og búið er að taka við öllum þeim nemendum, sem búnir eru að ljúka 2 vetra námi og rétt hafa að setjast í skólann. Gagnfræðaskóli Akureyrar getur þá veitt viðtöku innanbæjarnemendum. Till. þessi, ef hún kemst í gegn, greiðir fyrir utanbæjarnemendum og hefur einnig í för með sér allt það, sem hv. fim. töldu aðalrök fyrir málinu, og ætti því að vera til bóta að samþ. brtt. okkar hv. 8. landsk.

Það dylst engum, að allir þeir, sem leitað hefur verið til um umsögn um þetta frv., telja, að uppeldíslega séð sé hér stefnt í ranga átt. Fræðslumálastjóri telur rangt að leyfa þetta, en engan veginn frágangssök samt sem áður, þar sem aðeins er um tímabundið leyfi að ræða. Rektor Menntaskólans í Rvík, Pálmi Hannesson, lætur í ljós það álit, að hans skóli sé metinn minna, ef honum sé synjað um að setja upp miðskóladeild á sama tíma og Menntaskólinn á Akureyri fær heimild til þess. Ég tel eðlilegt, að rektor Menntaskólans í Reykjavík vilji, að skóli hans fái sömu hlunnindi og Menntaskólinn á Akureyri. Pálmi Hannesson hefur svarað því aðspurður, að hann telji misráðið að samþ. þessa heimild, og einnig hafa fleiri, sem rætt hefur verið við, tekið sams konar afstöðu, og á ég þar einkum við mþn. í skólamálum, sem er eindregið andvíg þessu og rökstyður það með því, að ekki megi trufla og koma ruglingi á skólakerfið, heldur verði að koma reynsla á það, áður en því verði breytt með bráðabirgðaákvæðum eða varanlega, og að nýtt kerfi verði að fá að reyna sig og ekki megi brjóta það niður, fyrr en reynsla hefur fengizt á því, og ekki megi brjóta það niður fyrr en reynslan sýni, að það sé ómögulegt. Það er slæmt við verklegar framkvæmdir að gera mistök, en það er verra þegar um slík mál er að ræða. Það er verra að fá hv. þm. til að athuga málin, þegar um uppeldi æskulýðsins er að ræða, heldur en þegar skipa- eða húsabyggingar eru annars vegar.

Ég held, að ég hafi nú gert grein fyrir helztu sjónarmiðum í máli þessu, og tel, að ég hafi að engu leyti hallað á Menntaskólann á Akureyri, sem er mæt og góð menntastofnun, og á ég honum mikið að þakka, sennilega engum eins. Þeir, sem þar starfa, eru að mestu leyti skóla- eða bekkjarbræður mínir og vinir. Það er því ekki af óvild til skólans eða kennaranna, að ég get ekki greitt þessu frv. atkv., og þó að ég eigi skólanum og þeim margt að þakka, held ég, að það sé ekki bezt gert á þennan hátt. Þá er einnig hætta á því, að Gagnfræðaskóli Akureyrar verði skemmdur, ef ekki lagður í rúst, eins og ég hef áður getið um í ræðu minni. Ég tel þetta mál svo mikilsvert, að ekki sé hægt að víkja af götu sannleikans fyrir vináttu sakir. Ég vonar að þeir hv. þm., sem ekki hafa kynnt sér málið, greiði atkv. með till. okkar hv. 8. landsk. Ég mun greiða atkv. eins og málið blasir við mér. Ég hef krufið það til mergjar meir en flestir aðrir og get því ekki látið vinsemd til kennaranna eða bænastaf skólameistarans, Þórarins Björnssonar, hafa áhrif á afstöðu mína, heldur tek efnislega afstöðu til málsins. Því mun ég gera það, sem ég held, að sé skólamálunum fyrir beztu, og ég óttast þann eld, sem það gæti kveikt á Akureyri, ef frv. þetta væri samþ. Þá væri einnig hætta á, að aftur mundi myndast sama ófremdarástandið og var í þessum málum, þegar gagnfræðaprófin voru á fjóra vegu. — Ég læt svo lokið máli mínu, en harma, að meiri hl. hv. þm. skuli hafa tekið svo flokkslega afstöðu í þessu, máli og hlaupizt síðan í burt. Ég ásaka ekki hæstv. forseta fyrir þetta og þakka honum mikla þolinmæði.