17.05.1949
Efri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1894 í B-deild Alþingistíðinda. (3082)

120. mál, menntaskólar

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson):

Það er af menntmn. búið að ræða margt um þetta mál, en af minni hálfu, sem tókst á hendur að nefnast frsm. meiri hl., ekki nema örlítið. Ég áleit það enga nauðsyn að hafa þau orð mörg, því þótt orðið hefðu heilla daga ræðuhöld um málið því til stuðnings eða falls, þá hefði fátt af rökum komið þar fram umfram það, sem lesa má í frv. sjálfu og fylgiskjölum þess. Ég fer ekki út í þá sálma og tel það nægilegt. Það eru þessar langlokuræður um þetta mál, sem ég geri ekki mikið úr, því að þær skýra lítið. Ég hef valið þann kostinn að taka ekki þátt í þeim, en mun fylgja málinu, af því að mér finnst það sanngirnismál, þó að sitt hvað kunni að mæla á móti.

En ég tel rétt, úr því að beint var fyrirspurnum til mín, að svara þeim nokkrum orðum. Það er þá fyrst, hvort það sé ætlunin, að þessi fyrirhugaði gagnfræðaskóli verði lagður niður að tveimur árum liðnum, þegar nýju skólalögin verða komin til fullrar framkvæmdar. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég hef ekki þá skólamálaforustu í dag og býst ekki við að hafa hana, að ég geti fullyrt um þetta, en mér virðist þetta vera talað út í bláinn, ef það er ekki tilætlunin. Ég geri því ráð fyrir eftir frv. og málefnum, eins og þau horfa við nú, að það sé meiningin.

Þá er önnur fyrirspurnin, hvort þessi deild eigi að starfa með óskiptum ársdeildum. Ég er ekki sá skólafræðingur, að ég geti svarað þessu svo, en ég geri ráð fyrir, að fyrirkomulag þessarar gagnfræðadeildar í þessi tvö ár verði ákveðið með reglugerð. Það er engin ástæða til að óttast, að þessum málum verði ekki skipað á þann veg, sem bezt má fara, til að gagnfræðadeildin njóti sín sem gagnfræðadeild og menntaskólinn, sem á að halda sínum rétti, njóti sín sem menntaskóli á allan hátt.

Þá er þriðja spurningin, hvort þarna eigi að kenna bæði bókleg og verkleg fræði, eins og löggjöfin um gagnfræðanám krefst. Hér er um það að ræða í þessu frv., að þessi gagnfræðadeild við Menntaskólann á Akureyri fái enn að starfa í tvö ár. Þessi undanþága er gerð vegna liðna tímans. Þetta hefur verið góður skóli, og hafa margir fengið þar ágæta fræðslu, svo sem hv. 3. landsk. og margir fleiri. Ég hygg með tilliti til þess, að reynt verði nú í þessi tvö ár að haga skólanum þannig, að hann megi rækja sitt hlutverk sem bezt, og treysti ég hæstv. kennslumrh. tll að setja þar um þær reglur, sem bezt gegna gagnfræðaskólanum annars vegar og menntaskólanum hins vegar.

Ég fer ekki lengra út í þetta, af því að ég er ekki svo þrautsmoginn í skólamálum eins og hv. 3. landsk. Ég hef heyrt, að menn hafi stundum verið veiddir með spurningum, og það er bezt að vera tortrygginn og forðast þessa karla, sem slíkri freistni valda, og læt því máli mínu lokið.