17.05.1949
Neðri deild: 113. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (3149)

186. mál, eyðing refa og minka

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð til þess að andmæla uppástungu hv. þm. A-Húnv. Eftir því sem landbn. Nd. hefur gengið erfiðlega að fást við þetta mál, þá er það langbezta lausnin á því að fá það afgreitt á þessu þingi, þó að það skorti ef til vill nokkuð á, svo að það geti náð verulegum árangri. Breyt. þær, sem gerðar voru í Ed., voru aðallega fólgnar í því að færa saman gr. og ákvæði frv. Að öðru leyti er frv. alveg eins og þegar það fór héðan, og finnst mér, að Nd. geti látið sér það vel lynda, og ættu menn að geta látið sér afgreiðslu þess vel lynda og einmitt sérstaklega hv. þm. A-Húnv., því að aðalatriðin eru óbreytt. Þess vegna kemur mér það einkennilega fyrir sjónir, að hann skuli koma með þessar upplýsingar.

Ég vænti þess svo, að hv. þdm. geti fallizt á frv., þó að það sé ekki alveg í þeim búningi, sem við hv. þm. Borgf. álitum, að það mundi koma að mestu gagni.