17.05.1949
Neðri deild: 113. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (3150)

186. mál, eyðing refa og minka

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég er nú ekki sérstaklega vel inn í þessu máli, en mér þætti vænt um, ef þeir, sem sótt hafa þetta mál fastast, upplýsi það ofurlítið betur fyrir mér. Hitt verð ég að segja, að oft þegar ég hef fylgzt með þessu máli og öðrum svipuðum, um útrýmingu refa, minka og svartbaks og hvað það nú er allt saman, þá hefur mér oft dottið í hug, hve undarlegt það sé, að þessir sömu menn, sem berðust gegn þessum dýrum, skuli ekki snúast til baráttu við refina í mannlegu þjóðfélagi. Það er undarlegt, hvernig þar er löghelguð sú eyðing þeirra dýra, sem þeir vilja útrýma úr dýraríkinu. Það mætti margt um þetta ræða og filósófera, en í þessu máli held ég, að mætti upplýsa ýmis atriði betur en orðið er og ýtarlegar. En það hefur nú verið svo að undanförnu, að mörg mál hafa verið sett í gegn án þess að þau væru rædd ýtarlega. ef ríkisstj. hefur lagt áherzlu á það, jafnvel þó að um mikilsvarðandi mál hafi verið að ræða. Sumum þessum málum höfum við sósíalistar verið andvígir, en þrátt fyrir það held ég, að mér sé óhætt að segja, að við höfum ekki tafið fyrir þeim eða gert erfiðara fyrir að koma þeim í gegn, þó að vitanlegt sé, að sumt af þessum málum er þannig, að réttara hefði verið að ræða þau betur. Hins vegar skiptir það allt öðru máli með þetta mál. Þetta er þingmannamál og hefur nú verið afgr. frá Ed. með miklum breyt. Þess vegna væri ekki óeðlilegt, að það væri athugað af landbn. og hún segði okkur álit sitt á því, eftir þær breyt., sem búið er að gera, og það er vel hægt að gera það núna, það er vel hægt að skjóta á nefndarfundi, sem tæki ekki langan tíma. (Forseti BG: Ég vil beina þeirri spurningu til hv. þm., hvort ræða hans muni taka langan tíma, og vil benda hv. þm. á, að tími er mjög naumur, þar sem fundur á að hefjast í Sþ. eftir rúmlega klukkutíma. Ég vænti þess, að hv. 2. þm. Reykv. stytti ræðu sína svo sem mögulegt er.) Ég mun nú verða við ósk hæstv. forseta um að stytta ræðu mína og ljúka máli mínu með nokkrum orðum.

Ég álít rétt, að landbn. fengi þetta frv. til athugunar, en að öðru leyti væri það ekki illa farið að fara eftir till. þm. A-Húnv. og fresta málinu, ef landbn. treystir sér ekki til þess að afgr. það á svo skömmum tíma.