29.04.1949
Neðri deild: 95. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (3188)

Málshöfðunarleyfi gegn þingmanni

Katrín Thoroddsen:

Ég vil taka það fram, að ég lít svo á, að þm. G-K. hafi með ummælum þeim, sem óskað er málshöfðunar út af, sett blett á Alþingi, en ég tel ekki, að sá blettur verði afmáður, þó að þm. verði sviptur þinghelgi. Ég tel hins vegar ekki, að þeir ágætismenn, sem þessi ummæli beindust gegn, hafi þeirra vegna beðið álitshnekki, heldur þvert á móti vegna þeirra vaxið svo sem verðskuldað er. Málshöfðunarbeiðni þeirra tel ég því ástæðulausa þeirra vegna, og sé rógur sá, ósannindi og baknag, er þeir hafa orðið fyrir af hálfu hv. þm., borið saman við illgerðir hans gagnvart öllum landslýð, er málshöfðunarleyfið óneitanlega hégómlegt hismi. En yrði nú horfið að því ráði að svipta þm. þinghelgi, gæti farið svo, að það yrði síðar misnotað sem fordæmi og leiddi til þess, að þingmenn ættu á hættu að verða sviptir þinghelgi að ósekju, og segi ég því nei við þessari beiðni.