14.03.1949
Efri deild: 77. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (3486)

75. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég gat, eins og kemur fram í nál., ekki fallizt á rök meiri hl. n. í þessu máli og í grg. frv. og nál. mínu kemur fram afstaða mín. Ég get að miklu leyti fallizt á það, sem sagt er í grg. Ég vil benda á það, að þó að þrjár n. hafi haft þetta mál með höndum, eða um 20 manns, síðan 1944, en þá var heitið afgreiðslu á næstunni, þá hefur ekkert orðið ágengt. Það er vitað mál, að n. sú, er nú situr og einn af ráðh. veitir forstöðu, hefur ekkert þokað málinu áfram. Ég held því, að skynsamlegast sé að fá sérstöku stjórnlagaþingi málið í hendur. Þó eru þetta ekki veigamestu rökin fyrir því, heldur hitt, að þegar kosið er til Alþ., er fyrst og fremst kosið eftir almennum flokkslegum sjónarmiðum. Menn kjósa þá þm., er þeir telja standa sér næst í skoðunum almennt, en kjósa ekki með tilliti til stjórnarskrármálsins. Jafnvel þó að frambjóðandinn sé á annarri skoðun en kjósandinn í stjórnarskrármálinu, verður annað þyngra á metunum. Ég held því, að eðlilegast sé að fá málið í hendur sérstöku stjórnlagaþingi, svo að menn geti kosið með tilliti til þessa eina máls. Ég skal svo ekki lengja umr. frekar, en það er sízt af skorti á umr., sem lítið hefur verið gert í málinu, því að málið hefur verið rætt svo að segja daglega í blöðunum síðan 1944.