14.03.1949
Efri deild: 77. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (3488)

75. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég sé, að tómlegt er í hv. d. hjá hv. 1. þm. N-M. og mér einnig nú, geri ég ráð fyrir. Því mun eigi heppilegt að hafa langar umr. Ég geri ráð fyrir því, að ég sannfæri ekki hv. þm., enda mun hann ekki hingað kominn til að láta sannfærast. Ég vil bara segja, að hver einasta n. gerir það yfirleitt að athuga form á frv., hvernig formlega sé með þau farið og er það hið fyrsta. Og þegar sérstök n. er starfandi í þessu máli, þá er rétt, að til hennar átti að beina málinu. Þess vegna komum við nm. ekki með neinn dóm á því. Yrði svívirðilegt fyrir stjskrn., ef hún fengi ekki málið í sínar hendur. Þá væri bezt að leggja hana niður og þ. tæki þetta allt í sínar hendur. Það er engin ástæða til að taka fram hjá n. Annars veit ég ekki, hvað hv. þm. hefur í huga. En nú ríkir sú venja og hefur verið við tvær hinar síðustu breytingar á stjskr., að kosið er til sérstaks stjórnarskrárbreytingaþ. og aukaþ. og síðan kosið á eftir. Stjórnarskrárbreyt. hefur það ævinlega í för með sér, að kjósa verður undir eins á eftir, og þá verður sérstaklega kosið til stjórnarskrárþ. Og þegar kosið er, vita menn, hvað í því felst: hvort kjósa verði upp aftur eða ekki. Þetta er því ekki eins nauðsynlegt og hv. þm. heldur. Auk þess hefur þetta í för með sér milljónakostnað.

Annars sé ég ekki, að það þýði að hafa frekari umr. um þetta hér. Hv. þm. eru að hlusta á „skemmtileik“ í hinni hv. d., en hvorki mig né hv. þm. N-M.