13.12.1948
Efri deild: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (3515)

47. mál, menntaskólar

Frsm. minni hl. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Ég er vantrúaður á mikil ræðuhöld um þetta mál, sem í sjálfu sér er hið þýðingarmesta. Ég held, að hv. þm., sem ekki geta komizt að einhverri niðurstöðu um það, hvort þeir eru með eða á móti málinu, eins og það liggur fyrir hér, muni tæplega sannfærast, þó að ég eða hv. frsm. haldi hér stólparæður. Ég held, að það væri þá frekar gert til þess að njóta andagiftar sinnar eða ánægjunnar af að hlusta á sjálfan sig heldur en að búast megi við svo miklum rökum í þeim ræðum, að það mundi breyta skoðunum manna. Samt sem áður vildi ég nota tækifærið til þess að gera nokkrar aths. við fáein atriði, sem hv. frsm. minntist á í sinni síðari stólparæðu. — Hv. þm. ber mér það á brýn, að ég hafi í menntmn. viljað þvælast fyrir málinu og tefja það. Ég skal kannast við, að það sé rétt að því leyti, að ég átti ekki samleið með meiri hl. n., og innan mjög skamms tíma samdi ég mitt nál. Ef þessu máli er ætlað fram að ganga, þá er það sannarlega ekki síðar á vegi hér á Alþ. en mörg önnur mál og þau stórbrotnari, sem ekki eru komin lengra á veg en þetta frv. Það fellir þetta mál áreiðanlega aldrei, hvað seint það hefur komið fyrir hér, eins og hv. þm. vildi láta skína í. Hættan er önnur, að mínu áliti, sem sé sú, að málið sé ekki traustara eða betur undirbúið en svo, að það út af fyrir sig kunni að verða því að falli. Hv. frsm. fór mörgum orðum um það í ræðu sinni, að ég vantreysti því eða væri því mótfallinn, að menntaskóli ætti að koma á Laugarvatni. Í mínu nál. geri ég ekkert til að afsanna það, en ég segi eitthvað í þá átt, að vel geti margir fleiri staðir komið þar til greina. Hv. frsm. hengir hatt sinn á þetta og gerir mig svo að höfundi þeirrar skoðunar, að frá mínu sjónarmiði séð sé um Laugarvatn eða hins vegar Skálholt að ræða. Ég nefni ýmsa aðra staði, sem vel gætu komið til greina. Annað segi ég ekki um það. Annars tel ég, að hv. frsm. geri engum greiða með því að vera að breiða sig út yfir Laugarvatn eins og sjálfsagðan stað fyrir menntaskóla. Ég vil ekki dæma um það. En ég segi það, að þessi ákvörðun sé gripin úr lausu lofti. Það eru margar aðrar ágætar jarðir og gömul, fræg skólasetur, sem til greina gætu komið, eins og t. d. Haukadalur og Oddi, ef fólkið fengi að segja álit sitt um þetta og málið væri betur undirbúið, en orðið er. Hv. frsm. lætur skína í það, að mér sé ókunnugt um, að þegar sé búið að ákveða, að menntaskóli skuli verða í sveit á Suðurlandi. Ég kannast ekki við, að það sé ákveðið með l. Hitt veit ég, að í l. um menntaskóla frá 1946 er talað um menntaskóla í Reykjavík á Akureyri og að sá þriðji skuli vera í sveit, (HV: Á Suðurlandi.) Nei, stjórnartíðindin nefna það ekki. Ég get ekki fellt slíkt inn í l., það geta aðrir, t. d. hv. frsm. Ef þetta frv., sem hér liggur fyrir, yrði gert að l., er meira gert með því, en að bæta við þriðja menntaskólanum í sveit. Þeim er bætt tveim við og þeim þriðja á Ísafirði, svo að þeir yrðu fleiri til samans, en lögfestir voru 1946. Ég vissi það vel og vildi því segja mátulega mikið, þegar ég óska eftir því, að ríkisstj. undirbúi það, að reistur verði þriðji skólinn í sveit, þegar tímabært þykir, sem ég dreg í efa, að sé á þessu þingi, sem nú situr.

Hv. frsm. fór mörgum orðum um það, sem var nokkuð skrýtinn útúrdúr, að fyrir aldarfjórðungi síðan hafi margir hinna þröngsýnni og íhaldssamari manna verið á móti því, að Akureyrarmenntaskóli yrði stofnaður, Hv. þm. var svo óheppinn, að hann minntist á nöfn í sambandi við þá, sem hefðu beitt sér gegn því, að skólinn yrði reistur, og nefndi þá Bjarna frá Vogi. Ég hélt, að þeim góða, látna heiðursmanni yrði fremur fundið annað til foráttu, en að hann hefði ekki verið mjög framsækinn í menningar- og fræðslumálum (BSt: Hann vildi ekki menntaskóla á Akureyri.) Menntaskólinn á Akureyri er mikil og merkileg menntastofnun, og ég álit þá þm., sem á móti honum stóðu, skammsýna, en hina heppna, sem stóðu að því að koma skólanum upp. Fyrsta ástæðan til þess, að Menntaskólinn á Akureyri hefur orðið slíkur ágætisskóli og hann er, er sú, að hann hefur notið svo góðs húsbónda sem raun ber vitni um, þar sem er Sigurður Guðmundsson skólameistari. Hann stjórnaði þessu stóra og ábyrgðarmikla heimili með ágætum. Hefði einhver miður vel til þess fallinn valizt í þá stöðu, hefði öðruvísi getað farið. Var það ekki Sigurður Guðmundsson fyrrv. skólameistari, sem hélt því fram í ræðu sinni 1. des., að þjóðinni væri hollara að bæta þá menntaskóla, sem fyrir eru, heldur en að reisa nýja? Og þetta eru orð af fræðimanns vörum, sem mikla þekkingu og reynslu hefur í skólamálum, en ekki gjálfur af vörum þekkingarlauss manns.

Frsm. var að tala um, að heimavistirnar hefðu verið vanræktar, og það er á vissan hátt réttmæt athugasemd, og það tel ég vera fyrsta verkefnið að lagfæra. Það mál er að vísu komið af stað á Akureyri, en ekki verið neitt hafizt handa hér í Rvík. Og heimavistirnar eru góð hjálp efnalitlum piltum utan af landsbyggðinni, ef þær eru góðar og vel reknar. Það liggur í augum uppi, að skólar, sem reistir væru t. d. á Ísafirði og Eiðum, yrðu að hafa heimavistir og þar af leiðandi yrði kostnaðurinn svipaður, hvort sem nemandinn væri í heimavist hér í Rvík eða á Ísafirði, ef aðbúnaðurinn væri sá sami. En á hinn bóginn er miklu betri aðstaða hér til skólahalds, t. d. hægara að fá kennara og aðstaða til að nýta söfnin.

Þá spurði frsm. meiri hl., hvaða undirbúning ég teldi skorta. Ég get auðveldlega svarað því, þar sem allan undirbúning, bæði fjárhagslegan og, hvað allt fyrirkomulag snertir, vantar til þess að lögfesta slíkt frv.

Næst varpar frsm. fram þeirri spurningu, hvort ekki eigi þá bara allir skólar að vera í Rvík. Ég tel, að svona spurningum þurfi ekki að svara, en hitt er staðreynd, að sumir skólarnir geta ekki annars staðar verið en í Rvík, t. d. læknaskólinn, og svo eru aðrir, eins og menntaskólarnir, sem bezt eru settir í Rvík og þar næst á Akureyri, vegna þess að á þessum stöðum er öll aðstaða miklu betri, og þá aðstöðu er meiri nauðsyn að nota við menntaskóla en t. d. við alþýðuskólana. Hitt, að allt skólahald sé ein heimavist, tel ég svo langt frá veruleikanum, að það sé hafið yfir allar umr.

Mér fannst eins og frsm. hneykslaðist á því, þegar ég talaði um, að menntaskóli, sem reistur yrði í sveit í framtíðinni, ætti að vera á þeim stað, þar sem væri hreint, ómengað sveitaloft. Ég minntist ekkert á Laugarvatn í því sambandi, hvorki til né frá, en hins vegar tel ég allan vara góðan í þeim efnum.

Ég tók það fram í upphafi máls míns, að langar ræður væru venjulega til lítils, þegar aðalatriði málsins væru fram komin, og þar af leiðandi mun ég ekki ræða þetta frekar nú. Ég hef drepið á það helzta með tilliti til þeirrar dagskrár, sem ég hef lagt fram. Að lokum vil ég benda á, að þjóðin verður að vita, hvert stefnir. Það er nauðsyn, að þjóðin ali upp víðsýna og vel menntaða stúdenta, en hitt er vafasamt, hvort beina á fleirum inn á þær brautir en þörf er fyrir sem embættismenn og sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum og stúdentspróf þarf til að verða. Það má mennta aðra þjóðfélagsþegna á svo margan hátt, sem ef til vill er heillavænlegra fyrir þjóðina. Annars má mikið um þetta mál ræða, en ég læt hér staðar numið, og að síðustu skírskota ég til dagskrártill. minnar og vænti, að þdm. sjái sér fært að samþ. hana.