13.12.1948
Efri deild: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (3520)

47. mál, menntaskólar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að misbjóða ekki þolinmæði hæstv. forseta. Ég sé ekki ástæðu til að svara hv. frsm. nú, og mun ég geyma það til 3. umr. En út af því, sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. N-M., vil ég segja nokkur orð. Hann hélt því fram, að ég hefði haft þau orð um menn þá, er undirrituðu áskorun til Alþ., að þeir væru aftaníossar. Ég mótmæli því, að ég hafi sagt þetta eða nokkuð vansæmandi um þá, og er allt slíkt tilbúningur hv. 1. þm. N-M. Ég mótmæli því einnig að hafa sagt, að þeir fyrir austan tryðu öllu, sem hv. þm. segði. Ég vil mótmæla, að slík illmæli séu höfð um svo stóran hóp manna, að þeir trúi öllu, sem hv. þm. N-M. segir. Enn fremur vil ég mótmæla því, að Sjálfstfl. hafi jafnan verið á móti menntun og almennri fræðslu. Ég vil benda á það, að sá skóli, Verzlunarskólinn, sem hv. 1. þm. N-M. taldi séreign Sjálfstfl., hefur verið gerður að menntaskóla. En ég hef ekki orðið var við það, að hliðstæður skóli, sem starfar fyrir fé samvinnumanna, fylgismanna hv. þm., hafi komizt svo langt. Hverjir stóðu fyrir aukningu sjómannaskólans? Og hverjir stóðu í sameiningu við aðra að nýju fræðslulögunum gegn hv. 1. þm. N-M. og flokksmönnum hans? Og var það ekki þáverandi 1. þm. Reykv., sem barðist einkum fyrir þeim hér í hv. deild? Þess vegna er það hrein illmælgi að bera það á nokkurn mann, að hann trúi orðum hv.1. þm. N-M.