22.04.1949
Neðri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (3536)

47. mál, menntaskólar

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Það er mjög eðlilegt, að ég beindi fsp. minni til frsm. n., af því að á þetta er drepið í hinni rökstuddu dagskrá, sem hér liggur fyrir. Auk þess sagði hv. þm., að n. hefði útvegað sér ýmis gögn varðandi þetta mál, og virðist mér því eðlilegt, að fsp. sé beint til frsm. nefndarinnar.

Hv. þm. gat þess, að hér hefði verið borin fram fsp. um þetta í vetur, en sú fsp. var bara ekki í sambandi við þetta mál, heldur var hún í sambandi við, hvort stofna ætti menntaskóla á Laugarvatni. Það má hins vegar vel vera, að hægt sé að fara kringum ákvæði laganna í þessum efnum, og ef hægt er að stofna til menntaskólakennslu á Laugarvatni án fjárveitingar, er sjálfsagt hægt að stofna vísi til menntaskóla víðar, en á Laugarvatni, þó að fé sé veitt í öðru skyni, og ég tel, að það hafi fyrst og fremst vakað fyrir flm. þessa frv. að á Ísafirði yrði stofnaður vísir að menntaskóla.