21.03.1949
Neðri deild: 84. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (3555)

166. mál, utanríkisráðuneytið og fulltrúar þess erlendis

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Frv. það á þskj. 466, sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. Rang., er um breyt. á l. frá árinu 1941. Í 1. gr. frv. er ákveðin tala þeirra sendiherra og sendifulltrúa, sem gert er ráð fyrir, að Íslendingar hafi erlendis. Skulu þeir eigi vera fleiri en fjórir, en nú eru þeir fleiri. En tala þessara manna hefur ekki verið ákveðin fyrr heldur lagt á vald ríkisstj. að ákveða tölu þeirra á hverjum tíma. Til eru l. frá 1921 um sendiherra í Kaupmannahöfn. Er lagt til í 2. gr. frv., að þau falli úr gildi. En í frv. er ekkert um það sagt, hvort vera skuli sendiráð eða sendiherra í Kaupmannahöfn. Verður það á valdi ríkisstj., hvar Íslendingar hafa sendiráð erlendis. Hér er aðeins takmörkuð tala sendimannanna. Hins vegar eru bæði í l. og 1. gr. þessa frv. ákvæði um, að ríkisstj. geti „falið forstöðumanni sendiráðs að veita forstöðu sendiráðum í fleiri löndum en einu.“

Kostnaður við utanríkisþjónustuna hefur farið vaxandi. Árið 1945 hefur hann verið kr. 1.270.000 rúmar skv. ríkisreikningi þess árs, sem nú hefur verið lagður fyrir Alþ. En á fjárlagafrv. fyrir þetta ár er gert ráð fyrir kr. 1.923.500. Og í till. hv. fjvn., sem nýlagðar eru fyrir þ., er gert ráð fyrir að bæta enn við þessa upphæð, svo að hún verði alls kr. 2.060.000. Okkur flm. þessa frv. þykir kostnaðurinn svo mikill, að þörf sé á að takmarka hann. Ætti að vera hægt með færri mönnum að annast sómasamlega þessi störf, er Íslendingar þurfa að vinna erlendis. Nú er það venja við alla meiri háttar samninga að senda sendinefndir, og er líklegt, að því verði haldið áfram, þótt sendifulltrúar okkar erlendis verði hafðir til aðstoðar. Tilgangur okkar með frv. er að gera tilraun til að draga úr gjöldum ríkissjóðs vegna utanríkisþjónustunnar.

Ég hef veitt því athygli, að árið 1941, þegar l. frá því ári voru sett, var frv. vísað til allsherjarnefnda þingdeilda. Fer ég því fram á, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.