21.03.1949
Neðri deild: 84. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (3556)

166. mál, utanríkisráðuneytið og fulltrúar þess erlendis

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efnishlið málsins, og virðist eðlilegt, að frv. hefði ekki verið tekið á dagskrá núna, úr því að hæstv. dómsmrh. getur ekki látið álit sitt í ljós. Kom hann til landsins kl. 7 í morgun. Ég geri ráð fyrir því, að ýmsir menn sitji á þ., er telji sig hafa bæði ástæðu og aðstöðu til að athuga það, — að hv. flm. ólöstuðum báðum, — hvaða þörf Íslendingar hafi fyrir sendifulltrúa erlendis. Hefði ekki verið óeðlilegt, þegar málið átti á annað borð að flytjast inn í þ., að vanir menn hefðu fjallað um það. Ég sagði, að ég ætlaði ekki að taka frv. efnislega til meðferðar. En varhugavert er að setja utanríkisþjónustunni einhverjar þröngar skorður. Það verður að vera teygjanlegt, hvað hentar að gera að dómi þeirra, sem fjalla um þetta mál. Hygg ég, að það sé misráðið að koma sparnaði að í utanríkisþjónustunni. Er eigi fjarri sanni að segja, að af öllum embættismönnum, sem vinna í þjónustu íslenzka ríkisins, séu fáir, sem skila jafnmiklum jákvæðum árangri og sendifulltrúar Íslendinga erlendis. Ríkið á nú mjög víða í samningum. Það er nú að semja við Breta, Tékka, Pólverja og Austurríkismenn. Eru sendiherrarnir í því efni raunverulega í fararbroddi. Ríkið á ótölulegum fjárhagslegum hagsmunum að gegna, og verður að gera ráð fyrir því, að menn þeir, sem eru starfandi í utanríkisþjónustunni erlendis, standi öðrum betur að vígi. Ég vil á þessu stigi málsins vara menn við því, að sparnaðarþörfin fái útrás í þessu formi. Á Norðurlöndum eru nú þrír sendiherrar. Gæti vel komið til mála að fækka þeim niður í einn. Getur verið, að þetta liggi frv. til grundvallar. Að því leyti er ég því ekki ósammála hv. flm. Það er ekki ástæða fyrir mig að fara út í það, hvers vegna þetta hefur eigi þótt tímabært enn þá, þó að vakað hafi fyrir utanríkisþjónustunni um tíma. Hvað sem því liður, vil ég eindregið vara við því, að sparnaðarþörfin brjótist hér út. En ég vil segja það að lokum, að eðlilegt virðist að snúa sér til utanrmn. með slíkt frv. sem hér liggur fyrir. (SigfS: Er ekki búið að leggja hana niður?) Það væri ástæða til að leggja niður n., þar sem hv. þm. situr. Ég teldi heppilegra að snúa sér til utanrmn. (SkG: Hún er bara ekki til í d. ) Hún er til í þ. Mætti vísa málinu frá allshn. til utanrmn., ef við þætti eiga. Efnislega væri rétt að fara þannig að. Mun ég því hafa efnislega á réttu að standa, þótt vera megi, að formlega hafi ég á röngu að standa.