17.05.1949
Efri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (3609)

34. mál, fjárhagsráð

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður og ekki tefja umr. Hv. þm. Str. talaði sérstaklega fyrir flokk sinn í þetta skipti, en ég vil segja, — og beina máli mínu til hæstv. forseta, — að meðan hann var sjúkur um tíma, bar svipað að. Er hann var rúmliggjandi, hafði meiri hl. n. gefið út álit, og málið var tekið á dagskrá og þess óskað, að það gengi sína leið. En minni hl. bað um frest til að geta komið fram með nál. Ég taldi rétt að verða við þessari ósk, jafnvel þó að um minni hl. væri að ræða — en hér er það meiri hl., er óskar eftir fresti — og hélt, að ég úrskurðaði þá í anda hins reglulega forseta, sem mér hefur virzt réttlátur maður í sinu sæti. Ég vil því taka undir með hv. 7. landsk. og óska þess, að gefinn verði nokkur frestur, svo að meiri hl. geti komið saman, því að önn hefur verið mikil síðan í gær og tími stuttur til umráða. Ég vil mælast til þess, að málinu verði frestað fram undir kvöld, — ég þori ekki að ákveða tíma, hv. form. n. veit betur um það. Sem sagt, ég óska, að gefinn verði nokkur frestur, svo að við getum skilað nál., og tel það í samræmi við það, sem áður hefur tíðkazt, einnig minn úrskurð, sem gerður var í trássi við mína eigin flokksmenn og gegn mótmælum þeirra.