09.11.1948
Neðri deild: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (3641)

20. mál, skipulag kaupstaða og kauptúna

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara nema örfáumorðum um þær aths. eða ábendingar, sem komu fram í ræðu hv. 6. þm. Reykv. Vil ég þó aðeins minna á í sambandi við það atriði, sem hann nefndi viðkomandi 2. gr. frv. um þá nefnd, sem á að vera til ráðuneytis ráðuneytinu um framkvæmd þessarar löggjafar, að nefndarmennirnir eru ákveðnir eftir þeim störfum, sem þeir gegna, sem sagt, eins og segir í 2. málsgr. 2. gr. frv., að það eru vegamálastjóri, vitamálastjóri og húsameistari ríkisins. Þetta hefur verið svo undanfarið, og má færa fyrir því nokkur rök, að í embættum þessum hljóta að vera menn, sem hafa til brunns að bera bæði þekkingu á þeim málum, sem hér koma verulega við sögu, og eins hinu, að embætti þeirra séu svo nátengd ýmsum þeim atriðum, sem ákveða þarf um í sambandi við skipulagningu bæjanna. Þar má ekki sízt nefna húsameistara ríkisins, og einnig vita- og hafnarmálastjóra, því að einmitt hafnirnar og fyrirkomulag þeirra og samband þeirra við bæina og kauptúnin er mikilsverður þáttur í skipulaginu. Ég álít því, að það sé ekki illa til fundið að binda þessa nefndarskipun við þá menn, sem gegna þessum mikilsverðu störfum. — Um fyrirkomulag á skipun skipulagsn. sjálfra sé ég ekki ástæðu til að fara mörgum orðum. Mér finnst þó eðlilegt, að þeir, sem hafa höfuðforustu á hendi í bæjarmálum, borgarstjóri í Reykjavík og bæjarstjórar í öðrum kaupstöðum, séu þarna með í ráðum um þessi mjög svo mikilsverðu atriði. Annars skiptir það ekki frá mínu sjónarmiði neinu meginmáli, hvernig verður gengið frá því atriði í l. um skipun þessara n., því að höfuðákvæði frv. eru að sjálfsögðu, eins og hv. 6. þm. Reykv. tók fram, í raun og veru VI. og VII. kafli frv., um eignarnám og skaðabætur og um skipulagssjóði, — fyrir utan það, sem einnig má nefna V. kaflann, um forkaupsrétt á fasteignum vegna skipulagsbreyt., þar sem að vísu eru miklar breyt. gerðar frá því, sem áður var.

Ég get tekið undir það með hv. 6. þm. Reykv., að ég tel þessa löggjöf mikils virði og að rétt sé af þeirri n., sem fær málið til meðferðar, að athuga gaumgæfilega allt efni frv. og leita sér þeirra upplýsinga, sem n. kynni að telja þörf á að fá. Ég skal þó geta þess, að þetta frv. var, áður en það var lagt fyrir hæstv. Alþ., sent til umsagnar til skipulagsn. ríkisins, sem lagði til á því nokkrar breyt., sem ekki voru þó allar teknar til greina af ráðuneytinu, og einnig var frv. sent til umsagnar bæjarstjórnar Reykjavíkur. En frá bæjarstjórn Reykjavíkur barst engin umsögn um þetta mál.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið á þessu stigi.