07.04.1949
Efri deild: 83. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í C-deild Alþingistíðinda. (3690)

91. mál, skipamælingar

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Nefndin tók aftur tvær till. við síðustu umr., vegna þess að skipaskoðunarstjóri óskaði, að þetta yrði athugað nánar. Nefndin tók svo málið aftur fyrir í gær, en þá var einn nm., Sigurjón Á. Ólafsson, fjarverandi sökum veikinda, og skal ég því útskýra þetta nánar.

Það var vísað til 12. gr. í brtt., en á að vera 14. gr. Greinin átti að orðast þannig, að á eftir „Óslóarsamningnum frá 10. júní 1947“ komi „eða að skipið hefur verið mælt samkvæmt ensku aðferðinni“. Þá benti skipaskoðunarstjóri á, að þessi orð væri rétt að fella niður, og færði full rök fyrir því, og hefur það nú verið gert. 14. gr. orðast því alveg eins, nema þetta fellur niður, og er þar því ekki um neina efnisbreytingu að ræða, enda hefur verið bent á það við umr.

Brtt. við 15. gr. þótti óheppilega orðuð, þar sem stendur: „enda sé landið bundið við þann samning“, og er því gr. rétt orðuð á þskj. 533, en þar stendur: „enda sé það land aðili að þeim samningi“.

Þá var og 19. gr. breytt. Samkv. frv. er 1. málsgr. hugsuð með það fyrir augum, að frv. sé samþ. fyrir áramót. Þótti því rétt að láta aðeins 3. málsgr. haldast. En svo þótti rétt að setja nýja gr. á eftir 19. gr., og verður það því 20. gr. og hefst á orðunum: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Þessar breytingar gerði sjútvn. í samráði við skipaskoðunarstjóra og leggur til, að þær verði samþ.