18.02.1949
Efri deild: 62. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (3736)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Enda þótt ég hafi verið með í því að ganga frá þessu frv. í sparnaðarnefndinni, en hér er það lagt fram af ríkisstj. lítið breytt frá því, sem n. gekk frá því, þá eru þó nokkur atriði, sem ég vildi biðja n., sem fær málið til meðferðar, að athuga.

Um þau gerði ég ágreining í n. og taldi, að athuga bæri, hvort ekki mætti fara eins vel á því að haga þessu eftirliti nokkuð öðruvísi.

Mér blandast ekki hugur um það, að með því að hafa fastan mann til eftirlits með ríkisstofnunum og rekstri ríkisins má ná betri vinnuafköstum, en nú er. Þegar þær ættu það yfir höfði sér, að eftirlitsmaðurinn kæmi eins og þjófur á nóttu í þessa eða hina stofnunina, settist þar og ynni með þeim tíma, þá mundi verða betur mætt og betur unnið, en með því eftirlitsleysi, sem nú er. Og mér er þessi þörf enn ljósari eftir að ég gerði þá stikkprufu að hringja í stofnanirnar og biðja um þennan eða hinn í síma, sextíu sinnum hringdi ég, og í 27 tilfellunum voru mennirnir við, hinir höfðu brugðið sér frá, sagði símamærin. (HV: Eftirlitsmaðurinn gæti þá heitið hringjari ríkisins.)

Mér er líka ljóst, að tæknin við vinnuna er ekki hin ákjósanlegasta. Ég kom nýlega á skrifstofur, þar sem mikið þarf að leggja saman af tölum, þar voru notaðar úreltar reiknivélar, og með betri og fullkomnari vélum gætu færri menn náð sömu afköstum og nú eru á þessari skrifstofu. Og fleiri slík dæmi mætti nefna. Ég er því sannfærður um það, að með ráðsmanni ríkisins má ná verulega auknum vinnuafköstum og fækkun á starfsliði. Þó veltur þetta mikið á manninum, sem í stöðuna velst. Og þá er ég kominn að því fyrsta, er ég vildi biðja n. að athuga. Ég tel, að geti komið til mála, að í stað þess að hafa sérstakan ráðsmann, þá sé þessu verki bætt á þá þrjá menn, sem nú endurskoða ríkisreikningana. Þeir eru nú að bauka við að endurskoða gamla reikninga frá liðnum árum og bera þar saman tölur og koma svo með sínar athugasemdir, en þá svo seint, að enginn hefur gagn af nema sem sögulegum fróðleik. Ég segi ekki, að þetta eigi að gera, en ég segi og bið n. að athuga, hvort ekki geti komið til mála og hvort sé hentara að hafa til þessa sérstakan ráðsmann, eins og við gerðum ráð fyrir í n., eða fela þetta starf hinum þingkjörnu endurskoðendum ríkisreikninganna.

Annað, sem ég vildi líka biðja n. að athuga, er það, að ef hún kemst að þeirri niðurstöðu, að hafa eigi í þessu starfi sérstakan mann, þá tel ég, að ekki eigi að skipa hann strax, heldur setja hann t. d. fyrsta árið. Ég benti á það áðan, að mikið ylti á því, hvaða maður veldist í þessa stöðu, og held því, að réttara sé að festa ekki neinn mann í henni með skipun strax, heldur reyna hann nokkuð, áður en hann er skipaður. Það mætti líka svo fara, þó að ég geri ekki ráð fyrir því, að þegar lengra liði, teldist ekki þörf á manni í þessa stöðu, og þá væri betra að hafa manninn ekki skipaðan heldur settan.

Ég taldi í sumar, þegar sparnaðarnefndin var að vinna að þessum málum, að inn í þetta frv. væri rétt að setja ákvæði um vinnutíma opinberra starfsmanna. Frá því féll ég þó eftir að lofað var, að frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna yrði lagt fyrir þetta þing. Síðan hefur sparnaðarnefndin nokkrum sinnum spurzt fyrir, hvað liði samningu þessa frv. Um leið og launalögin voru sett á Alþ., var Gunnari Thoroddsen, þm. Snæf., falið að semja slíkt frv. af þáverandi forsrh., en frv. er ekki komið til þingsins enn. Okkur í sparnaðarnefndinni hefur hvað eftir annað verið sagt, að frv. sé „nærri“ og „sama sem“ tilbúið, en opinberlega er það ekki komið fram enn. Komi það ekki fram nú næstu daga, tel ég, að mjög eigi að athuga, hvort ekki beri að setja ákvæði í þetta frv. um, að vinnutími opinberra starfsmanna verði 43 klukkutímar á viku hverri í stað 35½, eins og nú er. Mér er ljóst, að af þeirri styttingu vinnutímans, sem gerð var með reglugerð þeirri, sem kennd er við Pétur sál. Magnússon, fjölgaði starfsmönnum eðlilega og þá óx eftirvinna, en kaup fyrir hana hækkaði hann líka. Ég vildi því biðja n. að vita nú, hvað þessu frv. líði og hvort ráðh. hugsaði sér að breyta nú aftur reglugerðinni um vinnutíma starfsmanna þess opinbera, og væri svo, sem margt bendir til, að hvorugt væri í aðsigi, lagafrv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna né breyting á reglugerðinni, þá að athuga mjög vel, hvort ekki ætti að taka upp í frv. ákvæði um 43 stunda vinnuviku.

Það eru sem sagt þessi þrjú atriði, sem ég vil biðja n. að athuga:

1. Hvort réttara sé að hafa í þessu starfi sérstakan mann eða að víkka út starfssvið endurskoðenda ríkisreikninganna og fela þeim það.

2. Ef réttara telst að hafa í því sérstakan mann, þá hvort ekki sé rétt að setja hann fyrst til reynslu, en skipa hann ekki strax, því að það veltur meira á því hér, en í flestum öðrum störfum, að maðurinn reynist vel, og því færi illa, ef liðléttingur væri skipaður í starfið.

3. Að athuga, hvort ekki sé rétt að setja í frv. ákvæði um vinnutíma opinberra starfsmanna og lengja hann þá frá því sem nú er.