07.03.1949
Efri deild: 71. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í C-deild Alþingistíðinda. (3740)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Vegna þess að ég er einn af þeim 3 nm., sem ekki voru tilbúnir til þess að taka afstöðu til málsins, þegar það var til umr. í n., þá vil ég taka það fram, að ég sé ekki ástæðu til þess að greiða atkv. með því. Mér virtist þetta ekki vera lækning á því, sem lækna skal.

Það er einkum tvennt, sem um er að ræða, sem snertir vald þessa manns. Þessi ráðsmaður á að hafa vald til þess að víkja opinberum embættismönnum frá störfum, hann á að hafa vald til þess að neita því, að mönnum séu veitt störf, og hann á að hafa vald til þess að neita því, að stofnuð séu ný opinber embætti. Þetta er hugsanlegt, en þetta er varla framkvæmanlegt. Hann getur þetta ekki án þess að spyrja ráðherra. Þetta er því hugsanlegt, en varla framkvæmanlegt, því að það er ekki hægt samkvæmt okkar stjórnskipunarlögum, að slíkur embættismaður beri ekki ábyrgð gagnvart einhverjum ráðherra. Þess vegna getur hann ekki haft þetta vald, sem haldið hefur verið fram og álitið af mönnum — þó varla hér innan deildarinnar. Þessi maður verður aldrei annað en starfsmaður ráðherrans og ber ábyrgð gagnvart honum. Mér sýnist því, að það mætti koma því þannig fyrir hvenær sem er, að fjmrh. réði sér skrifstofustjóra eða fulltrúa, sem hefði þetta vald með höndum, og að hann hefði fyrir löngu getað falið honum með skipunarbréfi það vald, sem þessum manni er gefið með þessum l. Ég get þess vegna ekki greitt atkv. með þessu, vegna þess að ég hef tilfinningu fyrir því, þó að ég geti ekki rökstutt það, að þetta mál sé flutt meir til að sýnast en til að vera.