10.03.1949
Efri deild: 73. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (3754)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. kom úr n., tóku tveir nm. það fram, að þeir létu til leiðast að fylgja þessu frv., að því er virtist með háværum samvizkunnar mótmælum. Þrír nm. höfðu ekki tekið afstöðu þá, en nú er komið í ljós, að a. m. k. einn þeirra er á móti frv. Hv. þm. Barð. taldi fá fordæmi fyrir slíkri afgreiðslu í þingsögunni, og mun það líklega rétt. Það hafa þegar orðið um málið harðar umr., sem vonlegt er. Frv. heitir frv. til l. um eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana, og er aðalefni þess að setja á stofn valdamikið embætti, sem á að líta eftir öllum ríkisstofnunum, starfsmönnum ríkisins, starfsaðferðum, starfsmannahaldi, vinnuafköstum og vinnuskilyrðum. Vænti ég þess þó, að ýmislegt af þessu sé í svo góðu ástandi, að ekki þurfi sérstakar ráðstafanir til þess að kippa því í lag, t. d. ættu vinnuskilyrði opinberra starfsmanna að vera sæmileg. Það hafa verið mjög skiptar skoðanir um það, hvort nokkur þörf væri á slíkum embættismanni sem hér er gert ráð fyrir. Því hefur verið hreyft, að fjmrh. hefði fullt vald án sérstakrar löggjafar til þess að grípa inn í starfsemi ríkisstofnana í sparnaðarskyni á sama hátt og ráðsmanninum er ætlað með frv., og tel ég, að í ráðherravaldinu felist heimild til aðgerða, sem miða að því að draga úr opinberri eyðslu, enda fær ráðsmaðurinn vald sitt frá fjmrh. Hins vegar þykir mönnum kannske, að verk þau, sem ráðsmaðurinn á að vinna, séu ekki nógu fín eða líkleg til vinsælda, til þess að ráðh. megi hafa þau á hendi, heldur en hitt, að hann hafi skort til þess vald.

Ég gerði mér þess strax ljósa grein, þegar ég sá þetta frv., að mjög mikið væri undir því komið, hvers konar maður veldist í þetta ráðsmannsstarf. Ef það yrði ekki dugandi, atkvæðamikill maður, sem gæti starfað öllum óháður, þá væri þetta líklegt til að verða að engu gagni, en væru hins vegar líkindi til þess, að það yrði ekki einum hálaunuðum og valdamiklum starfsmanni bætt við ríkisbáknið, heldur jafnvel stórri og umsvifamikilli ríkisstofnun. Hvað eftir annað virðist orðalag frv. benda til þess, að það væri fyllilega heimilt, að nokkuð stórt starfsmannabákn myndaðist kringum þennan embættismann.

Í 2. gr. frv. er talað um starfslið þessa manns, og í grg. frv. er talað um, að þetta eftirlitsstarf eigi að felast sérstakri stofnun með svo miklu valdi, sem lýst hefur verið hér að framan. Ég er því ákaflega hræddur um það, þó að svo færi hjá þessum embættismanni, að lítið áynnist í þá átt að draga úr kostnaðinum við ríkisbáknið, en þetta yrði voldug og fjölmenn stofnun, þá yrði hægt að finna því stoð í frv., að við því hefði strax verið búizt. Þar er talað um starfslið, ekki eingöngu ráðsmann, heldur sérstaka stofnun, sem undir hann eigi að heyra, til að framkvæma þessar sparnaðaraðgerðir. Ég skal ekki draga neina dul á það, að ég óttast, að hér bætist við, ekki aðeins hálaunaður embættismaður, heldur dýr ríkisstofnun, sem mjög er undir hælinn lagt, að verði að verulegu gagni, en það væri neikvæð sparnaðarráðstöfun, ef árangurinn yrði lítill eða enginn, en kostnaðurinn við mannmarga, nýja ríkisstofnun bættist ofan á allt annað.

Ég fæ ekki með neinu móti skilið, að ráðherravaldið dugi ekki sem bakhjarl við dugandi skrifstofustjóra í hverri stjórnardeild til þess að sjá því nokkurn veginn borgið, að vinnuafköstin séu í sæmilegu lagi, að starfsaðferðir tilheyri nútímanum, en ekki löngu liðinni fortíð, að vinnuskilyrði séu sóknasamleg og starfsmannahaldi stillt í hóf. Ég fæ ekki skilið, að ríkisvaldið dugi ekki til þessa, ef verkstjórar eru sæmilega trúir og verkkunnandi skrifstofustjórar. En ef þetta vald, sem nú er fyrir hendi, dugir ekki, þá er ég hræddur um að, að litlu gagni komi, þó að ráðsmaður ríkisins með allt sitt vald, — sem þó er aðeins umboðsmaður ráðh., - komi í þessa eða hina ríkisstofnunina, setjist þar niður og horfi á vinnubrögðin og vinnuskilyrði starfsfólksins. Ég er hræddur um, að hann geti ekki séð, hvaða verkefni eigi þar að leysa eða með hvaða hætti þau bezt verði leyst. En síðan á hann að skera úr um það, hvað fækka megi starfsfólki, og fyrirskipa, að hér megi fækka um einn, þarna megi fækka um tvo eða þrjá o: s. frv. Ég er hræddur um, að það verði af þeim, sem hafa stjórnað þessari vinnu og hafa talið sig þurfa þennan starfsmannafjölda, sem fyrir hendi er, vefengdir svona úrskurðir, sem felldir væru af ráðsmanni ríkisins, sem hefði undir flestum kringumstæðum haft mjög skamma dvöl í stofnuninni. Ég hygg líka, að mikill málflutningur mundi hefjast, eftir að ráðsmaðurinn hefði gert sínar till. við æðstu yfirmenn viðkomandi ríkisstofnana, um að ekki væri hægt að fækka fólki, ekki væri hægt að draga úr kostnaði og ekki væri hægt að bæta vinnuskilyrðin og þess vegna yrði allt að sitja við það sama eða jafnvel þyrfti að bæta við starfsfólki, verkefnin væru svo mikil.

Ég veit það ósköp vel, að það gæti verið ofverk fjmrh. eins að fylgjast með þessu í öllum ríkisstofnunum, hvort starfsmannafjöldinn sé ekki umfram brýnustu þörf, en sé gott samstarf milli allra ráðh. ríkisstj. um að hafa á þessu gott aðhald og eftirlit hver í sínu ráðun. og þeim stofnunum, sem undir hann heyra, þá held ég, að þetta verk sé framkvæmanlegt af 6 manna ríkisstj. og þurfi ekki nýtt embætti til viðbótar til þessa starfa. Ég hygg líka, að ráðh., hver um sig, hafi myndað sér skoðun um það, hvort mannahald keyri úr hófi fram í þeirra eigin ráðuneytum. Ég er sannfærður um það, að hæstv. fjmrh. getur gefið deildinni vitneskju um það, hvort hann telji of margt starfsfólk í fjmrn. og hvort hann álíti, að hægt væri að fækka þar um einn, tvo eða þrjá starfsmenn. Það mætti vera glöggskyggn ráðsmaður, sem kæmi í fjmrn. og sæi þetta betur eftir skamma viðdvöl heldur en fjmrh., sem búinn er að hafa æðstu yfirstjórn þar í tvö ár. Svar hans verður nú annaðhvort, að hann telur, að fækka megi, eða þá, að ekki sé hægt að fækka. Ef fjmrh. svarar því, að í sínu rn. sé ekki hægt að fækka fólki, þá er a. m. k. ákaflega lítil von til þess, að till. frá ráðsmanni ríkisins um fækkun starfsfólks yrði þar tekin til greina. Og ef svo yrði í hverju rn. og í hverri ríkisstofnun, þá sér maður, hvernig árangurinn gæti orðið af þessu. Hins vegar held ég, að svo framarlega sem fækkun starfsfólks er möguleg og forsvaranleg, geti hver ráðh. um sig framkvæmt slíka breytingu á vinnubrögðum í samráði við skrifstofustjóra sína og hafi alla þá aðstöðu, sem hægt er að veita ríkisráðsmanni með ráðherraumboði til þess að framkvæma það verk. Ef ráðsmaður ríkisins gerði till. um að leggja niður stjórnardeild eða ríkisstofnun, þá yrði það ekki gert nema með samþykki viðkomandi ríkisstj. Það yrði að gera slíkt í tillöguformi, og af framkvæmd yrði ekki, nema ríkisstj. samþ. Væri um lögbundin embætti að ræða, sem ráðsmaðurinn legði til að fækka embættismönnum í, þá yrði ríkisstj. sennilega að flytja stjfrv. um slíka niðurlagningu embætta, og er það verk, sem hún gæti unnið án ráðsmanns að óbreyttri löggjöf.

Aðalmótbáran, sem fjmrh. bar hér fram gegn því, að þetta verksvið ráðsmannsins væri látið falla undir ráðh. og þá sérstaklega fjmrh., var sú, að fjmrh. fengi ekki vitneskju um eyðsluna fyrr en eftir á. Nú er mér spurn: Eru nokkur líkindi til þess, að nokkur embættismaður ríkisins fengi vitneskju um eyðslu ríkisstofnana á undan sjálfum fjmrh.? Mér finnst það óhugsandi. Ef því fjmrh. hefur ekki aðstöðu til að grípa inn í, af því að hann fái vitneskju um það, sem gert er, of seint, þá er starfsaðstaða ráðsmannsins ekki betri hvað þetta snertir. Honum væri jafnómögulegt að grípa þar inn í af þeirri ástæðu, að hann fengi ekki vitneskju um eyðsluna fyrr en of seint.

Það, sem ég hef nú um þetta sagt, ber allt að sama brunni, að ég óttast, að hér verði aðeins sú neikvæða sparnaðarráðstöfun framkvæmd, að við ríkisbáknið bætist valdamikill, hálaunaður embættismaður með heimild til þess að skipa um sig starfsliði og búa til nýja ríkisstofnun, sem síður en svo er líkleg til þess að verða til sparnaðar í ríkisbúskapnum. Þá er vitanlega verr farið, en heima setið. Ég hef enga trú á sparnaði í ríkisrekstrinum, fyrr en ráðh. taka sig til, hverjir sem þeir eru, og sýna þá rögg af sér að láta kanna það, hvort hægt er framkvæma umbætur á starfsmannahaldi og vinnubrögðum, hver í sínu ráðun. og þeim ríkisstofnunum, sem undir þá heyra, og láti að sér kveða við þá sérfræðinga, sem þeir hafa, um að þar verði framkvæmdar þær sparnaðaraðgerðir, sem yfirleitt eru framkvæmanlegar.