22.04.1949
Efri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (3778)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Út af ræðu hv. 1. þm. N-M. skal ég segja það, að þó að það geti vel farið svo, ef þetta nær fram að ganga og þessi tilraun verður gerð, að það yrði að setja í þetta mann til bráðabirgða, þá er ekki gott að vera lagalega skyldugur til þess að setja manninn í þetta starf, því að ef einhver verulega fær maður og duglegur vildi gefa sig í það, þá virðist mér, að honum mundi þykja það óaðgengilegra að vera settur í starfið heldur en að vera skipaður, og engin trygging er fyrir því, þó að hann yrði settur í starfið til að byrja með, að hann yrði svo skipaður á eftir. Það er ekki gott að vita, hvort sá fjmrh., sem setti hann í þetta starf, kannske fyrir part af ári, hefði vald á því að skipa hann í starfið að þeim tíma liðnum. Þess vegna finnst mér þetta fyrirkomulag á þessu, sem hv. 1. þm. N-M. leggur til, óviðkunnanlegt og legg á móti því, að það verði samþ., enda hefur það ekki verið venja um svo veglegar stöður og þessa stöðu, sem hér er um að ræða, að það sé gert að lagalegri skyldu, að maðurinn, sem í þær fer, sé settur fyrst, en ekki skipaður strax.

Um brtt. 2, undir ,a- og b-lið, sem hér eru, er það að segja, að það, sem þar er tekið fram, er frekar reglugerðaratriði heldur en efni í lagaákvæði. Hins vegar get ég sagt, eins og hæstv. dómsmrh., að mér er það ekki á móti skapi, þótt till. undir b-lið sé lögfest. Menn vita, að það eru talsverð átök um þetta, og það er ekki nema gott, að Alþ. segi sitt álit um þetta, þegar það er spurt um það. En ég álít það samt frekar reglugerðaratriði heldur en efni í lagaákvæði, en skal samt ekki leggjast á móti samþykkt þeirrar till., því að það má svo oft deila um það, hvað á að standa í lögum og hvað á að vera reglugerðarákvæði. Vil ég þess vegna ekki gera þetta að frekara umtalsefni, en láta hv. d. ákveða um þetta.

Að öðru leyti álít ég ekki ástæðu til að tala mikið um þetta mál. Það var mikið rætt hér við fyrri umr. þess. Og það er nú orðið svo langt liðið á þingið, að það er bezt að fara að skera úr um það, hvort þetta mál á að fá að lifa eða ekki.

Hv. 1. þm. N-M. sagði, að ég hefði ekki talið sparnaðarnefndina með, þegar ég hefði talið upp nefndir, sem starfandi hefðu verið. Það getur verið rétt, en það var vegna þess, að hún var aldrei skipuð sem nefnd. Það voru kvaddir menn til þess að vinna saman að þessu, sem sparnaðarn. átti að gera, þó að þetta sé í daglegu tali kölluð nefnd. En það hefur engin greiðsla farið til þessarar n., og þess vegna hefur hún fallið út af þessari skrá yfir n., sem hér er um að ræða.