11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (3826)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af aths. hv. þm. V-Húnv. Hv. þm. hefur, eins og ég, komizt í það á sinni tíð að verða ráðh. stutta stund og því fengið svipaða reynslu og þeir, er koma aðvífandi og reynslulausir í þessum sökum í rn., en vilja eftir megni standa í sinni stöðu. Svo eru aðrir, er sitja þarna fyrir, skrifstofustjórar, er starfað hafa með mörgum ráðh. og rn. og hafa því miklu meiri reynslu hvað sjálf störfin snertir en pólitískir ráðh., sem koma og fara með stuttu millibili. Þeir menn, er ég kvaddi til ráðuneytis í þessu máli til að koma af stað sparnaðarviðleitni hjá stofnunum ríkisins, það voru þessir menn. Þeir hafa margra ára reynslu í þessum efnum, t. d. Gunnlaugur Briem skrifstofustjóri atvmrn., Magnús Björnsson ríkisbókari, Björn E. Árnason aðalendurskoðandi, Magnús Gíslason skrifstofustjóri fjmrn., er verið hefur allmörg ár skrifstofustjóri, en þó ekki eins lengi og Gunnlaugur Briem, og loks skrifstofustjóri félmrn., Jónas Guðmundsson. Allir þessir menn voru sammála um, að þetta eftirlit yrði byggt upp eins og segir í frv. Allir voru þeir líka sammála um, að þessi embættismaður þyrfti að hafa sterka aðstöðu — ég undirstrika sterka — það kom glöggt fram í viðræðum mínum við þá. Ég efa ekki hæfileika hv. þm. V-Húnv. á þeim sviðum, er hann hefur beitt þeim, hvort sem það hefur verið hjá því opinbera eða prívat, og ég býst ekki við því, að hann vefengi, að ég vilji líka gegna sem bezt mínum störfum. En við höfum ekki þá reynslu og þjálfun, sem þessir menn hafa hvað snertir „administration“ — svo að ég noti það útlenda orð, með leyfi hv. þm. Þegar þeir segja, að þetta sé nauðsyn, stj. fellst á það og ég þar af leiðandi fer af stað með frv., þá fylgja málinu svo sterk rök úr hlaði, er það er lagt fyrir hv. þm., sem hljóta að vera sér meðvitandi um, að þarna er mikið verk óunnið, að kynlegt er, að hv. þm. skuli leggja sig líma til að gera málið auvirðilegt, og aðstöðu viðkomandi embættismanna veikari, en hún þarf að vera samkvæmt dómi ágætustu manna. Afstaða hans er hin sama og afstaða hv. þm. Str. í Ed. Og þó lét hv. þm. Str. sér um munn fara fyrir nokkrum árum samkvæmt vitnisburði hv. þm. A-Húnv. —, að ef völ væri á vel hæfum manni í þetta starf, væri hann tilbúinn að skipa mann í það. Síðan hefur mikið bætzt við ríkisreksturinn, og ábyggilegt er, að þörfin á þessu eftirliti hefur mikið aukizt. Það kom líka fram í ræðum ýmissa þm. í þessari hv. d., m. a. í ræðu hv. 4. þm. Reykv., að þeir litu svo á þetta starf, að það væri jafnvel mest undir því komið, að í það veldist duglegur maður. Þessi skoðun kom líka fram í Ed., og ég játa, að starfið er síður en svo þannig vaxið, að ekki sé nauðsynlegt að hafa þetta í huga. Það er því út í hött að vilja fara inn á alveg nýja leið hvað veitingu þessa embættis snertir, leið, er ekki hefur tíðkazt áður. Læknar eru t. d. ekki settir í embætti til eins árs. Ef þeir hafa þá hæfileika og þau próf, er af þeim eru heimtuð, eru þeir skipaðir. Sama er að segja um sýslumenn, þeir eru líka skipaðir. Ég veit ekki til þess, að fordæmi séu um það í íslenzkri löggjöf, að menn séu fyrst teknir til reynslu í eitt ár, en síðan ákveðið að festa þá, ef Alþ. staðfestir það. Þetta er ný braut, eins og hv. þm. hlýtur að vera ljóst, og till. hans í þessa átt hljóta að byggjast á því, að hann leggur ekki eins mikið upp úr þessu starfi og þeir, sem undirbúið hafa þetta mál, og ég, er flyt það. Þetta er því kynlegra, þar sem hv. þm. er glöggur maður og hefur látið á því bera, að hann vildi hafa sparnað, eftirlit og stjórnsemi.

Af þessum ástæðum er ég andvígur brtt. hv. þm. V-Húnv. og tel, ef þær verða samþ., frv. jafnvel ónýtt. Það hefur þegar verið mikið dregið úr því með breyt., sem flokksbróðir hans í Ed. fékk inn í frv. Það er athyglisvert, þegar byggja á upp starfsemi til að reyna að stuðla að sparsemi, að þá skuli tveir þm. úr Framsfl. vilja hefja nýja aðferð í veitingu þessa starfs, sem hlýtur að leiða af sér, að ekki verður auðvelt að fá valinn mann, því að það er gefið, að það verður því erfiðara, ef vitað er fyrir fram, að eins getur verið um mjög stuttan tíma að ræða.

Ég gæti nefnt mörg dæmi, ef mér þætti það hlýða svo seint, til þess að sýna, hve nauðsynlegt þetta eftirlit er, og til þess að sýna, að eins og nú er háttað vinnubrögðum, og sama má segja um þau áður, er ákaflega víða gengið fram hjá fjmrn. af öðrum ráðun. og stofnunum með ráðstöfunum, er hafa skuldbundið fjmrn., jafnvel umfram framlög samkvæmt fjárl. Fjmrn. er gert meira eða minna valdalaust, þar til á að borga reikninginn, og þá er ekki völ á öðru, en að gera uppreisn gegn meðráðh. sínum eða beygja sig. Eitt átakanlegt dæmi, sem ég hef áður skýrt frá, er lántaka póst- og símamálastjórnarinnar. Alþ. hafði að vísu þegar 1946 veitt heimild til 12 millj. kr. lántöku, en þegar aðeins fengust 6 millj. kr. hjá Landsbankanum, var hinum 6 millj. eytt af eigin fé. Og þegar hringrásin er komin í gang, verður fjmrn. að yfirdraga í Landsbankanum og fær gagnrýni af hálfu bankastj. fyrir að ná fénu út á óbeinan hátt. Vitaskuld hafði þessi embættismaður ágæt mótív, og hann hafði heimild þingsins til lántöku, en þegar bankinn veitti bara helminginn, voru fundin ráð til að leysa málið á bak við fjmrn. Það kom þannig út, að fjmrn. varð að kría þetta fé út úr bankanum síðar. Ég skal ekki nefna fleiri dæmi, en þau eru til. Það er rík tilhneiging hjá mörgum, sem hafa yfirstjórn og aðstöðu til að halda kyrru opinberu fé, að reyna að skapa aðstöðu til að geta staðið að sínum framkvæmdum, þó að þingið hafi ekki veitt fullar heimildir og fjmrn. því ekki lagt fram féð. Ég gæti nefnt dæmi í flugmálunum, sem er ákaflega nærtækt, í þessu efni, en skal ekki fara út í þá sálma nú. Það er þess vegna svo um fyrirkomulagið, hvernig staðið er að þessari vinnu, að það er bókstaflega ekki unnt fyrir fjmrn. eða fjmrh. að hafa yfir þessu fullt vald, a. m. k. ekki án þess að hafa sérstæðan embættismann, sem geti varið öllum tíma sínum til þess að líta eftir góðu skikki í þessum efnum hjá hinum ýmsu stofnunum. Og það er m. a. ástæðan til þess, að þetta frv. er fram komið. Svo er það vitað, að það er á mörgum smærri sviðum, sem gott eftirlit af hálfu dugandi manns í þessum efnum er ákaflega nauðsynlegt, manns, sem veit sig sjálfan öruggan í sessi, meðan hann gerir sínar embættisskyldur. Ég er nú kannske búinn að segja þetta áður með örfáum orðum, og ég skal ekki fara um það fleiri orðum nú. Mér er ekkert kappsmál að fá samþ. löggjöf í þessu efni, sem sé í beinni mótsetningu við allar embættaveitingar, sem þetta ríki hefur haft með höndum í öðrum efnum og á öðrum sviðum, löggjöf, sem er hálfvolg og ber það með sér, að það er ekki stofnað til nema hálfleikaaðgerða. Slík löggjöf er mér, og ég hygg hvaða fjmrh. sem væri, harla vonlítil til árangurs í þessum efnum. Það er fyrir þessar sakir, að ég hef bent á, að brtt. hv. þm. V-Húnv. eru þannig, að ef þær væru samþ. yrðu þær til þess að gera þetta mál þannig úr garði, að það geti ekki verið neitt keppikefli fyrir fjmrh. að fá þá löggjöf í sínar hendur á þann veg.