25.11.1948
Neðri deild: 22. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

2. mál, síldarbræðsluskip

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. er enn þá að stangast við samanburðinn á Hæringi og Súðinni, og þar var nú ólíku saman að jafna, sagði hann. Það er náttúrlega meira í húfi, ef Súðin færist, og þó veit ég það ekki, því að það kvað vera búið að innrétta íbúðarpláss í Hæringi fyrir 80 manns, en það er nú svo með þessi skip, að það þarf miklu meiri skrokkstyrkleika til þess að þola vélabröltið en til þess að vera í flutningum. Það þarf þannig meiri styrkleika í Hæring en Súðina, ef bæði eiga að vera jafnörugg, svo að orð hv. 7. þm. Reykv. eru út í loftið, enda veit skipaskoðunarstjóri þetta og hefur leyft sér að bera skipin saman, hvernig sem hv. 7. þm. Reykv. líkar það. Annars vildi hv. þm. áður jafnvel telja það kost, að Hæringur væri svo gamall, því að fyrir 45 árum hefðu verið smíðuð svo sterk skip, en þá er komið annað hljóð í strokkinn en þegar sjálfstæðismenn gagnrýrðu kaupin á Súðinni af þeirri ástæðu, að hún væri of gömul, en Hæringur er 20 árum eldri. Þá blés hv. þm. sig út af því, að ég hefði rangfært orð sín um brezkar skipasmíðastöðvar, sem hann sagðist álíta góðar. Það er náttúrlega gott og blessað, en þær voru þá allt of seinvirkar til þess að laga þennan kjörgrip, Hæring. Reyndar voru brezkar skipasmiðastöðvar aldrei spurðar að því, hvort þær gætu tekið verkið að sér. Því var bara slegið föstu hér heima, að svona væri það. — Þá sagði hv. þm., að vélarnar frá Óskari Halldórssyni væru góðar og álagning bara 15%, en vélar Óskars Halldórssonar eru gamalt og úrelt rusl. Slíkar vélar hafa verið notaðar hér á landi og reynzt óheppilegar. Þær hafa valdið því, að afköst verksmiðjanna minnkuðu. Hins vegar smíðar Héðinn h.f. verksmiðjuvélar, sem hafa sýnt yfirburði yfir þessar á öllum sviðum. Þessar vélar eru líka allt of dýru verði keyptar, enda var Óskar Halldórsson í vandræðum með þær og hefði mátt þakka fyrir að losna við þær fyrir hálfvirði, þannig að það var fundið fé fyrir hann, þegar hann fékk þessa spekinga í stjórn Hærings til að kaupa vélarnar, og varðandi álagninguna, þá væri gaman að sjá reikningana yfir kostnaðinn við að láta þær liggja hér. — Þá segir hv. 7. þm. Reykv., að ég sé á móti góðum málum, ef pólitískir andstæðingar eigi hlut að máli. Ég hef alls ekki flogið á þetta mál og ekkert um það sagt fyrr en það var fyrir mig lagt. Málinu var vísað til sjútvn., og sem fulltrúi í n. gat ég ekki annað en sagt álit mitt um málið. Mál sem þetta gæti auðvitað verið ópólitískt, en hv. 7. þm. Reykv. hefur reynt að gera málið að pólitískri skrautfjöður í hatti sínum á mjög ósmekklegan hátt. Bæjarstjórn Reykjavíkur átti að kjósa 2 menn í stjórn Hærings, og með venjulegri hlutfallskosningu hefðu sósíalistar átt að fá annan manninn, en til þess að fyrirbyggja það, er sjávarútvegsnefnd látin kjósa annan en bæjarstjórnin sjálf hinn. Var þar með tryggt, að engir nema trúbræður hv. þm. kæmust í stjórnina, að undanteknum einum fulltrúa frá Sjómannafélagi Reykjavíkur. Þess var þannig vandlega gætt að hafa hreint lið í stjórn Hærings, svo að engin annarleg sjónarmið gætu komið fram. Hafi því nokkur reynt að gera þetta mál pólitískt, er það hv. 7. þm. Reykv. sjálfur. Við stofnun þessa fyrirtækis leggur Reykjavíkurbær fram 1/4 kostnaðarins, ríkissjóður eða S. R. 1/4, Óskar Halldórsson 1/4, og svo ýmsir útgerðarmenn afganginn. Helmingur stofnkostnaðar er þannig greiddur af opinberu fé, og hefði því verið eðlilegt, að sjónarmið allra flokka hefðu getað komið fram í stjórn fyrirtækisins, enda hefði þá verið betur á málunum haldið. En því miður hefur þeim mönnum, sem nú ráða þar öllu, tekizt að olnboga sig fram, og þeir eru svo þröngsýnir, að þeir hafa ekki leitað til neins verkfræðings nema Jóns Gunnarssonar, sem er byggingarverkfræðingur, en ekki vélaverkfræðingur, og er ekki nægilega kunnugur slíkum málum. Hv. þm. segir, að amerískir vélaverkfræðingar hafi sett niður vélarnar. En vélarnar voru bara settar í skipið hér heima. Það voru undirstöðurnar, sem settar voru niður vestur í Ameríku, svo að það er staðfest, að hér hafa engir fagmenn nærri komið nema „fagmennirnir“ Jóhann Hafstein, Sveinn Benediktsson og Jón Gunnarsson. Hv. þm. sagði að ég hefði sagt, að ekkert annað skip hafi verið skoðað og væri það ósatt, Ólafur Sigurðsson hefði athugað annað skip. Ég tók það einmitt fram, að hann hefði athugað annað skip, sem Jón Gunnarsson hafði einnig á hendinni, en tilboðin frá Evrópu voru aldrei athuguð, því að það var fyrir fram ákveðið að kaupa skip frá Ameríku, skip, sem Jón Gunnarsson hefði á hendinni. — Þá segir hv. þm., að málið hafi verið lagt fyrir fjárhagsráð og ríkisstjórn áður en kaupin voru gerð. Þetta segir hv. þm., eftir að hæstv. viðskmrh. hefur lýst yfir því, að málið hafi ekki verið lagt fyrir sig fyrr en kaupin voru gerð. Hvað er ríkisstj. í þessu tilfelli? Ég hélt, að slíkt mál heyrði undir viðskmrh., og vill hv. þm. standa hér upp og væna hæstv. viðskmrh. um ósannindi. Ég geri það ekki, og þá stendur það óhaggað, að þeir miklu menn í stjórn Hærings hafa ákveðið upp á sitt eindæmi að kaupa til landsins 45 ára gamalt skip, enda þótt bannað sé með lögum að kaupa skip, sem sé eldra en 12 ára. En það var voldugur flokkur á bak við þessa menn. Hann gat alltaf reddað þeim, þótt þeir hefðu keypt 100 ára gamalt skip til landsins: Skipið er þó ekki það afleitt, að ekki sé rétt að leyfa innflutning á því, úr því sem komið er, og legg ég því ekki til að þingið neiti að staðfesta þessi brbl., og vona ég, að skipið sé þó svo sterkt, að það geti sinnt því hlutverki, sem því er ætlað. Hv. 7. þm. Reykv. bar á mig, að ég vildi væna Jón Gunnarsson um óheiðarleika í viðskiptum. Þetta er mesti misskilningur. Ég veit ekki betur en hann hafi alltaf verið heiðarlegur í viðskiptum, þegar hann var framkvæmdastjóri S. R., og ekki veit ég til þess, að hann hafi dregið sér fé. Hins vegar er Jón Gunnarsson algerlega sjálfráður sinna gerða, og þegar hann hefur skip á hendinni, hver getur þá bannað honum að selja það æstum kaupendum, og þegar hann hefur umboð fyrir California Press, hver getur þá bannað honum að reyna að selja vélarnar frá því firma? En þegar stjórn Hærings gerir þennan mann að sínum eina sérfræðingi, þá er það atriði, sem hv. 7. þm. Reykv. á eftir að skýra.