25.11.1948
Neðri deild: 22. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

2. mál, síldarbræðsluskip

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Ég vil undirstrika það, að það er að sumu leyti rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sjútvn. sagði, að þetta, sem við höfum deilt um, hv. 7. þm. Reykv. og ég, snertir ekki beint þetta innflutningsleyfi. Það er rétt, að um það er í raun og veru ekki ágreiningur. Hv. 7. þm. Reykv. dró þetta inn í umr., að því er hann telur að gefnu tilefni vegna ummæla í nál. mínu, og ég skal ekki lá honum það. Ég veit ekki, hvað gengur að þessum hv. þm., því að hann er farinn að heyra og sjá líka eitthvað, sem hvorki heyrist né sést. Hann segir, að ég hafi verið að dylgja um það, að Jón Gunnarsson hafi framið ólöglegt athæfi, og síðan snúið því við og sagt, að það hafi verið stjórn Hærings, sem gerði það. Hv. þm. vill segja, að Jóni Gunnarssyni hafi ekki verið falið að kaupa skipið, en hann hafði skipið á hendinni og bauð stjórn Hærings það, og útkoman er svo sú, að stjórn Hærings fól honum og Ólafi Sigurðssyni að kaupa skip. Að Jón Gunnarsson hafi ekki komið nálægt skipakaupunum, það brýtur í bága við allt, sem hv. þm. hefur um þetta sagt, og allar fréttir, sem Morgunblaðið hefur um þetta flutt, þar sem það tilkynnir, að þessir tveir menn hafi farið fyrir stjórn Hærings til Ameríku til að kaupa skip. Hv. þm. ferst mjög óhöndulega, þegar hann í öllum ræðum sínum nú heldur því fram, að Jón Gunnarsson hafi ekki komið nærri skipakaupunum. Fyrst og fremst liggja fyrir prentaðar upplýsingar um, að honum var falið ásamt Ólafi Sigurðssyni að kaupa skipið, og Jón Gunnarsson hefur aldrei farið dult með, að hann hefði skipið á Hendinni. Þetta kom líka fram í skýrslum, sem sjútvn. hafði til meðferðar. Eins og ég

hef áður sagt, þá er stjórn Hærings ámælisverð fyrir þetta, og sú framkoma stjórnar Hærings hefur ekki verið skýrð enn þá.

Hv. 7. þm. Reykv. ruglar einnig hugtökum mjög hættulega, þegar hann segir, að ég hafi fullyrt, að engir vélaverkfræðingar hafi komið nálægt þessu. Þetta er vitleysa: Það er vitað, að vélaverkfræðingar h.f. Héðins og landssmiðjunnar hafa unnið við skipið. Þetta er sama ruglið og með Jón Gunnarsson. Það er annað mál fyrir h.f. Hæring að segja við h.f. Héðinn og landssmiðjuna: „Við þurfum að fá hjá ykkur vélar“ — eða að segja líka: „en þið verðið líka að skaffa okkur alla fagþekkingu. við höfum enga sérfræðinga.“ Ég er óviss um, að þessi vélaverkstæði kæri sig um að taka á sig slíka ábyrgð. Það eru engin dæmi þess, að viðkomandi fyrirtæki, eins og í þessu tilfelli h.f. Hæringur; hafi ekki trúnaðarmenn í slíkum tilfellum. Hv. 7. þm. Reykv. veit, að þó að þessi félög taki að sér verkið, þá er þar ekki um að ræða sérþekkingu, sem h.f. Hæringur getur treyst án þess að hafa sérfræðing í vélaverkfræði sem trúnaðarmann til að fylgjast með verkinu.

Þá var hv. þm. að tala um skipin, sem skoðuð voru. Það er einkenni á honum, að hann skákar í því skjóli, að hann og örfáir aðrir menn sitji inni með alla þekkingu og vitneskju í þessu máli. Hann gerði pólitískt bragð til þess að útiloka, að sósíalistar fengju mann í undirbúningsnefndina, og hefur þannig komizt hjá því, að þeir hefðu neina aðstöðu til að geta fylgzt með því, sem gert var í þessu máli. Allar sínar heimildir hafa sósíalistar frá því, sem hv. þm. hefur um þetta sagt, en hann hefur mjög um þetta talað og skrifað og þá sérstaklega í Morgunblaðið. Þetta eru heimildirnar, sem bæjarfulltrúarnir utan Sjálfstfl. hafa yfirleitt haft um þetta mál. Nú hefur þessi hv. þm. haldið því fram, að það hafi verið skoðað eitt skip sérstaklega. Ég get fullvissað hv. þm. um, að ég veit um þetta. Ég veit, að það voru skoðuð tvö skip, skip Jóns Gunnarssonar, og þegar fulltrúarnir komu til Ameríku, þá fréttu þeir að öðru skipi„ mjög svipuðu, sem búið var að klassa. Þá vildu þeir heldur snúa sér að því. Þegar til kom, þá var búið að selja það, en síðan gengu kaupin til baka. Það var nákvæmlega sama sölufélagið og sami maðurinn, sem hafði með bæði þessi skip að gera. Nú vil ég ráðleggja þessum hv. þm., þegar hann kemur heim, að spyrja húsbændur sína, þá, sem eru honum fróðari og reyndari, um, hvort þetta sé ekki svona, eins og ég hef sagt, áður en hann fer að fullyrða það í fjórða sinn, að þetta sé rangt. Og ég segi þetta af vinskap til hv: þm. —- Ástæðan fyrir því, að ekki hefur verið hreyft mótmælum fyrr gegn því, sem hér hefur farið fram, er sú, að það hefur aldrei verið sýnt inn í þetta mál, fyrr en þau plögg, sem hér liggja fyrir, komu fram og skipið kom og menn fengu tækifæri til að sjá það. Það kemur svo í ljós, að í þeim upplýsingum, sem menn áður höfðu fengið um þetta, er stór skammtur af blekkingum.

Að endingu viðvíkjandi Óskari Halldórssyni og að það hafi verið margir um boðið. Það veit hver einasti maður, að það voru ekki margir um boðið. Ég býst við, að það hefði ekki verið hægt þó að leitað hefði verið með logandi ljósi um allt landið, að finna neinn annan aðila, en Svein Benediktsson til að kaupa þessar gömlu vélar. Reynslan hefur sýnt, að nýjar vélar eru margfalt betri en þær gömlu.