04.11.1948
Neðri deild: 10. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í C-deild Alþingistíðinda. (3888)

39. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Eins og hv. 1. flm. þessa frv. tók fram, hefur það verið flutt hér áður, en er nú í dálítið breyttri mynd. Efni þess er þó óbreytt, en það, sem hefur breytzt, er það, að nú er það heill flokkur, stærsti þingflokkurinn, sem raðar sér sem flm. málsins, svo að útlit er fyrir, að hér sé um pólitískt frv. að ræða.

En nú skulum við rifja upp, hvaða undirtektir þetta mál hefur fengið í verkalýðsfélögunum, hagsmunasamtökum verkamanna. Verkamenn hafa rekið sig á það í hvert sinn og komið hefur til átaka innan verkalýðsfélaganna, að hagsmunir þeirra hafa aldrei verið hinir sömu og hagsmunir atvinnurekendanna, sem nú raða sér um þetta frv. Um verkamannafélagið Dagsbrún, sem ég hef verið formaður fyrir í 6 ár, get ég sagt það, að á þessu tímabili hefur enginn sjálfstæðisverkamaður haft svo mikið fyrir að ræða þetta mál í félaginu, svo að ekki er það fram borið hér fyrir þá né aðra verkamenn. Þegar þetta frv. kom fyrst fram, var það upphaflega rætt í trúnaðarmannaráði Dagsbrúnar, og þar mælti ekki einn einasti með því. Því var þvert á móti mótmælt með öllum greiddum atkvæðum. Um sama leyti var almennur fundur í Dagsbrún, og var mál þetta lagt fyrir hann. Þar voru samþykkt mótmæli gegn því og rökstudd með því, að slíkt fyrirkomulag mundi valda pólitískum deilum og flokkadráttum innan félaganna. Þarna voru um 600 manns á fundi, og fundurinn samþykkti harðorð mótmæli gegn þessu frv. með öllum greiddum atkvæðum gegn 5, og enginn af þessum 600 verkamönnum reis upp til að mótmæla því gerræði, sem hv. flm. þessa frv. þykjast vera að firra verkamenn. En hvers vegna koma þeir þá með þetta frv.? Ekki líklega til að fordæma það, að menn í frjálsu þjóðfélagi ráði sjálfir fyrirkomulagi félaga sinna, ef þau eru löglega stofnuð og starfrækt. Það er illt til þess að vita og kemur naumast af góðu, þegar algerlega óviðkomandi menn og ótilkvaddir ætla að fara að setja frjálsum félögum reglum um innri mál þeirra og tilhögun. Ég gæti hugsað mér, að þeir mundu vitna í Búnaðarfélagið, að þar séu hlutfallskosningar. Þar gegnir allt öðru máli, sbr. þá gífurlegu fjárveitingu, sem Búnaðarfélagið hefur fengið frá ríkinu. Ef verkalýðsfélögin hefðu fjárstyrk frá hinu opinbera, væru hlutfallskosningar eðlilegri. En verkalýðsfélögin eru hrein hagsmunafélög, sem byggja tilveru sína á baráttu fyrir kjörum meðlima sinna, en ekki almannafé.

Hitt er svo annað mál, að verkamönnum er það ekkert undrunarefni, þó að mál sem þetta sé borið fram hér gegn þeim, því að þeir hafa ekki átt svo miklum skilningi að mæta á hæstv. Alþingi, að þeir búist beinlínis við hagsbótamálum héðan. Það liggur við, að öll afskipti Alþ. af verkamönnum hafi verið til að hefta starfsemi verkalýðsfélaganna. Við hv. 11. landsk. bárum t. d. fram till. um togaravökulögin í fyrra. Það var þá talið, að það mál væri alveg hreint frámunalega hættulegt fyrir afkomu sjávarútvegsins. Síðan var því máli vísað til ríkisstj., og hefur ekki verið hreyft við því síðan. Í hvert sinn, sem verkalýðssamtökin hafa lagt frv. um breytingar fyrir Alþ., t. d. um togaravökulögin, hefur verið unnið á móti þeim eins og hægt er, og reynslan hefur sýnt, að löggjafinn hefur orðið hagsmunamálum verkalýðsins fjötur um fót. Hér hefur gengið erfiðast að fá skilning á hlutverki verkamannsins í þjóðfélaginu, og nú á Alþ. að fara að blanda sér í innri mál verkalýðsfélaganna.

Og hvílík lýðræðishugsjón er hér boðuð. Ef einn fimmti hluti stéttarfélags kemur fram með það að heimta hlutfallskosningu, en 4/5 hlutar félagsins greiða atkvæði á móti hlutfallskosningu, þá mælir þetta frv. svo fyrir, að þessi fimmtungur skuli ráða fyrir 4/5 félagsmanna. Þetta er nú lýðræði. Löggjafinn á að fara að lögbjóða, að fimmti hluti félagsmanna skuli vera rétthærri, en allir aðrir félagsmenn til samans. Menn, sem hafa byggt upp verkalýðsfélögin og barizt fyrir málum verkamanna, skulu lúta í lægra haldi og margfaldur meiri hluti félagsmanna með þeim, ef aðeins tekst að vekja upp 1/5 hluta félagsmanna gegn yfirgnæfandi meiri hluta þeirra. Það er stórfurðulegt, svo að ekki sé meira sagt, að heill þingflokkur skuli koma fram með annað eins og þetta, og þar að auki er vert að athuga það, að enginn þessara manna er í verkalýðsfélagi, enginn þeirra hefur þurft að berjast á vettvangi verkamannsins, og með flutningi þessa frv. eru þeir ekki að berjast fyrir verkamenn. — Ég trúi því ekki fyrr en ég sé og tek á því, að þetta frv. fari sem l. út úr Alþ., þingmenn fótumtroði svo rétt samborgaranna sem hér er lagt til og í eðli sinu er brot á stjórnarskrá landsins.

Ég vildi aðeins lýsa þessu yfir, um leið og ég læt þá öruggu von í ljós, að allir þm., sem unna réttlæti og frjálslyndi, sameinist um að fella þetta frv., ef það kemst svo langt.