21.02.1949
Efri deild: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í C-deild Alþingistíðinda. (3962)

98. mál, atvinna við siglingar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það hefur verið lagt hér fram til 1. umr. frv. til l. um breyt. á l. nr. 66 17. júlí 1946, um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum, þskj. 371, og fylgir því engin framsaga. En ég vildi gjarnan nota þetta tækifæri til þess að spyrja hæstv. sjútvmrh. nokkurra spurninga í sambandi við þetta mál, áður en það er sett í n., svo að n. viti, hvernig hann lítur á það mál. Eins og hæstv. ráðh. er kunnugt, var þessum l. breytt nýlega með harðri deilu í þ., og þótt meiri hl. Alþ. tæki á sig þá ábyrgð að samþ. þá lagabreyt., hefur reynslan sýnt, að sú lagabreyt. hefur stóraukið öryggisleysið í flotanum og fjölgað stórkostlega bilunum á mótorbátum. Nú er enn höggvið í sama runn og farið enn lengra í þá átt að veikja öryggið, þrátt fyrir það, að vitað er, að nú eru 70–80 manns í skóla til þess að setjast í þessar stöður. Ég sé, að í 18. gr. hefur verið sett inn í Nd. fyrirmæli um, að ríkisstj. skuli nú þegar skipa n. til þess að endurskoða og samræma öll l. og reglugerðir um nám og réttindi vélstjóra á íslenzkum skipum. Skulu stéttarfélög mótorvélstjóra og vélstjóra eiga fulltrúa í þeirri n., og skal n. þessi hafa lokið endurskoðun og skilað áliti til ríkisstj. fyrir 1. jan. 1950. Nú vildi ég spyrja hæstv. ráðh.: Er honum kunnugt um þessar breyt. og að þær hafi verið samþ. í Nd.? Þorir hann eða vill hann taka á sig ábyrgð á þeirri öryggisrýrnun, sem það hefur í för með sér, ef þetta verður samþ., eða gerir hann sér ekki grein fyrir þeirri öryggisrýrnun ?

Það er sjáanlegt, að hv. Nd. telur mjög nauðsynlegt, að lög og reglur um réttindi vélstjóra á íslenzkum skipum sé endurskoðað, og verður að fá um það samkomulag. En er þá ekki heppilegri lausn á málinu að afgr. það með rökst. dagskrá en þó að hægt væri að knýja fram um það lagaboð, til þess að þessi skipun gæti verið um nokkurra mánaða skeið? Ég vildi aðeins óska þess, að hæstv. ráðh. skýrði þetta ofurlítið, áður en málið verður tekið fyrir af sjútvn.