10.05.1949
Efri deild: 102. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í C-deild Alþingistíðinda. (3977)

98. mál, atvinna við siglingar

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var til meðferðar í sjútvn., stóð svo á, að ég gat ekki um tíma sótt fundi, og þess vegna hef ég ekki getað kynnt mér málið sem skyldi. Auk þess er málið þannig vaxið, að erfitt er fyrir þá, sem ekki eru lærðir í þessum fræðum, að gera sér glögga grein fyrir þeim ágreiningi, er um það hefur orðið, svo að maður sé viss um að fylgja því, sem réttast er og hagkvæmast. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, og því meir sem ég hef hugsað um málið, því meir hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, að ég eigi ekki samleið með þeim, sem vilja samþ. að veita þessum vélamönnum aukin réttindi. Ég get kannske ekki gert grein fyrir þessari niðurstöðu sem skyldi, en ég vil fyrst taka það fram, að ég tel ekki mikla nauðsyn á því, að frv. gangi fram á þessu þingi. Það er ekki mjög mikil nauðsyn að reka á eftir því að gefa þessar undanþágur, því að ef hörgull er á vélamönnum, sem getur verið, þá er hægt að halda við þessum undanþágum, þar til l. hafa verið endurskoðuð, svo að allir geti við unað. Mér skilst, að það sé allra manna mál, að ekki sé viðunandi, að l. séu ekki sett í það form, er unað verði við til frambúðar. Ég tel því, að það sé að rasa um ráð fram, ef gera á bráðabirgðabreyt. á l., sem um er deilt, samtímis því sem allir eru sammála um, að endurskoða þurfi l. og koma þeim á grundvöll, er byggt verði á til frambúðar. Hv. þm. Barð. las hér bréf frá Fiskifélagi Íslands, þar sem það lýsir sig fylgjandi því, að málinu sé frestað, l. tekin til endurskoðunar og reynt að leggja fram frv. um þetta fyrir næsta Alþ. Mín skoðun er sú, að þetta sé skynsamlegasta lausnin á málinu. Það er heppilegast að vísa málinu frá eða fella úr frv. þau atriði, sem mest er um deilt, réttindi þau, sem vélamönnum eru þar gefin, en hafa undanþáguheimild, svo að stjórnarvöldin geti veitt nauðsynlegar undanþágur, meðan ekki er gengið frá l. til fullnustu.

Eitt er það, sem maður rekur augun í, þegar maður athugar þetta mál, og það er, að þeir, sem stunda nám í vélskólanum og búnir eru að vera fjóra vetur við smíðanám og tvo við skólanám, geta ekki orðið aðstoðarmenn hjá mönnum, er eiga að fá réttindi eftir sex mánaða námskeið og tveggja ára smiðjutíma — að vísu hafa þeir haft lengri starfstíma. Hér virðist skjóta nokkuð skökku við. Hv. 6. landsk. hyggst að bæta úr þessu með till., er hann flytur á þskj. 649, en mér sýnist, að það væri að bæta gráu ofan á svart að samþ. þá till. Til þess að geta veitt vélamönnunum aukin réttindi ætlar hann að draga úr námskvöðinni, svo að þeir gefi fengið að vinna við ákveðna stærð véla án þess að ganga í rafmagnsdeild einn vetur, eins og nú er ákveðið í l. Ég fæ ekki betur séð en að það sé að bæta gráu ofan á svart að fara að breyta þessu.

Ég vildi gera þessa grein fyrir afstöðu minni, því að hún hefur ekki komið skýrt fram áður, og ég verð að viðurkenna, að skoðanir mínar hafa breytzt talsvert mikið við meðferð málsins. Ég mun verða fylgjandi því, að þessari lagasetningu verði frestað og að fullkomin endurskoðun fari fram á l. Ef þess er þörf, má setja inn heimild til undanþágu; ég er ekki svo vel að mér, að ég viti, hvort slík heimild er fyrir hendi, en mig minnir, að ég hafi heyrt, að hún sé talin hæpin.